Þegar ég var lítil hafði ég mikinn áhuga á því að teikna hús og innanhúsfleti eins og arkitekt. Einnig því að klippa fólk og fylgihluti út úr Freemans og Kays-vörulistum, raða þeim saman og skapa nýjar fígúrur. Þá heillaðist ég einnig af Madonnu, sem ég reyndar dái enn. Þegar þessum dellum sleppti fór ég lóðbeint í að safna stelli og elda lynghænur þar sem ég fór snemma að búa og standa á eigin fótum.

Síðustu ár hef ég fengið mikinn og nánast óþrjótandi áhuga á flokkun heimilissorps auk þess sem ég læt líklega fljótlega húðflúra „minnkum matarsóun“ á ennið á mér.

Hvar í ósköpunum hafa dagar lífs míns lit sínum glatað? Frá því að safna plagötum af Madonnu úr BRAVO-blöðum, yfir í það að hugsa hvort ég geti farið að vasast með moltu hér í fjölbýlishúsagarðinum. Er þetta kannski bara staðfesting á því að ég er orðin svona svakalega miðaldra? Eða bara almenn vakning í samfélaginu? Mér er sama, þessi mál eru mér í það minnsta mjög hugleikin.

Ég hef flokkað heimilissorp í nokkur ár og það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu gífurlegt magn af plasti berst inn á hvert heimili í formi hverskyns umbúða. Já og pappír, maður lifandi. Það hefur leitt til þess að reyni að velja vörur sem eru ekki tví- eða þrí-pakkaðar. Hvað er það eiginlega? Það þarf til dæmis meirapróf og meistaragráðu í verkfræði til þess að opna barnaleikföng! Tæpt ár er svo síðan við fengum tunnu fyrir lífrænan úrgang hér í Fjarðabyggð og síðan þá fer ég út með einn poka af óflokkuðu heimilissorpi á mánuði!

Með orðinu matarsóun er átt við þann mat sem hægt hefði verið að neyta í stað þess að láta enda í ruslinu. Þess ber að geta að ég er alls enginn sérfræðingur í þessu, aðeins einlæg áhugamanneskja.

Rannsóknir sýna að þriðjungur þess matar sem framleiddur er fer beint í ruslið samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eða um 1.3 milljarðar tonna á hverju ári í heiminum. Matvæli sem sóað er hefðu mögulega getað brauðfætt milljónir manna og minnkað þá hungursneyð sem steðjar að ýmis staðar í heiminum.

Landvernd gerði forrannsókn á umfangi matarsóunar á reykvískum heimilum, en sautján slík tóku þátt í henni. Mælingar tóku eingöngu til matarsóunar inná heimilum, ekki þess matar sem heimilisfólk sóar utan þess. Niðurstöður bendir til að a.m.k. 5.800 tonnum af mat og drykk sé hent af reykvískum heimilum árlega, eða að hver einstaklingur hendi um
48 kg á ári sem gerir um 150 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu, eða alls um 4,5 milljörðum króna.

Þar að auki hefur framleiðsla matar oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif sem þjóna þá engum tilgangi ef maturinn er ekki nýttur og eykur verulega við magn úrgangs sem þarf að urða. En það sem sjaldnar hefur komið fram er að sóun matar leggur að öllum líkindum mikið til losunar gróðurhúsalofttegunda.

Athugið að síðustu þrjár klausurnar, þessar gáfulegu, eru fengnar af síðunni matarsoun.is sem er alveg frábær og geymir fullt af flottum fróðleik í þessum efnum.


Hvað getum við gert til að minnka matarsóun inn á heimilum?

Það sem hefur reynst mér vel er meðal annars að;

Skipuleggja innkaup: Ég hef reyndar alltaf farið með miða í búð, annars er ég alveg gagnslaus, fer um ráfangi og kem heim með friðarkerti í stað ýsuflaka. Ég reyni líka að skipuleggja vikuna og tvinna dagana þannig saman að ég geti hugsanlega nýtt afganga sem falla til í dag á morgun.

Þetta sparar einnig pening því við vitum hvernig það er að fara í búðina á hverjum einasta degi og reyna að svara því hvað eigi að vera í kvöldmatinn í fullri búðinni klukkan fimm síðdegis; allt of mikið áreiti og svangur magi gera það að verkum að rökhugsunin hendist ofan í frysikistuna og við kaupum eitthvað drasl og miklu meira en við þurfum.

Yfirfara ísskáp og skápa: Ég yfirfer ísskápinn, frystinn og skápana mjög reglulega og veit því með nokkurri vissu hvað er til og hvað ekki. Auðvitað gerist það hjá mér eins og öðrum að eitthvað rennur út eða skemmist í skápunum, en það er aðallega grænmetisskúffan sem ég þarf að passa.

Nýttu það sem til er: Börnin mín eru orðin vön því að þau fái svarið „TTÍ“ þegar þau spyrja hvað sé í matinn. TTÍ, eða tekið til í ísskápnum er reglulegur og æsispennandi dagskrárliður á heimilinu. Í það minnsta einu sinni í viku er TTÍ-máltíð og hún er svo skemmtileg. Svona eins og óvissuferð. Þá er allskonar dregið fram og oft verða til glænýir réttir í kjölfarið. Um daginn bauð ég upp á ananas út á grjónagraut. Ég veit ekki alveg með það, en þið vitið hvað ég meina.

Þetta er umfangsmikið efni og ég er bara rétt að byrja að kynna mér þessi mál almennilega. Mér þykir skemmtilegt að spá í þessu, en með því að gera meðvitaðri innkaup, nýta það sem til er og henda sem minnstu komumst við ansi langt. Langar okkur öllum ekki að hætta því að henda einum þriðja af okkar mánaðarlega matarpening beint í ruslið?

Ef þið hafið áhuga á þessum málum mæli ég svo mikið með því að þið skoðið síðuna sem ég studdist við hér að ofan, matarsoun.is Þar er svo margt sniðugt, allskonar fróðleikur, uppskriftir, skammtareiknivél og ég veit ekki hvað og hvað.

P.s. Verslanir eru að vakna til vitundar og mitt HÚRRA fær Krónan en í fréttatilkynningu frá verslunarkeðjunni í dag kemur fram að átak hennar í að draga úr mat­ar­sóun und­ir merkj­um „Síðasti séns“ hef­ur minnkað mat­ar­sóun í versl­un­un­um um helm­ing!

P.s.s. Endilega fylgið mér á Instagram.

Pin It on Pinterest