Lífið er eins og bók, uppfullt af köflum sem hefjast og enda á víxl. Júnímánuður er einstaklega viðburðarríkur hjá okkur smáfjölskyldunni og því ber að fagna.

Fyrsti dagur mánaðarins var risastór þar sem Bríetarbarnið útskrifaðist úr grunnskóla með glans og mun hefja nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum í haust. Það hræðir mig hve hratt tíminn líður, en mér finnst ég nýbúin að fylgja bróður hennar fyrstu skrefin í sama skóla.

Bróður hennar sem einmitt fagnaði 22 ára afmæli sínu daginn eftir, eða þann 2. júní. Heil 22 ár síðan ég varð móðir í fyrsta skipti, þá sjálf tvítug. Ég skrifa alltaf litla færslu til barnanna minna Facebook þegar þau eiga afmæli og rifja gjarnan upp eftirminnileg atvik í þeirra lífi. Í ár bjó ég svo vel að því að geta tekið kafla úr bókinni minni sem einmitt er tileinkaður frumburði mínum;

„Hugurinn reikar 20 ár aftur í tímann. Á fæðingardeild Landspítalans. Það er svo langt síðan, nánast í fornöld. Í það minnsta má segja að ég hafi átt hann í „gamla kerfinu“ en í þá daga voru konur heila viku á deildinni eftir barnsburð, sama hvað. Það sem meira var, feður voru aðeins velkomnir á heimsóknartímum. Máttu koma í almenna heimsóknartímann um miðjan dag og svo í sérstakan „pabbatíma“ seinnipartinn. Þrátt fyrir að finnast ég tilbúin í allt man ég hvað ég var lítil í mér, sem er auðvitað eðlilegt í þessum aðstæðum. Ég var líka bara tvítug og vissi ekkert. Fannst erfitt að hafa barnsföður minn ekki hjá mér.

Brjóstagjöfin gekk illa, ég fékk mikinn stálma og litla skinnið var latur að drekka. Ég man sérstaklega eftir einu skiptinu þegar ljósmóðirin var búin að reyna að kreista á mér brjóstin heillengi til að losa stífluna. Ég var svo send í heita sturtu. Ég fann svo ógeðslega til en brjóstin á mér voru þrútin og hörð sem gler, nánast glærfjólublá á litinn. Ég man að ég grét og grét í sturtunni, bæði af sársauka, þreytu og hormónum, auk þess að finnast ég svo glötuð að brjóstagjöfin gengi svo brösulega.

Ég fór fram til að sækja drenginn minn þegar ég var búin að klæða mig en í þá daga var líka vöggustofa á fæðingardeildinni þar sem litlu krílin máttu vera meðan mæðurnar hvíldu sig. Ég man ég hugsaði fyrsta daginn hvort ég myndi kannski ruglast á börnum. Ekki finna hann í öllu barnahafinu og taka bara eitthvað annað sem líktist honum. Það var engin hætta á því, hann var fegursta barnið á vöggustofunni. Hann var reyndar fegursta barn sem hafði nokkru sinni fæðst í heiminum.

Þar sem ég staldraði við og stóð við gluggann á vöggustofunni áður en ég fór inn heyrði ég óma lag úr vaktherberginu. Íslenska konan, með Pálma Gunnarssyni. „Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér. Hún heitast þig elskaði og fyrirgaf þér. Hún ávallt er vörn þín, þinn skjöldur og hlíf. Hún er íslenska konan sem ól þig og helgar sitt líf.“

Þarna fyrst brast allt. Ég stóð alein á sængurkvennaganginum og hágrét. Grét, nú af einskærri gleði, ást og væntumþykju til litla hnoðrans míns. Meistaraverksins. Ó hvað ég ætlaði að hjúfra hann að mér. Elska hann heitar en allt. Fyrirgefa honum uppátækin og leiða hann réttan veg. Vera vörn hans, skjól, skjöldur og hlíf allt hans líf. Ég var konan sem ól hann og ætlaði að helga honum mitt líf.“

Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Stoltið, ástina og fyrirþyrmandi ábyrgðartilfinninguna. Að sama skapi óþrjótandi tilhlökkun yfir því að fá að fylgjast með honum vaxa og dafna. Í haust hefst stærsti kafli hans í lífinu til þessa, þegar hann hefur nám í leiklistardeild Listaháskóla Íslands, eitthvað sem hann hefur stefnt að í áraraðir og tekið hvert einasta skref meðvitað að sínum draumi. Ég er spenntari að vera honum við hlið en nokkru sinni.

Emil fyllir svo fjögur árin 5. júní. Við tókum forskot á sæluna í dag þegar hann bauð sínum bestu vinum í veislu í sól og blíðu. Um leið og hann opnar nýjan kafla lokar hann öðrum á næstu dögum þegar hann klárar vistina á Furuholti og byrjar svo á Lundarseli eftir sumarfrí. Litlu vinirnir eru einstaklega spenntir fyrir tímamótunum og sjá líklega fyrir sér að taka ninja-leikina og prumpubrandarakeppnina á enn hærra plan á nýjum stað.

Þór lokaði svo að sjálfsögðu síðustu blaðsíðunni í 7. bekk og þar með miðstigi og hefur nám á unglingastigi í haust, nokkrum dögum fyrir þrettán ára afmælið.

Ég er svo þakklát fyrir að vera móðir þeirra. Svo yfirmáta þakklát fyrir að fá að fylgja þessu frábæra fólki gegnum lífið. Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið, á það höfum við svo sannarlega verið minnt á síðustu daga.

Lífið er núna, njótum þess.

 

Pin It on Pinterest