Í dag segir í Jólaalmanaki húsmóðurinnar;

Ef frystikista er á heimilinu má flýta fyrir sér með því að útbúa í hana hvort heldur sem er soðið, steikt eða bakað.

Ohhh. Ég vildi svo oft óska þess að ég ætti frystikistu, eða frystiskáp öllu heldur. Ég á hins vegar bara oggulítið frystihólf í ísskápnum mínum sem rúmar bara hálft brauð og nokkur frosin ber í búst. Ég er óttaleg búkona inn við beinið og myndi safna lambaskrokkum, stórum blokkum af þorski og folaldakjöti í frost ef ég hefði tækifæri til, en það munar ótrúlega að geta gripið úr frosti í stað þess að fara daglega í búð. Ég sumsé mun þá alls ekki útbúa neitt í frost, hvorki fyrir jól né annan tíma.

 

Í dag losaði ég heimilið við 15 hluti. Þar voru smá-leikföng sem ekki eru í notkun og nokkur spil&pússl sem ég ætla að gefa framhaldslíf annarsstaðar. Einnig nokkur geisladiskahulstur, en nú er tiltektin að færast yfir á annað stig, en með því að fara yfir allt er ég búin að sameina til dæmis geisladiska sem innihéldu ljósmyndir og fleira sem ég er að fara yfir og koma á örugga staði.

Það er þessi digital-tiltekt sem ég hef miklað fyrir mér mjög lengi og geri enn, þ.e. að koma öllum ljósmyndum í möppur og helst á rafrænt ský á borð við Dropbox. Ég er aðeins byrjuð en betur má ef duga skal!

Einnig er ég alltaf á leiðinni að gera myndirnar mínar aðgengilegar fjölskyldumeðlimum með því að búa til árbækur. Það er eitthvað sem ég ætla að gera á næsta ári og verður hreinlega sett inn í markmið ársins, verkefnið tímasett og brotið niður í viðráðanlegri einingar.

Jóladagatals-tiltektin og fleira er að sjálfsögðu á Instagramsíðunni minni.

Pin It on Pinterest