Í Jólaalmanaki húsmóðurinnar segir í dag;

Þaö er óþarfi að geyma fram á siðustu stund að þvo dúka og gluggatjöld og þvi ágætt að gera það i dag. Kvöldinu verjum við
með börnunum og rifjum gjarnan upp jólasálma með þeim eldri en kennum þeim yngri.

Ok, ég á þá frí í dag. Í gær sá ég eftirfarandi stöðufærslu hjá einum af mínum Facebook-vinum;

Spurt er: Hvernig skilgreinir maður kynslóðabil?
Svar: Jólagardínur.

Í kringum þetta spunnust nokkrar umræður og niðurstaðan er sú að ekki virðast margir af yngri kynslóðinni setja upp sérstakar jólagardínur, sem gjarnan voru í eldhúsglugganum á árum áður.

Svo ég vitni nú einu sinni til oftar til minnar æsku, voru jólagardínur ómissandi hluti af jólaundirbúningi á mínu heimili. Ég man sérstaklega vel eftir jólasveinagardínunum og ég varð mjög svekkt þegar þeim var skipt út fyrir eitthvað settlegra, rauðar blúndur eða eitthvað álíka. Það voru jólagardínur í öllum eldhúsgluggum í mínum heimabæ á þessum árum, eins og víðar.

Sjálf hef ég aldrei átt slíkar og mun líklega aldrei eignast. Nema ég geri það á svipuðum tíma og ég læri að  drekka Sherry, en það er á plani hjá mér og vinkonu minni áður en við hættum að vinna og ævintýrin taka við. Ég hef í raun hálfgert óþol fyrir gardínum almennt, nema þá bara hefðbundnum rúllum til að blokka sól. Ég skrifði athugasemd við stöðufærsluna þar sem ég lagði til að jóladúkar yrðu settir undir sama hatt, en það er fyrirbæri hef ég aldrei skilið eða eignast eftir að ég fór sjálf að búa. En, misjafn er smekkur manna, sem betur fer.

Jólasálmar, það er hins vegar eitthvað sem er að mínu skapi. Já og bara sálmar almennt. Ég held að það sé vegna þess hve oft ég fór með foreldrum mínum á kirkjukórsæfingar þegar ég var barn, þar sem ég lá á maganum og litaði meðan þau æfðu. Mamma æfði sig svo heima á milli en hún var millirödd og átti hana á kasettum sem hún hlustaði á í litlu tæki í eldhúsinu. Það fór alveg óskaplega í taungarnar á mér að hún myndi ekki syngja laglínuna, mér leiddist milliröddin.

 

Annars losaði ég 18 hluti í dag í jóladagatals-hreinsuninni minni, en í heildina hef ég þá losað 147 hluti í desember og er rétt tæplega hálfnuð með markmiðið. Meðal þess sem fékk að fjúka í dag lokið af óhreinatau-dallinum mínum, lítil veski, ónýtt vasaljós, snúrur sem hafa legið í kassa í mörg ár, skrúfjárn og rúmföt sem ég var með í láni og ég ætla að koma til sín heima.

Smartland hafði samband við mig í gær og bað mig um að segja frá dagatalinu, en sú færsla er á leiðinni í loftið.

En, fyrst og síðast, fylgið mér á Instagram, þar segi ég frá þessu öllu og meira til.

 

 

Pin It on Pinterest