Í dag er mánuður til jóla. Sléttur mánuður þar til við sitjum södd og sæl í sófanum heima, Búin að eignast allt, allt, allt sem við óskuðum okkur.

Ha? Á ég að byrja aftur?

Í dag er mánuður til jóla. Sléttur mánuður þar til við sitjum útbelgd með kjötsvita og bjúg í sófanum heima. Á bullandi bömmer eftir eyðslufyllerí síðstu vikna, með svimandi háan VISA-reikning sem við náum kannski að klára fyrir næstu jól ef við tökum allar aukavaktir og umkringd drasli sem okkur langar bara alls ekkert í. Nærri lagi?

Já, nú nálgast þessi tími, jólin. Haustönnin að jólahaldinu meðtöldu er minn eftirlætis árstími. Mér finnst allt svo fallegt, rómantískt og gott.

En, ég finn svo sannarlega fyrir aukinni streitu á þessum árstíma, eins og líklega flestir. Ég skrapp í höfuðstaðinn fyrir stuttu. Vopnuð enn einum þriggja metra langa „to-do“ listanum. Ég fór semsagt í Kringluna til þess að „bjarga jólunum“. Guð minn góður og allir hans fylgisveinar. Ég valdi mér versta dag ársins, kannski að Þorláksmessu undanskilinni. Það var semsagt „miðnætursprengja“ og nýtt fjöldamet var sett í verslunarmiðstöðinni. Þetta var brjálæði. Fólk hljóp til og frá til þess að ná sér í allskonar varning á niðursettu verði, sjálfsagt, eins og ég til þess að bjarga því sem bjargað verður.

Eitt atriði á listanum var; finna jólaföt á örverpið. Ég stóð ringluð í barnafataverslun og klóraði mér í höfðinu. Ég bara varð að finna jólaföt á litla barnið, annars færi það lóðbeint í gin jólakattarins og allt það. Já en, barnið vill ekki fara í gallabuxur og skyrtu. Hvað þá jakkaföt, maður lifandi. Það vill bara vera í ofurhetjujogginggalla. Hvað þá? Það má ekki um jólin! Eftir nokkra umhugsun hringdi ég í „hina mömmuna“ og ráðfærði mig við hana. Jú, samráðsnefndin komst að því að drengurinn ætti mera en nóg af fallegum fötum, nánast ónotuðum. Bingó. Drengurinn verður í þeim. Af hverju í ósköpunum að kaupa eitthvað nýtt á 15.000 krónur fyrir þrjár klukkustundir, hvað þá þegar mun þurfa að beita fortölum til að koma fórnarlambinu í herklæðin. Loftið lak úr blöðrunni og ég rölti brosandi út úr búðinni.

Með hækkandi aldri finn ég alltaf betur og betur að þetta er eitthvað sem mig langar að skoða frekar; hvað ég geti gert til þess að draga úr því veraldlega brjálæði sem skyggir á þennan dásamlega tíma. Þessi heimsókn rammaði inn það sem  hefur verið að gerjast innra með mér undanfarin ár. Mig langar ekki að taka þátt í þessu bulli lengur. Mig langar ekki að hlaupa og kaupa eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvort fólki líkar að fá. Sjálf er ég heldur ekkert að springa úr spenningi að fá eitthvað frá fólki sem svosem veit ekki hvað mig langar að fá. Við erum öll að drukkna í dóti, en of mikið dót setur mig úr jafnvægi og hvað þá það sem ég tengi ekki við og hefur þannig engan tilgang. 

Ekki misskilja mig, ég er ekki að aflýsa jólunum mínum eða gerast Votta jehófi. Bara alls ekki. Ég er þó að taka nokkuð hressilega til, stokka upp og endurhanna umgjörðina mína. Hef til dæmis samið við nokkra aðila í kringum mig að við hættum að gefa gjafir okkar á milli. Ég er þó aðeins að tala um sjálfa mig og er ekki á leiðinni að afþakka gjafir til barnanna minna (ætla að halda áfram að gleðja mína litlu vini í kringum mig), þau geta bara tekið afstöðu til þess þegar þau hafa aldur til.

Já, mig langar bara að einfalda þetta allt saman. Ég er löngu hætt að spennast við að senda jólakort, þrífa eldhússkápana eða kaupa mér jólaföt. Það er eiginlega ekki hægt að skrifa þennan pistil án þess að rifja upp vikuna fyrir jól á mínu æskuheimili þegar þvegilinn góði lék aðalhlutverkið. Loft í gangi, tékk. Veggir í eldhúsi, tékk. Enginn flötur var undanskilinn og maður var bara stálheppinn að verða ekki sjálfur fyrir barðinu á honum. Já, svo eru það matarinnkaupin. Þrjár tveggja lítra kippur af kóki, annað eins af appelsíni. Tveir fimm kílóa dallar af Mackintoshi. Mæjónes og rjómi sem myndi duga til að fæða lítið þorp í Tanzaníu sem að megninu til mun svo daga uppi og renna út í ísskápnum. Er í alvöru nauðsynlegt að fylla tvær körfur af mat á Þorláksmessu þegar búðirnar eru hvort sem er opnar nánast hvern einasta dag yfir hátíðarnar.

Margir virðast vera í sama þankagangi. Í það minnsta hef ég séð nokkrar Facebook-færslur þar sem fólk afþakkar gjafir, aðrir kalla eftir gjafahugmyndum með þýðingu eða þá eitthvað vistvænt sem nýtist örugglega eins og leikhúsmiðar eða gjafabréf í samveru með góðum vinum.

Þetta neyslukapphlaup er bara sturlað og því fylgir mikil streita og síðar slæmar harðsperrur. Ég hef í þessum pistli algerlega talað út frá sjálfri mér og minni eigin líðan í þessu tilliti og ekki minnst einu orði á kolefnisspor og loftlagsbreytingar. Ef við ætlum að draga úr þeim verðum við að sama skapi að draga úr framleiðslu, en varla viljum við að okkar eigið neyslubrjálæði  hafi áhrif á lífsgæði barnanna okkar í náinni framtíð. 

En Róm var ekki byggð á einum degi og allt það. Að mínu viti er þó kominn tími til að staldra við og endurhugsa tilgang jólanna aðeins. Það er samveran með fólkinu okkar sem skiptir máli, ekki hver fékk hvaða gjöf. Það eru minningarnar um göngutúrana og spilakvöldin á aðventunni sem sitja eftir. Líka leitin að verst skreytta húsinu í bænum og bestu smákökusortinni. Ég er ánægð með að vera loks farin að hlusta á mína innri rödd og fylgja hjartanu í þessum efnum. Ég mun án efa taka enn fleiri skref að ári í átt að markmiði mínum um að gera nóvember og desember að tíma sem einkennist umfram allt af rólegheitum, samveru og gleði. 

P.s. Ég mæli með því að þið lítið reglulega hér inn í desember. Ég ætla að losa mig við einn hlut á dag allan mánuðinn auk þess sem ég hef komist yfir stórskemmtilegt „Jóla-almanak húsfreyjunnar“ sem birtist í Vísi árið 1968 sem gaman væri að fabúlera með.

Endilega fylgið mér á Instagram, þar ræði ég allskonar!

Pin It on Pinterest