Ég á mér draum, sem nú bara ágerist og ágerist. Draum um að fara aftur til Bali. Þangað fór ég snemma árs 2016, þá nýskilin, eða fyrir aðeins fimm mánuðum. Enn í formi hakks í bakka með blæðandi hjartasár.

Ferðin var þannig til komin að þegar ég lá heima í áfalli eftir nýstöðvaða óléttu og skilnað sama sólarhringinn hafði ég samband við stelpu sem heitir Hrafnhildur Moestrup, en þá var hún að læra þerapíuna Lærðu að elska þig eftir Ósk Friðriksdóttur sem búsett er á Bali. Hrafnhildur (Andlegi einkaþjálfarinn í bókinni 261 dagur) tók mig í gjörgæslu og úr varð að ég fékk áhuga á að læra þerapíuna sjálf og það vildi ég gera út á Bali. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég fékk þá flugu í höfuðið þar sem ég nánast gat ekki séð um mig sjálf vegna vanlíðunar, ég átti engan pening og hafði aldrei ferðast sjálf milli landa. En, ég fór!

Ég var á Bali í tæpar tvær vikur, lærði fullt hjá Óskinni minni (Miss Bali í bókinni 261 dagur) og hún sýndi mér nærumhverfið. Ég var hins vegar enn í svo miklu messi að ég náði alls ekki að njóta þessa dásamlega lands nema að litlum hluta. Ég á til dæmis nánast engar myndir af sjálfri mér á Bali og það þykir mér leiðinlegt, en myndir eru mér afar mikilvægar. Ég verð að fá að upplifa það aftur núna þegar ég er orðin stráheil. Fara aftur og drekka í mig dásemdina, orkuna og fegurðina.

Já, ég á mér þennan draum sem ég ætla að láta rætast fyrr en seinna. Ég veit ekki hvernig, en það vissi ég ekki heldur þá. Setjum okkur markmið, sama hversu stór þau kunna að virðast. Vinnum að þeim og sigrum okkur sjálf. Því munið, lífið er núna.

Endilega eltið mig á Instagram, þar er alltaf nóg um að vera. 

 

Pin It on Pinterest