Ég er búin að hlusta þrisvar sinnum á viðtal við Eygló Guðmundsdóttir, doktor í heilbrigðisvísindum, sem var á Rás2 um daginn, en hún hefur rannsakað „örmögnun“ og segir brýnt að opna umræðuna hér á landi. Þar er hún að lýsa nákvæmlega því sem ég gekk í gegnum fyrir sléttu ári þegar ég einmitt örmagnaðist.

„Örmögnun er að mörgu leyti áþekk hugtakinu kulnun, sem töluvert hefur verið í umræðunni að undanförnu. Með kulnun er átt við að fólk brenni út í starfi en með örmögnun er átt við að fólk brenni út í lífinu,“ segir Eygló, en ég átti einmitt erfitt með að koma mínu ástandi heim og saman í höfðinu á mér í fyrra. Ég hafði einmitt alltaf heyrt talað um kulnun í starfi, stundum nefnt þrot (starfsþrot). Ég einmitt kom þessu ekki heim og saman, vinnan var ekki það sem var að örmagna mig, heldur allt hitt. Mín saga er þessi;

Fyrir rétt tæpu ári fannst mér ég sjálf vera að komast nokkurnvegin á lappirnar aftur eftir mikið áfall í mínu lífi sem hafði átt sér stað þá tveimur árum áður.

Ég var stödd á heilsugæslustöðinni þar sem ég var að fara í blóðprufu sem ég gengst alltaf undir tvisvar sinnum á ári. Hefðbundinn septembermorgun í allri sinni dýrð; litir náttúrunnar að taka á sig sína fegurstu mynd, stillan á firðinum alger þannig að fjöllin spegluðust í haffletinum. Haustið er minn tími.

Hjúkrunarfræðingnum gekk illa að finna æð þar sem ég mætti fastandi og sat hálf þreytt í stólnum. Þegar blóðið var komið í glasið og ég ætlaði að borga var ritarinn upptekinn við annað. Þar sem ég stóð og beið eftir afgreiðslu kom annar hjúkrunarfræðingur fram í afgreiðslu. Horfði á mig og spurði hvort það væri allt í lagi með mig. Þar sem ég stóð í fullri biðstofunni fór ég að gráta. Ekki smá heldur bara hágráta fyrir framan alla.

Hjúkrunarfræðingurinn leiddi mig aftur inn á stöðina. Spurði hvað væri að. Ég sagði sem var; það er ekkert að. Ég kom ekki upp orði. Bara grét og grét eins og hefði verið skrúfað frá krana á báðum gagnaugum.

Hjúkrunarfræðingurinn hefur líklega haldið að hver einasti fjölskyldumeðlimur minn og allir vinir hafi farist út á firði á sama bát, svo mikið táraflóðið. Hún hélt áfram að spyrja hvað væri að. Ég sagði á móti að það væri ekkert að, ég væri bara þreytt. Ég væri bara uppgefin. Ég væri bara buguð á langvarandi álagi.

Hún sagði mér að fara heim og hvíla mig en pantaði tíma fyrir mig hjá lækni daginn eftir – lækni sem svo sagði mér að ég væri komin í þrot. „Af hverju núna?“ spurði ég. „Af hverju ekki fyrir ári eða tveimum þegar ég gat varla hugsað um sjálfa mig eftir áfallið“? Læknirinn sagði að einmitt núna væri mjög lógískt. Að ég hefði verið búin að keyra, keyra og keyra á litlu sem engu bensíni í tvö ár og nú væri komið að skuldadögum. Ég hef alltaf séð þetta fyrir mér sem sambærilegt dæmi og þegar ég gleymdi að skipt um olíu á gamla bílnum mínum í mörg ár og svo auðvitað kom að því að hann stoppaði einn daginn. Fór ekki í gang, vélin var ónýt af vanrækslu.

Mitt dæmi er nákvæmlega þetta; örmögnun. Vinnan þótti mér ekkert mál í stóra samhenginu, eða það var ekki hún sem var að fara með mig. Það var bara lífið almennt. Hversdagurinn. Að harka einn í öllu eftir áfall. Að stíga upp úr því og keyra þá inn í peningaáhyggjur, barnauppeldi, rúmlega fulla vinnu og öll verk innan og utan heimilis. Hjá mér gekk það í tvö ár.

Til þess að gera langa sögu stutta var ég tekin úr umferð. Tekin alveg úr vinnu í einn og hálfan mánuð og vann svo 50% í tvo mánuði, eða fram að áramótum. Eftir á að hyggja var það ekki nóg, eða ég hefði í það minnsta átt að vera frá vinnu í þessa þrjá mánuði.

Ég var þó stálheppin, já svo ótrúlega heppin að hafa „greinst“ þetta snemma. Sumir örmagnast það illa að einn morguninn geta þeir ekki staðið upp úr rúminu og marga mánuði eða ár getur tekið að koma fólki aftur út í lífið. Enn aðrir þróa með sér allskonar líkamlega sjúkdóma út frá ástandinu, en eins og Eygló segir í viðtalinu; „Við erum að tala um lífshættulegt ástand“.

Sjálf fór ég inn í kerfið hjá VIRK starfsendurhæfingu og verð að segja að mér þótti það alveg frábært. Sjálf hafði ég netta fordóma fyrir því áður og ég veit að margir aðrir hafa það, eða þetta; „Ég! Ég þarf ekki svona!“. Þar tók hins vegar á móti mér ráðgjafi sem setti upp endurhæfingu sniðna af mínum þörfum og ég fer ekki ofan af því að þessi vegferð var í raun eitt stórt lærdómsferli og það besta sem gat hent mig á þessum tíma.

Fólk sem hefur örmagnast er oft greint þunglynt, að sögn Eyglóar. Hún bendir á að fólk fái eðlilega þunglyndi og lífsleiða þegar það örmagnist vegna álags og áfalla í lífinu. „Þetta er misskilið hugtak og svo óþekkt hér á landi. Í Svíþjóð og Danmörku hefur þetta verið þekkt í tugi ára.“ Eygló segir að í Svíþjóð sé ástandið örmögnun viðurkennt og fólk fái leyfi frá störfum og aðstoð lendi það í þessari aðstöðu. Hér á landi sé allt of mikil skömm sem fylgi því að örmagnast. „Fólkið sem ég er að hitta, það er í gríðarlegri skömm af því að upplifunin er að þetta sé andskotans aumingjaskapur í því,“ segir Eygló hefur haldið fyrirlestra undir yfirskriftinni „Allir geta örmagnast“.

Ég hvet ykkur til þess að hlusta á viðtalið við Eygló því að allt of margir og líklega þú hefur einhverntíman dansað á þessari línu án þess þó að gefa því gaum eða viðurkenna það.

P.s. Endilega eltið mig á Instagram, þar tala ég um allt og ekkert, þar á meðal þetta.

 

Pin It on Pinterest