Hvítlaukur, basilíka og kasjúhnetur í sömu uppskrift, er hægt að biðja um eitthvað meira? Ég smellti óvænt í þessa fyrir helgi, en hafði áformað að gera hefðbundið hakk&spaghetti fyrir mig og hinn fjögurra ára Emil.

Ég hafði hins vegar tekið með mér ferska basilíku í búðinni sem var „matarsóunarkörfunni“ sem mér þykir svo voðalega sniðugt fyrirbæri. Þegar ég kom heim rámaði mig í að í bókinni Heilsuréttir fjölsyldunnar væri kjötbolluuppskrift sem innihéldi basilíku. Það stóð heima og hún var svo einföld að ég átti allt til í hana og varð hún því önnur uppskriftin í markmiði mínu að gera allar uppskriftir úr fyrrnefndri bók á árinu (2/86).

Kjötbollur með hvítlauk og basilíku (fyrir fjóra)

700 gr nautahakk
250 gr blandaðar hnetur/möndlur, Ég notaði eingöngu kasjúhnetur
3-4 hvítlauksgeirar
1/2 búnt fersk basilíka
1/2 tsk paprikuduft
Mulinn svartur pipar eftir smekk
Sjávarsalt eftir smekk
2 egg
2-3 msk kókosolía eða jómfrúarolía til steikingar

  • Setjið hnetur og möndlur í matvinnsluvél og hakkið vel. Ég setti þær bara í poka og lamdi með kökukefli. Setjið til hliðar.
  • Maukið hvítlauk og basilíku í matvinnsluvél eða töfrasprota.
  • Blandið öllu saman í skál. Ég skellti öllu í hrærivélina og hnoðaði vel saman.
  • Setjið olíu á pönnu og hitið á meðalháan hita.
  • Mótið bollur (svipaðar að stærð og golfkúlur) og brúnið aðeins á pönnu. Setjið bollur á ofnplötu með bökunarpappír í ofn og bakið við 200 gráður í 10 mínútur.

Þessar kjötbollur eru súper góðar og hægt að bera fram með hvaða meðlæti sem hentar hverju sinni. Minn fjögurra ára (sem reyndar er mikill matmaður og borðar allt) fékk sér tvisvar og kláraði allt upp til agna.

Það sem er mesta snilldin við þessar bollur að það eru fá hráefni í þeim, þær eru fljótlegar og hafa eitthvað „extra“ og því bæði hægt að bjóða upp á þær í miðri viku eða þegar við viljum gera okkur dagamun og hafa eitthvað mega næs.

Pin It on Pinterest