Nei, ég var ekki að sauma í dag. Ég sauma reyndar aldrei. Og þó ég myndi einhverntíman sauma væri það aldrei bútasaumur. Ég bara nota þetta hugtak til þess að hjálpa mér að komast í gegnum og klára erfiða og yfirhlaðna daga og þótti þess virði að deila, ef einhver vill máta sig við það.

Það er alltaf mikið að gera hjá öllum. Ekkert og alls ekkert frekar hjá mér heldur en Gunnu eða Jóni. Þegar ég var að fara yfir komandi viku í huganum á sunnudagskvöldið eins og ég geri gjarnan sá ég að þetta yrði óvenju þétt, ég þyrfti að framkvæma margt til þess að láta dæmið ganga upp áður en ég legði af stað keyrandi suður um miðjan miðvikudag.

Það var auðvitað þetta venjulega, að skila af mér blaðinu í vinnunni fyrir þann tíma og svo setja saman mínar tvær veffréttir á dag. Einnig að undirbúa fyrirlestur sem ég var bókuð í á þriðjudag. Já og svo var viðtal við Moggann líka á þriðjudag. Og myndataka í tengslum við það á öðrum tíma dagsins. Já og klipping. Svo væri heldur ekki komist hjá því að þrífa íbúðin áður en Heilbrigðiseftirlitið lokaði pleisinu og ég veit heldur ekkert verra en að koma heim úr ferðalagi í skítuga íbúð á hvolfi. Ok, ok. Já, já, þetta myndi hafast. Barnið á leikskólanum og ég myndi bara framkvæma allt á extra hraða. Anda inn, anda út.

Þegar litli anginn minn kom heim af leikskólanum í gær sá ég fljótlega að ekki var allt með felldu, hann var ekki hress. Ég bara hreinlega neitaði að trúa mínum eigin augum, því barnið er jú nýbúið að klára sýklalyfjaskammt vegna lungnabólgu sem það tók ofan í hlaupabólu. Nei, minn innbyggði ennismælir í hendinni á mér gat ekki verið að segja satt! Þegar leið á kvöldið sá ég að barnið var orðið fárveikt.

Neeeeeei! Svona fyrir utan það augljósa, að ekkert er verra en þegar börnunum manns líður svo hræðilega illa, þá bara svimaði mig við tilhugsunina; hvernig í andskotanum ætlaði ég að halda plani?

Ég settist niður seinnipartinn í gær og vann fram á nótt og náði að klára alveg ótrúlega mikið af þeim greinum sem ég átti að vinna fram í vikuna, en barnið var mér hliðhollt og datt út af fyrir sex. Ég sá samt að þetta yrði eitthvað vesen, þar sem ég yrði með hann heima á þriðjudag og miðvikudag, áður en hann færi til föður síns, á sjálfan brottfarardaginn.

Ég sá að það var eitt í stöðunni. Að pakka verkefnum þriðjudags og miðvikudags í einn bútasaumsdag. Það sem ég á við með því er að þegar ég sé fram á að þurfa að framkvæma svona rosalega margt á einum degi þá bara hugsa ég hann ekki sem heild, heldur bara tek verkefni fyrir verkefni.

Ég fékk liðsauka við barnagæsluna þegar frumburðurinn kom og dvaldi hjá mér í dag í sínu vaktafríi. Reyndar þurfti ekki að hafa mikið fyrir lita manninum en hann bara lá meira og minna fyrir. Ég sá að ég þyrfti að bæta ferð á læknavaktina við á planið.

Allan daginn vann ég eftir mínu eigin bútasaumskerfi. Skref fyrir skref. Það sem ég framkvæmdi var meðal annars; Setja inn greinar vefinn fyrir vinnuna. Þrífa alla íbúðina og þvo sex þvottavélar. Fara í símaviðtal við blaðamann Moggans. Versla. Fara í Egilsstaði í klippingu sem ég átti bókaða fyrir fyrirlesturinn sem ég reyndar afbókaði. Fara í myndatöku fyrir viðtalið. Vera með mat fyrir fjóra. Fara með barnið á læknavaktina og sinna því.

Allt þetta bútaði ég niður og hugsaði bara um eitt í einu. Taka af rúmum var eitt verkefni. Klappaði mér á öxlina að því loknu og sagði við sjálfa mig að það væri þá ekki eftir, ég væri einu skrefi nær markmiðinu. Skálaði í kaffi áður en ég fór í viðtalið. Þurrkaði svo af í herbergjunum eftir það og tók úr vél og setti í aðra vél. Verðlaunaði mig með því að setjast niður með frumburðinum og fara yfir handritið okkar sem við ætlum að flytja í útgáfuhófinu mínu á föstudag. Skúraði því næst herbergin „hæfævaði“ sjálfa mig að því loknu. Knúsaði barnið inn á milli sem var þó meira sofandi en vakandi.

Svona saumaði ég mig gegnum daginn, bút fyrir bút. Mér tókst allt sem ég ætlaði mér og á morgun mun ég þá fara út úr bænum frá hreinni íbúð og búin að flestu sem ég þarf að ljúka fyrir brottför. Það sem ég er að reyna að segja er, að fyrir mig, á svona dögum borgar sig alltaf að borða fílinn í bitum í stað þess að horfa á hann allan. Sauma sig áfram, bút fyrir bút með sjálfshrósi og peppi inn á milli. Úr því verður bútasaumsteppi. Sem mér þykja í öllum tilfellum ljót. Alltaf. En, meika sens í þessu.

Á morgun ætla ég heldur ekki að gera neitt þar til ég fer, nema faðma barnið og leika við það.

Pin It on Pinterest