Ég heyja um þessar mundir harða baráttu við hveitipúkann, já eins og svo oft áður.

Ég elska hveiti og allar þær afurðir þar sem það kemur við sögu. Brauð, pasta og, og, og. Ég gæti borðað sex ristaðar brauðsneiðar í röð án þess að depla auga. Ég get hins vegar alveg látið nammi og almenn sætindi eiga sig en líkami minn öskrar á kolvetni. Ég er Kolvetnadrottningin í Kolvetnalandi.

Ég er alltaf að reyna að vanda mig. Að draga úr brauði. Þessa dagana er ég í nokkuð miklu stuði og hef sagt hveitinu stríð á hendur.

Í allan dag var mig þó búið að langa í hakk&spaghetti því ég átti parmesan í ísskápnum. Hakk&spakk með miklum parmesan! Spaghetti er hveiti. Bara hveiti. Hvað gera bændur þá? Jú, kúrbítsspaghetti auðvitað!

Ég semsagt reif niður kúrbít og steikti hann örsnöggt upp úr olíu og pönnu ásamt einu vænu pressuðu hvítlauksrifi. Dass af sjávarsalti og grófum pipar. Þetta var mjög gott og kom bara (nánast) alveg í staðinn fyrir spaghetti.

Hakkið var ég bara með hreint, kryddað með salti og pipar. Ég gerði líka guacamole, en mín uppáhalds uppskrit er af síðunni Ljúfmeti og lekkerheit.

Einfaldur, næringarríkur og umfram allt, hveitilaus kvöldmatur.

Pin It on Pinterest