Í dag mælir Jólaalmanak húsmóðurinnar með;

Í dag tökum við til við smákökubaksturinn. Sjálfsagt er að allir fjölskyldumeðlimir taki þátt i honum.

Þetta þykja mér einnig skemmtilegar ráðleggingar og þarna hefur tíðarandinn breyst töluvert. Ég man, þegar ég var lítil, að á sumum heimilum var einmitt byrjað að baka þegar líða fór á desember og dallarnir svo innsiglaðir með límbandi, þannig að ekki nokkur maður gæti nælt sér í góðgæti fyrr en jólin yrðu hringd inn. Sá háttur var ekki á mínu heimili en að sama skapi hófst jólabaksturinn ekki endilega fyrr, en það sem hins vegar gerðist var það að heilu og hálfu dallarnir stóðu oft óopnaðir og innihaldinu var svo hent um páska.

Í dag hefst hinn eiginlegi jólabakstur mun fyrr, við njótum á aðventunni og sortirnar klárast jafnóðum til jóla. Þá eru líka allir búnir að fá nóg af smákökum og taka til við konfektið yfir jólin sjálf.

Ég hóf baksturinn um daginn með því að gera „mömmukökur“ með mömmu og dóttur minni. Það þykir mér alltaf hálf kvíðvænleg aðgerð, eða svo mikið bras – þessi endalausa „flatneskja“ og svo kremsmurning síðar. Kökurnar eru þó í uppáhaldi allra heimilismeðlima og ég græja þær með glöðu geði. Emil minn litli man illa hvað þær heita og kallar þær „mömmukex“ sem er það krúttlegasta sem við vitum.

 

Í dag losaði ég svo 17 hluti af heimilinu í „jóladagatalinu“ mínu. Rauði krossinn fær slatta af fötum, sem og barnabækur sem einhverra hluta vegna eru til í tvíriti á heimilinu. Þá losa ég okkur við tvo kol-rispaða DVD diska og brotin leikföng. Að síðustu mun ég koma Garmin-hlaupaúri á nýjan stað.

Frá þessu segi ég daglega á Instagramsíðunni minni, allir þangað!

Pin It on Pinterest