Draumar geta ræst ef maður leggur sig eftir því að uppfylla þá!

Frá því ég fékk tækifæri að taka þátt í ævintýrinu sem fólst í því að koma að gerð sjónvarpsþáttanna Að austan á N4, fyrst sem dagskrárgerðarkona og síðar einnig sem ritstjóri þáttanna, hefur mig langað að vinna meira við sjónvarp.

Í vor sendi ég inn hugmynd til Saga Film að þáttum sem mig langaði til að gera. Svo vildi til að sama hugmynd hafði komið inn á borð framleiðslufyrirtækisins stuttu áður. Úr varð að hugmyndasmiðirnir, ég og Kolbrún Pálína Helgadóttir, vorum leiddar saman og höfum nú skrifað undir samning um sjö þátta seríu um skilnaði og öllu sem því viðkemur. Ævintýrið er nú formlega hafið og við stöllur erum að búa okkur í bátana með það að markmiði að gera einstaklega áhugaverða þætti fyrir ykkur sem koma til sýningar í Sjónvarpi Símans í ágúst 2019.

Ég hef mikið talað um þetta verkefni sem og önnur á Instagramsíðunni minni að undanförnu. Í kjölfarið hef ég fengið fjölmörg skilaboð frá konum, sumum sem ég þekki og öðrum sem ég þekki alls ekki, sem þakka mér fyrir hvatninguna sem ég er að veita þeim. Ég er þakklát fyrir að mín orð hafi þessi áhrif, þó ekki nema á einhverja nokkra. Málið er að við getum öll miklu meira en við höldum og stundum er það einmitt bara einhver manneskja sem veitir okkur innblástur, en ég einmitt sæki kraft í nokkrar slíkar. Ég er þakklát fyrir að þið hafið samband við mig og það hvetur mig áfram að miðla til ykkar.

„Þættirnir verða faglegir, fróðlegir og mannlegir”
Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni en geri mér grein fyrir því að það verður mikil vinna. Góður undirbúningur er lykilatriðið en viðfangsefnið er bæði víðfemt og viðkvæmt og verður að nálgast með vandvirkni og virðingu.

Í viðtali okkar við Mannlíf sagði Kolbrún Pálína; „Þættirnir verða faglegir, fróðlegir og mannlegir. Í þeim verða reynslusögur venjulegs fólks sagðar af auðmýkt og hreinskilni ásamt því sem við ræðum við fagfólk sem bendir á staðreyndir og gefur nytsamleg ráð. Flestir sem gengið hafa í gegnum skilnað eiga það sameiginlegt að hafa upplifað mikla ringulreið, örvæntingu, sorg og ráðaleysi en það er eitthvað sem við munum snerta á í þáttunum,“ bætir hún við.

Við erum sammála um að mikil þörf sé fyrir íslenskt samtímaefni um þessi mál. Þá hefur kulnun í starfi og svokallað „lífsþrot“ hefur einnig verið mikið í umræðunni upp á síðkastið, en það orsakast af mikilli streitu og skilnaður skorar mjög ofarlega á streituskalanum. Það ástand getur verið stórhættulegt ef ekki er brugðist við.

Ekki hægt að flýta ferlinu
Í viðtali við Smartland vorum við spurðar að því við hefðum sjálfar lært af því að skilja sjálfar; „Að bera virðingu fyrir ferlinu, að játa vanmátt sinn, að njóta þroskans og fagna hverju skrefi í átt að hamingjunni á ný. Að óttast ekkert, að dæma engan, fylgja hjartanu og lifa fyrir sig,“ segir Kolbrún Pálína. Þar er ég einmitt alveg sammála því ef það er eitthvað sem ég hef lært af þessu ferli, þá er það sú staðreynd að það er hvorki hægt að flýta því eða flýja, en þá kemur það bara lóðbeint í rassinn á manni síðar. Það er mikið þroskaferli að skilja og ef maður tæklar það rétt kemur maður út úr því sem sterkari einstaklingur myndi ég halda.

Við óskum eftir viðmælendum
Það er einmitt þetta stórmerkilega sorgar- og uppbyggingaferli sem við munum grandskoða í þáttunum. En til þess að þættirnir verði sem allra bestir langar okkur til að kalla eftir hugmyndum að viðmælendum. Við viljum hafa þá sem allra fjölbreyttasta; yngra fólk sem hefur skilið, eldra fólk sem hefur skilið og allt þar á milli. Einnig viljum við tala við uppkomin skilnaðarbörn og einnig börn sem hafa gengið í gegnum skilnað með foreldrum sínum. Þá viljum við endilega komast í sambandi við einstaklinga sem bæði hafa skilið og misst maka. Þannig að, ef þið lumið á hugmyndum, þá endilega hafið samband við aðra hvora okkar, bara í gegnum Facebook.

Endilega fylgið mér á Instagram, þar er ég dugleg að fjalla um allskonar, allskonar. 

 

Pin It on Pinterest