Ég hef að undanförnu farið í fjölmörg viðtöl varðandi bók mína, 261 dagur. Ég vissi alveg að bókin myndi vekja athygli en óraði ekki fyrir þeim viðbrögðum og áhuga sem hún hefur vakið.

Ég vissi líka að hún yrði umdeild fyrir margra hluta sakir, enda efnið viðkvæmt. Í viðtölunum hafa flestir spurt að því sama; af hverju ég tók þá ákvörðun að gefa efnið út. Ég svara einnig alltaf því sama, mér hafi þótt það mitt að opna þessa umræðu, hversu þungbært áfall skilnaður geti verið og hversu lítt styðjandi samfélagið sé í þeim efnum. Einnig að rannsóknir sýni að áfallið sé sambærilegt því og að missa maka, en þá sé stuðningur samfélagsins sem betur fer allt annar.

Þessi orð mín hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum og hef ég fengið bréf frá tveimur einstaklingum í Ljónshjarta; samtökum ungs fólks sem hefur misst maka sinn og barna þeirra. Ábendingu að þessu tvennu sé ekki hægt að líkja saman og þessi orð mín eigi engan rétt á sér.

Mér dettur ekki í hug að fara út í nokkrar rökræður um þetta viðkvæma mál, enda aldrei hægt verðmeta sorgina. Heldur aðeins að biðjast innilegrar velvirðingar á því ef ég hef talað óvarlega eða sært fjölda fólks.

Virðing mín er öll ykkar.

 

Pin It on Pinterest