Svo hljóðar skipun dagsins frá Jólaalmanaki húsmóðurinnar;

í dag gerum við jólaáætlunina okkar, skrifum niður það sem gera skal til jóla og það sem frá kemst strikum við yfir.

Ahhh. Listar. Ég hreinlega elska lista og það vita þeir sem mig þekkja. Ég er með lista út um allt, í bókum, á blöðum og stunum á veggjum. Ég er steingeit út í gegn. Verð að hafa sjónræna yfirsýn, þá líður mér best.

Þrátt fyrir að reyna markvisst að draga úr veraldlegu umstandi og einfalda lífið, bæði nú fyrir jólin og almennt, þá geng ég enn um með lista og mun líklega alltaf gera. Jafnvel lista um það hvernig ég ætla að framkvæma einföldunina. Það er líka eitthvað svo gott að geta strikað yfir unnin atriði á blessuðum listunum, þeir tengja sem tengja. Ég kann þó alls ekki við að hafa listann í símanum mínum eða tölvunni. Nei, ég vil bara hafa hann á miðum eða í bókum, hitt virkar ekki fyrir mig. En, já, listinn minn til jóla, hann verður gerður í kvöld.

Í dag sendi ég svo 21 hlut til feðra sinna, eða þið vitið, þeir fara út af heimilinu og öðlast nýtt líf annarsstaðar. Ég var enn að vinna með það sem kom út úr skápayfirferðinni á baðherberginu. Það sem fékk að fjúka í dag voru meðal annars sundgleraugu í fleirtölu, hárband, krembrúsi sem rann út árið 2014, naglaskæri og naglaþjalir, litlar snyrtitöskur og ilmvatnsprufur. Sem fyrr sýndi ég frá þessu á Instagramsíðunni minni.

Pin It on Pinterest