Ég er byrjuð á ketó-mataræði. Í það minnsta ætla ég að prófa það. Á mánudegi fyrir rúmri viku hóf ég þriggja daga safaföstu frá Sonatural sem ég hugsaði til þess að hreinsa kerfið mitt áður en ég myndi henda mér í ketó-lífið. Það gekk bara eins og í sögu og ég rauf föstuna á miðvikudagskvöldið fyrir viku og hef verið á ketó síðan.

Humm. Um hvað er konan eiginlega að tala? Já, hvað í ósköpunum er þetta ketó sem allir eru að tala um? Taka skal fram að ég er enginn sérfræðingur og bara byrjandi sem er hundblautur á bak við bæði eyrun. Ég er þó búin að lesa mér nokkuð mikið til um mataræðið;

Orðið keto er dregið af orðinu ketogenic sem er notað til að lýsa því ástandi þegar líkaminn er að nota sinn eigin fituforða sem orkugjafa. Til þess notar hann orku í formi ketóna sem lifrin sér um að brjóta niður frá fitufrumunum. Þessa orku geta síðan allar frumur líkamans nýtt sér til daglegra starfa.

Keto er á margan hátt líkt hefðbundnu lágkolvetna mataræði en munurinn felst helst í því að áherslurnar á næringarefnin eru aðeins önnur, eða 75% fita, 20% prótein og aðeins 5% kolvetni. Þegar næringarefnin eru sett upp á þennan hátt fer líkaminn í svokallað ketogenískt ástand og breytir í raun um orkugjafa. Hann fer frá því að ganga fyrir glúkósa (sykri) og fer að ganga fyrir fitu sem við neytum og sínum eigin fituforða. 

Ég er einn sá mesti kolvetnafíkill sem fyrirfinnst. Mér finnst brauð æðislegt. Frábært og meiriháttar. Ég gæti borðað brauðmeti allan daginn alltaf. Þetta verður því mikil áskorun fyrir mig. Fyrir utan það að mega vel léttast um ein tíu kíló finnst mér þessi fræði bara svo spennandi. Ég las þetta á vef Alzheimerfélagsins;

Keto-fæða verður sífellt mikilvægari ekki aðeins meðal vísindamanna og lækna heldur hjá fólki almennt. Hvort um er að ræða líkamsræktarfólk, fólk með áhuga á góðri heilsu, offitusjúklinga, krabbameinssjúka, flogaveika eða fólk með Parkinson eða Alzheimer-sjúkdóm hjá öllum vex áhuginn á þessu sérstaka mataræði.

Keto-næring er mjög virk. Með henni er ekki eingöngu mögulegt að brjóta niður fitu eða byggja upp vöðva heldur veldur hún betri hugsunarástandi og gerir fólk afkastabetra. Það er meira að segja hægt að koma böndum á höfuðverk, kvef og sykursýki og það hjálpar við meðhöndlun á krabbameini. Blóðsykur- og blóðfitu- gildi batna og heila- og taugafrumur fá góða næringu.

Þetta finnst mér svo frábært og þess virði að láta á þetta reyna. Svo kannski finnst mér þetta ömurlegt og þá bara nær það ekki lengra. Sama hvernig fer, hvort ég held eitthvað út á ketó eða ekki, þá eru dagar ómeðvitaðs sykur- og hveitiáts taldir. Það er ekki gott fyrir neinn.

En hvað á ég eiginlega að borða?

  • Kjöt: Allar tegundir. 
  • Fiskur og skelfiskur: Allar tegundir. Mælt er með fituríkum fiski eins og laxi, makríl og síld. 
  • Egg: Soðin, spæld, eggjakökur…
  • Nátturuleg fita, feitar sósur: Mælt er með því að smjör og rjómi séu notuð við matargerð. Béarnaise, Hollandaise og fleiri sósur eru í góðu lagi. Kókosolía, ólífuolía.
  • Ofanjarðar grænmeti: Kál, blómkál, spergilkál, Brusselkál. Aspas, kúrbítur, eggaldin, ólífur, spínat, sveppir, agúrka, sallatblöð, lárpera, laukur, paprika, tómatar og fleira.
  • Mjólkurvörur: Hafðu þær fituríkar. Smjör, rjómi og feitir ostar. Varastu mjólk og undanrennu, hvort tveggja er kolvetnaríkt. Forðastu bragðbættar og sykraðr mjólkurvörur.
  • Hnetur: Borðaðu gjarnan hnetur, t.d. í stað sælgætis. Gættu þó hófs.
  • Ber: Í hófi. Þeyttur rjómi með er í lagi!

Ok. Ég held að mesta áskorin verði að hafa matinn fjölbreyttan svo maður springi ekki á limminu. Ég er búin að vera viku á ketó núna og ég finn að ég er mikið að borða það sama; lax, avakató, grillkjöt, kaldar sósur og svo auðvitað kaffi-B-O-B-U-N-A sem samanstendur af kaffibolla, smjöri og kókosolíu. Allt sett í blender og volla, alveg eins og besti kaffi latte.

Talandi um kókosolíu. Nenna menn að fara að ákveða sig. Í dag kom frétt um að betra væri að drekka bensín heldur en að borða hana. Hverju í ósköpunum á maður að trúa? Allavega, ég ætla að byrja á því að keyra á kókosolíunni áður en ég skipti yfir í bensín.

P.s. Talandi um kíló. Ég vigtaði mig á mánudaginn fyrir rúmri viku, daginn sem ég byrjaði á safakúrnum. Svo aftur í dag. Ég er búin að missa 2,4 kíló. Það er nú eitthvað.

Ég leyfi ykkur að fylgjast með þessu öllu á Instagramsíðunni minni, endilega bætið mér við þar.

 

Pin It on Pinterest