Ég hef hugsað mér að vera með tvenns konar jóladagatal hér á síðunni minni þessa aðventuna. Annars vegar langar mig að kenna ykkur góða siði með því að deila með ykkur „Jólaalmanaki húsmóðurinnar“ sem birtist í kvennadálki Vísis árið 1968.

Hins vegar mun ég í lok hverrar færslu segja frá því hvaða hlutir kveðja heimili mitt þann daginn, en í desember munu 300 hlutir sem ekki eru í notkun öðlast innihaldsríkara framhaldslíf annarsstaðar. Hugmyndina fékk ég þegar ég tók viðtal við Ágústu Margréti Árnadóttur á Djúpavogi en hún hún ætlar að losa 2100 hluti af sínu heimili í desember.

Vel þekkt er innan þeirra sem að aðhyllast svokallaðan minimalískan-lífsstíl, að fara reglulega í gegnum eigur sínar og grynnka á þeim með markvissum hætti. Þá er algengt að fólk velji ákveðinn mánuð og losi sig við einn hlut fyrsta dag hans, tvo hluti annan daginn og svo framvegis þangað til mánuðurinn er liðinn. Ágústa kaus að hjóla í þetta í desember og gera úr því hálfgert jóladagatal í leiðinni, þar sem aðfangadagur verður síðasti dagurinn. Ég ætla líka að gera það, en snúa tölfræðinni við, ég losaði 24 hluti í dag og enda með einn á aðfangadag, en það gera 300 hlutir þessa 24 daga. Ágústa tekur þetta skrefinu lengra og ætlar að margfalda með sjö, einn skammt fyrir hvern heimilismeðlim, og eins og áður sagði fá 2100 hlutir að fjúka í desember.

Við erum eins misjöfn og við erum mörg. Sumir vilja hafa mikið í kringum sig og það er bara frábært. Það hentar mér hins vegar ekki lengur. Ég fann fyrst fyrir þessu eftir að ég skildi haustið 2015, að ég vildi bara halda eftir hlutum og dóti sem ég væri að nota, mér þættu fallegir og skiptu mig máli. Ég fór mjög markvisst gegnum allt mitt, auk þess sem ég hef flutt oftar en góðu hófi gegnir undanfarin ár og þá hef ég losað verulega. Mig langar að bjóða ykkur með í þetta ferðalag því ég veit að margir tengja, sérstaklega fólk af yngri kynslóðinni.

Ég var hins vegar spurð að því í morgun hvort ég myndi þá bara losa mig við allt það sem mér væri gefið. Það er alls ekki þannig. Þegar ég tala um „hluti“ þá hefur það víða merkingu í þessu samhengi. Það geta verið föt sem annað hvort eru slitin eða heimilsmeðlimir hættir að nota. Einnig leikföng sem aldrei eru notuð, eða þá skemmd. Það geta verið hlutir til heimilshalds, en ég þarf til dæmis ekki að eiga fimm trésleifar. Götóttir sokkar, of litlir skór, hálftómar túbur með útrunnu kremi og svo framvegis.

Ég er ekki að losa mig við hluti bara til að losa mig við hluti. Það er ekki heldur þannig að ég ætli ekki að eiga neitt. Það er þó alltaf mitt að velja hvað ég vil hafa í umhverfi mínu alla daga og ég vel að halda því sem við erum að nota, okkur finnst fallegt eða veitir okkur gleði.

Dæmi um það sem ég losaði í dag eru tvær bækur sem ég hef hvoruga lesið og sé ekki fram á að gera. Einnig einmitt götótta sokka og föt af mér sem ég nota ekki lengur. Þá losaði ég mig loksins við hálsmen sem ég einhverntíman fjárfesti í en hef aldrei notað, einfaldlega af því geng ekki með skartgripi.

 

En, að jólaalmanaki húsmóðurinnar, fyrsta versi;

1. desember.
Frá og með deginum í dag erum við minnt á það daglega að jólin nálgast hraðbyri, þvi nú birta blöðin með stórum tölustöfum,
hversu margir dagar eru til jóla. Gott er að athuga fatnað fjölskyldunnar, kaupa, sauma eða koma i hreinsun þvi
sem þarf. Og í dag opna börnin fyrsta gluggann í jólaalmanakinu.

Þar með hafið þið það. Gott ef vefsíður telja ekki niður stórum tölustöfum í dag, ég er bara ekki viss.

Eins og ég sagði frá um daginn er ég markvisst að reyna að draga úr því veraldlega umstangi sem jólunum fylgir, án þess þó að það draga úr gleðinni sem þeim fylgir. Ég ákvað til dæmis að fjárfesta ekki í jólafötum á örverpið sem hvort sem er líður þvingað í sparidressi. Hann á fulla skápa af fallegum og passlegum fötum sem hann kemur til með að skarta um hátíðina. Yngri táningurinn er vaxinn upp úr skyrtunni sinni og leit að nýrri er hafin. Hann er á þeim erfiða aldri að passa hvorki í barna eða fullorðinsstærð, þannig að hver veit nema ég líti til fortíðar og saumi bara á hann. Djók, ég gæti það ekki þó ég þyrfti að bjarga lífi mínu.

Örverpið opnaði svo fyrstu tíu dagana af jólaalmanakinu sínu í dag þar sem hann fer til föðurhúsa á morgun. Veruleiki skilnaðarbarnsins.

Endilega fylgið mér á Instagram, en þar greini ég enn frekar frá jólahreinsuninni. 

Pin It on Pinterest