Í dag segir í Jólaalmanaki húsmóðurinnar;

Nú er tilvalið að eiga rólegt kvöld með fjölskyldunni.

Það leikur enginn vafi á því að kvöldið á mínum bæ verður afar rólegt, en við örverpið erum tvö heima þessa viku. Það var svo yfirgengileg þreyta eftir leikskóladaginn og útivist sem við mæðginin tókum að honum loknum að barnið var sofnað klukkan hálf átta! Ég verð því bara að eiga rólegt kvöld með sjálfri mér og það er eitthvað sem ég er að verða snillingur í, að njóta einverunnar.

Við erum svo vön því að vera alltaf í kringum fólk, hvort sem það er á vinnustað, skóla, félagslífi eða innan fjölskyldunnar. Vegna þessa verða það mikil viðbrigði þegar heimsmynd einstaklinga breytist eins og við til dæmis skilnað eða sambandsslit. Við þurfum að standa á eigin fótum og það sem meira er, okkur er ætlað að kunna að meta eigin félagsskap.

Ég þarf ekki að horfa langt aftur til að rifja upp þá tíma sem ég átti erfitt með að una mér ein með sjálfri mér, en það held ég að sé nokkuð algengur vandi meðal fólks. Okkur er svo tamt að hoppa úr einu sambandi og beint í annað vegna þess að við kunnum ekki að takast á við okkur sjálf og viljum að einhver annar einstaklingur geri okkur hamingjusöm.

Það eru rúm þrjú ár síðan ég gekk í gegnum sambúðarslit og í dag nýt ég þess í botn að vera ein, jafnvel alveg vandræðalega mikið! Ég er svo þakklát fyrir að hafa gefið mér tíma til þess að læra að vera ein, gefið mér tíma til þess að kunna að meta það.

Ég skrifaði pistil um sjálfsumhyggju, uppáhaldsorðið mitt, fyrir stuttu. Þar segir meðal annars; Það eru allt, allt, allt of margir sem lifa ekki í sátt við sjálfa sig. Allir eiga hins vegar skilið að elska sjálfa sig því hamingjan sprettur innan frá og ef við elskum ekki okkur sjálf höfum við ekkert að gefa öðrum.

Ég mæli með því að þið rennið yfir þennan pistil við tækifæri, kannski talar hann til ykkar.

 

Annars losaði ég mig við 13 hluti af heimlinu í dag. Þeir komu allir úr hyldýpinu sem prjónakarfan mín er. Ég tek góðar prjónarispur af og til en þá er ég yfirleitt að gera ákveðið verkefni á borð við peysu. Ég kaupi því í hvert og eitt verkefni og oftast verða einhverjir afgangar eftir sem þá passa sjaldan inn í það næsta. Þess vegna átti ég fullt af stökum og hálfum dokkum sem ég nota aldrei og ákvað bara að losa núna. Það fer í Rauða krossinn eins og annað lín. Kannski flokkast garn ekki undir það orðið lín, ég bara hreinlega veit það ekki, en í Rauða krossinn fer það engu að síður.

Frá þessu sjónvarpaði ég að sjálfsögðu á Instagramsíðunni minni. 

 

 

Pin It on Pinterest