Á öðrum degi desember segir í Jólaalmanaki húsmóðurinnar;

Í dag kveikjum við á fyrsta aðventukertinu og margir hafa fyrir sið að vera með kaffiboð fyrir fjölskylduna (og vinina) til
að halda upp á að jólafastan sé byrjuð og komast i jólastemmningu.

Jahso. Jú, hér er allt á plani. Í morgun kveikti ég á fyrsta kerti í þeirri metnaðarlausustu aðventuskreytingu sem ég hef nokkru sinni gert. Það var þó alls ekki liður í ,,einföldum jólin planinu“ mínu, þar sem mér þykir sérstaklega skemmtilegt og gefandi að gera fínt á heimilinu mínu. Ég vil frekar skrifa það á ákveðna hugsanaskekkju þegar ég taldi mér trú um að ég gæti galdrað eitthvað fallegt með eftirtöldu; hvítum bakka, fjórum rauðum kubbakertum, tveimur litlum sveppum og fjórum glimmerstjörnum úr IKEA. Niðurstaðan er; Error.

Annars var ég einmitt að hugsa um aðventuskreytingar í gær. Var hugsað til þeirrar sem mamma var alltaf með á mínu æskuheimili, en hún samanstóð af skál úr Kosta Boda, grönnum kertum, greni og einhverju skrauti. Guð minn almáttugur hvað mér þótti þetta ógeðsleg hallærislegt og linnti ekki látum á mínum unglingsárum fyrr en hún lét undan og gerði eitthvað ,,nútímalegra“ að mínu mati. Í dag langar mig mjög mikið að eignast þessa skál sjálf og hafa mína aðventuskreytingu í henni. Mér dettur ekki í hug að segja mömmu það, enda hef ég aldrei þurft að hafa meira fyrir því að koma einhverri kerfisbreytingu í gegn!

Kaffiboð fyrir fjölskylduna segir almanakið. Dóttir mín fagnar 16 ára afmælinu sínu í dag og við vorum með afmælismorgunmat fyrir hana árdegis. Einnig borðuðu allir saman í gær, ég, pabbi hennar, stjúpa og öll systkini hennar, að háskólanemanum undanskildum. Ég skrifaði eftirfarandi kveðju á Facebook-síðu hennar eftir miðnætti í gærkvöldi;

Fyrir sléttum sextán árum lagðist ég til hvílu eftir langan dag í íbúð fjölskyldunnar í Árkvörn í Reykjavík. Kippti með mér jólagjafahandbók Kringlunnar sem ég ætlaði að glugga í fyrir svefninn. Allt var með kyrrum kjörum, innvortis og útvortis. Korteri síðast hófst hún, fæðingin sem var eins og snjóflóð, þvílíkur var hraðinn. Klukkan 00:45 fékk ég fyrstu merki. Klukkutíma og 45 mínútum síðar var hún mætt.

Ég gleymi því ekki þegar ég fékk hana á bringuna á mér og horfði í fyrsta skipti í stóru og skýru augun hennar. Ég hafði velt því fyrir mér hvort ég gæti elskað einhvern eins mikið og bróður hennar en áhyggjur mínar urðu að engu, hjarta mitt stækkaði um helming.

Stúlkan mín þurfti stórt nafn og Bríet varð fyrir valinu og ég er þess viss um að hún verður brautryðjandi og baráttukona eins og nafna hennar Bjarnhéðinsdóttir. Hún er nú þegar byrjuð að láta til sín taka en ég er löngu búin að missa töluna á þeim nefndum og ráðum sem hún starfar í við Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem hún er á fyrst ári.

Elsku hjartans Bríet mín. Þú ert stolt mitt og yndi, fyrirmynd og kennari. Ég er þakklát fyrir að vera mamma þín og fá að fylgja þér gegnum lífið. Til hamingju með stóra daginn þinn.

 

Að lokum ber að greina frá því hvaða hluti við kvöddum í dag í hreinsunardagatalinu sem kynnt var hér á síðunni í gær;

Tvenn götótt skópör, götótta sokka, brotna könnu, rispaða geisladiska, ónýtar jólaseríur og ónýtan straumbreyti. Eitt og annað fer svo í Rauða kross búð, svo sem tvær jólakönnur sem við notum ekki (við eigum líklega tíu), jólaskraut sem aldrei ratar upp úr kössunum, geisladiskahulstur, jólaseríu og fleira.

 

Pin It on Pinterest