Mig hefur dreymt um að skrifa og gefa út bók frá því ég var lítil stelpa. Allt sem tengist bókum heillar mig – bókasöfn, bókakaffihús, bókamarkaðir og bara allt. Ég á enn minningu frá því ég sat á bókasafninu á Stöðvarfirði meðan foreldrar mínir voru á kirkjukórsæfingu, sem einhverra hluta vegna var þar. Ég man enn lyktina af bókunum, andrúmsloftið og friðinn.

Í dag fékk ég mína fyrstu bók eftir sjálfa mig í hendurnar, skærgula og hnausþykka – samansafn orða minna. Bókina mína sem blasti við mér þegar ég opnaði Vorbókatíðindi 2018. Hvernig leið mér? Hvernig var tilfinningin? Myndin sem fylgir færslunni segir hvernig mér leið.

Margir hafa líkt því ferli sem tekur bók að verða til, frá því fyrsti stafurinn fer á blað og þar til hún kemur glóðvolg úr prentvélunum við meðgöngu. Það er að mörgu rétt. Þessi meðganga hefur tekið rúm tvö og hálft ár. Ég var svo komin með kollhríðar fyrir jólabókaflóðið en hætti við útgáfuna, svona eins og ég hef iðulega reynt að gera í öllum mínum fæðingum miðjum; „Nei, veistu, ég er bara að spá í að hætta við, þetta er ógeðslega vont. Ég fer í þetta eftir helgi.“ Hugmyndir mínar í fæðingarstofunni hafa aldrei hlotið nokkurn hljómgrunn, en sem betur fer var bókaforlagið mitt skilningsríkara.

Ég hóf ferðalagið með litla austfirska forlaginu Bókstaf í apríl fyrir rúmu ári. Í september síðasliðinn „klessti ég svo á vegginn minn“, eitthvað sem ég skal svo sannarlega útskýra síðar. Ég var dæmd úr leik og fagfólk sammæltist um að kalla ástand mitt „burnout“ eða þrot. Eftir að hafa verið sett í þriggja mánaða veikindafrí ákvað ég að fresta bókaútgáfu fram á vorið, einfaldlega vegna þess að ég treysi mér ekki til að takast á við allt sem slíku fylgir á þessum tímapunkti, þrek mitt var ekkert.

Þegar ég komst svo aftur á lappirnar á nýju ári og fór að huga að útgáfumálum, voru breyttar forsendur hjá Bókstaf, forlagið var að draga saman seglin og við ákváðum í sameiningu að skynsamlegast væri fyrir mig að leita annarra leiða. Það tókst svo sannarlega og ég náði saman með forlaginu Bókabeitunni í Reykjavík, sem árið 2013 tók í notkun útgáfumerkið Björt, en undir því er bókin mín, 261 dagur gefin út.

Auðvitað er ekkert eins magnað og að koma nýjum einstaklingi í heiminn, en ég skil vel samlíkinguna. Að baki hverri bók liggur blóð, sviti og tár, óteljandi klukkutímar og svefnlausar nætur. Að fá verkið sitt svo loks í hendur er dásamleg tilfinning, árangur erfiðisins. Eða eins og ég sagði á Instagramsíðu minni; Langri og strangri meðgöngu og fæðingu lokið. Móður og barni heilsast vel. Þyngd: 371 grömm. Lengd: 21 cm. Blaðsíður: 416.

Bókin kemur í verslanir Eymundsson föstudaginn 4. maí  og verður útgáfunni fagnað í Reykjavík föstudaginn 11. maí. Þangað eru allir velkomnir, en ég greini frekar frá því þegar stað- og tímasetning liggur fyrir.

Gaman væri svo að heyra hvað ykkur finnst.

P.s. Ég vil hvetja ykkur til að elta mig á Instagram, ég reyni að vera nokkuð virk þar.

Pin It on Pinterest