Í dag segir í Jólaalmanaki húsmóðurinnar;

Í dag kveikjum við á öðru kerti aðventukransins og öll fjölskyldan skrifar jólapóstinn sinn. Það sakar ekki að eiga
eitthvað til að narta i meðan setið er við skriftir.

Það er þetta með jólapóstinn. Ég skrifaði alltaf jólakort í upphafi minna búskaparára og síðar jólabréf, sem voru mjög skemmtileg, þó ég segi sjálf frá. Ég náði svo ekki utan um þetta eitt árið og síðan hef ég ekki skrifað nema rafræna jólakveðju, sem ég er mjög sátt með.

Í dag ætla ég að halda hvíldardaginn heilagan og gera ekkert, eða bara akkúrat það sem mig langar þá stundina. Ég er barnlaus og hef verið í miklu ati síðustu daga þar sem ég hef flakkað um fjórðunginn og lesið úr bókinni minni. Ég var í för með fleiri rithöfundum í svokallaðri Rithöfundalest, en hún hefur brunað um Austurland fyrir jól síðastliðin 25 ár. Ferðalagið var skemmtilegt og gefandi, en það er ótrúlega dýrmætt að hitta lesendur og um leið kynnast öðrum höfundum og þá stækka tengslanetið sitt innan þess geira.

Það sakar ekki að hafa eitthvað til að narta í segir í ráðleggingum húsmóðurinnar í dag. Þarna er ég í örlítilli klemmu, eða nei, ég stend við krossgötur í þessum efnum. Mín nýja veröld er glúteinlaus og er ég að feta mín fyrstu skref innan hennar.

Eins og fram hefur komið er ég í samstarfi við Helgu Kristínu, íþrótta- og heilsufræðing hjá Valdeflu. Hún er að hjálpa mér að taka glútein úr fæðunni minni, en það er mjög mikil áskorun fyrir mig, kolvetnafíkilinn sjálfan. Ástæða þess er sú að ég er með vanvirkan skjaldkirtill og sú staðreynd og glútein eiga illa saman. Ég er því að reyna að átta mig á nýrri heimsmynd og ekki að borða bara það sem hendi er næst og hefðbundinn jólabakstur er því ekki það sem ég get nartað í á aðventunni. Helga Kristín er að skrifa grein um þetta fyrir mig sem mun birtast hér á síðunni minni í næstu viku.

 

Í dag fóru svo 16 hlutir út af heimilinu og nú fer safnhaugurinn aðeins að þynnast. Meðal þess sem fór í dag voru rúmföt sem ekki eru í notkun, ónýtt teygjulak (eitt enn), DVD-diskar, bók sem ég var með í láni og þarf að skila og Converse-skórnir mínir.

Elsku Converse-skórnir mínir. Svartir klassískir. Ég bað mömmu að gefa mér þá í jólagjöf árið 2009, fyrstu jólin sem ég var barnlaus eftir skilnað. Ég man alltaf að mamma sagði; Ekki að ég sjái eftir þessu til þín elskan mín, en hvernig getur verið að strigaskór kosti 14.000 krónur, en þá voru þeir dýrari en þeir eru í dag! Þeir eru því níu ára og ég hef ekki notað neina skó jafn mikið og ég er komin út úr þeim á nokkrum stöðum.

Ég skrifaði einmitt um þessi jól í bók minni, 261 dagur og ætla að leyfa þeim kafla að fljóta hér með;

 

Dagur 74 

Fyrsti snjórinn er lentur og liggur sem dúnmjúk ábreiða yfir öllu. Allt er svo dásamlega fallegt og friðsælt. Geng með Örverpið á snjóþotu í ljósaskiptunum. Trén svigna undan þunganum og það glampar á greinarnar eins og þær séu alsettar kristöllum. Litli kúturinn minn sýgur snudduna sína og dregur bangsann sinn áhyggjulaus eftir gangstéttinni.  

Berst við að fara ekki að grenja. Þessi fallega mynd öskrar á fjölskyldustund. Langar að labba með Fyrrverandi og krökkunum. Búa til snjókall og engla. Fara svo inn, baka lummur og hita kakó. Allir brosandi, með frostbitnar, rauðar eplakinnar. Mig langar ekki að fara ein heim, vera á pirringsvaktinni og elda fyrir okkur tvö.  

Finnst þessi árstími mjög erfiður. Það minnir svo ótal margt á jólin. Hef alltaf verið jólabarn og þau byrja í nóvember hjá mér. Sakna litlu fjölskyldunnar minnar svo mikið. Sem aldrei fyrr. Ég þrái að við séum heild á þessum árstíma. Langar að undirbúa jólin með honum. Jólin okkar. Er með ógeðslegan hjartverk.  

Kvíði jólunum sjálfum líka sjúklega. Verð barnlaus yfir sjálfa jólahátíðina en með alla krakkana um áramótin. Það er viðbjóður að vera án barnanna sinna um jól. Alger ónáttúra. Var alein á aðfangadag önnur jólin eftir að ég skildi síðast. Neitaði öllum boðum. Langaði ekki að vera hjá neinum. Bara vera ein og gráta. Lagði mig seinnipartinn og svaf af mér þegar jólin voru hringd inn. Borðaði Dorritos klukkan níu. Drakk kók með. Opnaði þennan eina pakka sem ég átti. Horfði á Sex and the City milli þess sem ég tók æðisgengin grátköst.  

Hei, endilega fylgið mér á Instagram, þar sem hlutirnir gerast.

Pin It on Pinterest