Í dag, 6. desember, segir í Jólaalmanaki húsmóðurinnar;

Eldhússkáparnir eru á dagskrá í dag. Ef einhver tími er aflögu þegar allt er komið i röð og reglu í þeim má líta í bækur og
blöð til að finna uppskriftir að smákökum til að baka eftir helgina.

Eldhússkáparnir já. Þessu man ég eftir úr æsku, að skáparnir „voru teknir“ fyrir jólin. Ég man að mér þótti skemmtilegt að hjálpa sem helgast líklega af því að mér líður best þegar allt er í röð og reglu. Hvað skápa á mínu herbergi varðar þá tek ég reglulega til í þeim yfir árið en nenni ómögulega að gera það sérstaklega í svartasta skammdeginu, nema í ár þegar ég hef verið að fara yfir allt sem ég á í tengslum við „jóladagatalið“ mitt.

 

Í dag fóru 19 hlutir út af heimilinu, allt föt eða annað lín. Um helmingur voru föt sem Emil er vaxinn uppúr og fara þau í Rauða krossinn. Þá kveður einnig ónýtt teygjulak sem hefur tekið pláss í skápnum mínum allt of lengi, en ég hef ætlað að fjarlægja það „á morgun“ – já og sturtuhengi sem ég var hætt að ná blettunum úr.

Einnig lét ég tvo „vintage“ kjóla gossa í Rauða krossinn, eitthvað sem ég hélt að ég myndi nota, en ég veit ég á ekki eftir að gera það. Einhverntíman hef ég svo fjárfest í efni, ég held ég hafi ætlað að sauma mér kjól. Ég að sauma mér kjól? Fór ég drukkin í búð? Ég kann ekki einu sinni að falda gardínur! Stranginn hefur beðið þolinmóður í geymslunni í mörg ár og verður frelsinu líklega feginn og lendir vonandi í höndunum á hæfileikaríkari saumaeinstaklingi en mér.

Ég sýni alltaf frá jóladagatalinu á Instagramsíðunni minni, endilega kíkið á mig þar. 

Pin It on Pinterest