Í dag, 17. desember, segir í Jólaalmanaki húsmóðurinnar;

Nú ljúkum við við jólaþvottinn. Íbúðin er að fá á sig jólalegan blæ og allir dunkar eru fullir af smákökum. Ekki má gleyma að kaupa jólaservíetturnar og kertin. 

Það er svo sannarlega jólalegt um að litast á heimilinu mínu, en við erum búin að skreyta allt. Skrautið er reyndar töluvert á ferðinni, en þeim heimilismeðlimi sem er fjögurra og hálfs (honum finnst mjög mikilvægt að tilgreina hálfa árið) þykir gaman að skoða það og það er honum alveg velkomið.

 

Í dag átti ég, samkvæmt plani, að losa átta hluti af heimilinu. Nú er svo komið að ég er farin að bæta í á hverjum degi og í dag voru það líklega þrettán flíkur sem fóru í Rauða kross-pokann góða. Þó svo að jóladagatalið“ sé ekki yfirstaðið er farið að síga á seinni hlutann. Sérstaklega af því að ég snéri öllu við og losaði um 24 hluti þann 1. desember og hef svo verið að vinna mig niður og sá síðasti mun fara út á aðfangadag.

Eins og ég hef sagt frá átti ég ekki mikið umfram dót, bæði vegna þess hve oft ég hef flutt milli íbúða síðustu ár, en einnig vegna þess að ég hef verið að tileinka mér þennan hugsunarhátt síðustu mánuði, að vera með gagnrýna hugsun á það hvað ég er með í kringum mig. Ég var því nokkuð fljót að fara í gegnum alla íbúðina mína, alla skápa og skúffur, sem og að horfa yfir öll rými hennar og fjarlægja það sem við erum ekki að nota eða veitir okkur ekki gleði.

Að því loknu gerði ég það sama við geymsluna og þar var meiri óreiða en ég hafði áttað mig á. Ég er nú langt komin með hana, búin að fara yfir bækur, öll föt sem ég geymdi af krökkunum, verkfæri, jólaskrautið og allskonar óræða“ kassa. Þið vitið, kassana sem maður opnar og lokar strax aftur að því þeir eru svo hræðilegir og maður veit ekkert hvað á að gera við samsafnið sem í þeim er. Já, einmitt, þessa sem innihalda tvo gamla verðlaunapeninga fyrir spjótkast þegar maður var tíu ára, stúdentshúfuna, orðabók, þrjá mismunandi kertastjaka og kannski gamalt Trivial Pursuit. Ég er semsagt búin að tækla nokkra slíka.

Í leitinni hefur ýmislegt ómetanlegt komið í leitirnar, þá ber þar helst fullt af litlum videospólum með myndböndum af krökkunum síðan þau voru lítil, eitthvað sem ég mun koma í digital-form eftir áramót. Ég á ennþá eftir að fara yfir „gulla-kassa“ barnanna, sem innihalda teikningar og allskonar verk sem þau hafa skapað gegnum tíðina, en þar mun ég ekki skera mikið niður. Að sama skapi hefst almennileg „digital-tiltekt“ ekki fyrr en eftir áramót. Nánar um það síðar.

Vinkona mín spurði mig svo í gær hvort ég fyndi einhvern mun og hvaða máli þetta skipti mig. Sko. Aftur, ég það var alls ekkert „klötter“ í kringum mig þannig að því leyti finn ég kannski engan brjálæðan mun, nema þá í geymslunni. Eða, jújú, auðvitað finn ég líka mun hér í íbúðinni eftir þessa miklu yfirferð.

Það sem mér finnst skipta mestu fyrir mig núna er að ég er bara með hluti í kringum mig sem ég nota og langar að hafa í umhverfinu mínu. Einngi veit nákvæmlega hvað ég á og hvar það er. Ég veit líka að geymslan er ekki full af einhverju bulli sem ég mun bera út í flutningabíl og troða inn í næstu geymslu þegar ég flyt.

Hér má lesa viðtal um þetta sem ég fór í hjá Smartlandi um daginn. 

En, ég sé að þetta ferli klárast ekki á þessum örfáu dögum til jóla, eða, ég verð allavega að halda áfram að losa umfram planið til jóla. Frá þessu og svo miklu fleiru segi ég daglega frá á Instagram.

 

Pin It on Pinterest