Í dag segir í Jólaalmanaki húsmóðurinnar frá árinu 1968;

Nú er best að koma öllum jólapóstinum til útlanda og skrifa þeim bréf sem eru fjarri vinum og ættingjum um jólin.

Þar sem ég hætti fyrir nokkrum árum að skrifa jólakort sendi ég ekki neitt til útlanda fyrir jólin. Ég ætla hins vegar að græja þá pakka sem ég sendi innanlands í póst í dag eða á morgun.

Annars langar mig stundum að taka upp þann sið að skrifa handskrifuð bréf. Ég á sjálf nokkur frá móður minni frá því ég bjó í Reykjavík og hún var að senda okkur eitthvað í höfuðstaðinn, ýmist prjónles á krakkana eða annað smálegt. Það er eitthvað allt annað við handskrifuð bréf en tölvupóst, það er eitthvað við það að lesa handskrift frá öðrum.

 

Ég losaði 20 hluti af heimilinu í dag, samkvæmt plani, en frá því greindi ég á Instagram-reikningnum mínum. Ég hef því losað um 110 hluti það sem af er desembermánuði sem hljóta framhaldslíf annarsstaðar, nú eða leggjast þá til hinstu hvílu ef svo ber undir.

Það var sitt hvað og lítið eitt sem fór í dag, meðal annars tvö pör af of litlum vettlingum af örverpinu, lok af brotinni skál, ónýtur fótbolti og fleira sem ekki hefur lengur tilgang inn á heimilinu.

Einnig ætla ég að láta eina skyrtu af grunnskólanemanum mínum og kjól af menntaskólanemanum til hjálparstarfs kirkjunnar, en þar var um daginn auglýst eftir góðum og klæðilegum flíkum sem þrá endurnýjun lífdaga. Að endingu ætla ég að koma dúnúlpu, húfu og vettlingum í fatasöfnun sem er í gangi fyrir Gistiskýlið í Reykjavík.

Pin It on Pinterest