Á þriðja degi desembermánuðar hljómar hið heilaga orð úr Jólaalmanaki húsfreyjunnar á eftirfarandi hátt;

Ef það er fyrirhugað að taka permanent fyrir jólin er heppilegt að geraþað núna. Einnig að panta tima á hárgreiðslu- og rakarastofum fyrir jólin.

Sko. Þarna er ég bara á undan í ritningunni, en ég er búin að panta klippingu fyrir mig og börnin í desember. Permanent, það er afbragðs pæling. Af hverju kolféll það úr tísku á einni nóttu?

Ég á sterkar æskuminningar frá níunda áratugnum þar sem mamma og Esther vinkona hennar voru að setja permanent í hvor aðra í eldhúsinu heima. Þær sátu til skiptis með spólur í hárinu, baðaðar festivökva sem lyktaði sterkar en skata. Mér þótti hún þó góð, líklega af því mér þótti alltaf sérstaklega spennandi að fylgjast með þessari aðgerð.

Ég reyndi mitt allra besta til að fá að vera frammi en stundum lækkuðu þær róminn þegar talið barst að einhverju sem ég átti ekki endilega að heyra. Mér fannst þær líka svo miklar skvísur, sérstaklega Esther, en hún átti karrýlitan samfesting sem hún skartaði oft þegar hún kom í kaffi – mikið vildi ég óska þess að hann kæmist í mínar hendur.

Í dag losaði ég mig við 22 hluti af heimilinu, en þá aðgerð sýndi ég á Instagram-síðunni minni eins og áður. Ég var ekki lengi að fylla kvótann í dag, það var bara ein yfirferð á baðskápnum og framhald á því verður á morgun. Hlutir sem fóru í dag voru til dæmis brotin plastkarfa, uppþornuð naglalökk, gamlir augnbýandar, augnskuggar og gloss sem ég nota aldrei. Ég er aðeins að vandræðast með hvert ég á að setja þá hluti? Einhver benti á Konukot, er það rétt?

P.s. annars var ég meðal þeirra austfirsku rithöfunda sem lásu úr verkum sínum á svokallaðri bókavöku í Safnahúsinu á Egilsstöðum nú síðdegis. Það var ágætis upphitun fyrir rithöfundalestina sem ég verð hluti af fyrir og um helgina ásamt þeim Benný Sif Ísleifsdóttur, Stefáni Boga Sveinssyni, Hafsteini Hafsteinssyni, Steinunni Ásmundsdóttur, Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur og Einari Kárasyni.

Lestin verður Seyðisfirði á fimmtudagskvöld, í Neskaupstað á föstudagskvöld, á Skriðuklaustri á laugardag og á Vopnafirði á laugardagskvöld. Sumir lesa einnig í skólum en ég læt mér nægja að mæta í Menntaskólann á Egilsstöðum í hádeginu á fimmtudag.

Pin It on Pinterest