Í Jólaalmanaki húsmóðurinnar segir í dag:

Þegar útlitið er komið í lag (því í gær var uppálagt að fara í klippingu og snyrtingu) er ágætt að renna yfir ibúðina og
gera það sem kann að vera ógert i heimilisverkum.

Aha. Ég er á plani. Ég smellti í létt föstudagsþrif áðan og læt þar við sitja. Setti líka hreint á rúmin. Svo eru börnin að koma í hús og þá mega jólin koma.

Það er fátt erfiðara og snúnara en að vera án barna sinna í jól. Mín eru hjá mér um jólin en hjá feðrum sínum um áramótin í ár. Það finnst mér miklu minna mál, fyrir mér eru áramótin bara sem skemmtileg helgi, ekki þessi hátíðleiki sem snýst svo í andhverfu sína þegar maður er barnlaus, sem er einhvernvegin alger ónáttúra.

Ég er því miður ekki með nein ráð til þeirra sem eru í þeim sporum að vera án barna sinna um jól, nema þá bara að hlú að sjáfum sér sem best er hægt, gera eitthvað sem lætur manni líða bærilega og vera innan um fólk sem nærir mann.

Persónulega hefur mér þótt erfitt að þiggja heimboð þau aðfangadagskvöld sem ég hef verið án barnanna minna, helst hefur mig langað bara að fá að vera ein. Ég veit að fleiri eru í þeim sporum og ástvinum þykir erfitt að horfa upp á það. En, það ber að virða og snýst ekki um að viðkomandi vilji ekki vera hjá ykkur, heldur bara að líðanin er svo bjöguð að fá ekki að vera með börnunum sínum þegar jólin eru hringd inn.

Fyrir þremur árum var ég reyndar boðin til fyrr-fyrrverandi og konu hans, til að vera með þeim og krökkunum, en það var alveg dásamlegt. Um síðustu jól var ég svo erlendis með elsta barninu mínu, en ég held ég stefni einmitt að því að vera ekki heima yfir barnlausu jólin framvegis.

 

Í dag er svo þriðji síðasti dagurinn sem ég losa mig við dót og föt af heimilinu, en það sem fór að þessu sinni eru föt sem eru of lítil á Emil og fara á stað þar sem þau öðlast framhaldslíf. Á morgun losa ég tvo hluti og einn á aðfangadag og þá er jóladagatals-hreinsuninni formlega lokið. Með því og allskonar fleiru má fylgjast með á Instagramsíðunni minni. 

Gleðileg jól til ykkar

 

Pin It on Pinterest