Okkur hefur í gegnum tíðina verið kennt að vera þæg og góð. Ekki láta mikið fyrir okkur fara eða að okkur kveða. Nei, þá erum við bara að trana okkur fram. Ekki heldur vera með læti. Okkur hefur einnig verið kennt að sjálfshól sé af hinu illa, bara bjánaleg sjálfsumgleði. Við erum alin upp við það að „afþakka“ hrós og jafnvel þræta á móti þegar einhver hrósar okkur. Já, það er kúl að þykjast ekki geta neitt.

Sjálfstraust er eins og nafnið gefur til kynna það traust sem við berum til okkar sjálfra og byggir á því áliti sem við höfum á okkur sjálfum sem manneskjum. Sjálfstraustið tengist því á því hvernig við tölum við okkur sjálf. Þegar það er lágt hugsum við og tölum um okkur á neikvæðan máta sem aftur viðheldur álitinu. Sjálfstraust snýst ekki um að telja sig yfir aðra hafna heldur að þurfa ekki sífellt að bera sig saman við aðra og vera sáttur með sitt. Hvenær leist þú síðast í spegil og þakkaðir fyrir það sem þú ert í stað þess að rakka þig niður og óska þess að þú værir einhvernvegin öðruvísi?

Það hefur heldur alls ekki talist töff að setja sig í fyrsta sæti. Bara alls ekki. Það hefur verið talin sjálfselska sem ekki nokkur maður ætti að láta spyrjast út um sig. Ég meina, við Íslendingar eigum að harka, slíta okkur út fyrir aðra og ekki hugsa um okkur sjálf.

Sjálfsumhyggja er nýja uppáhalds orðið mitt. Ég bara er ferlega skotin í því, það er svo fallegt og segir svo margt. Í pistli mínum, Allir geta örmagnast, greindi ég frá þroti sem ég gekk í gegnum í fyrra í kjölfar þungra tíma. Ég hef aldrei lært eins mikið um lífið og sjálfa mig á síðastliðnum þremur árum og í raun líður mér eins og ég sé í búin að vera í fullu doktorsnámi í sjálfri mér. Í dag er ég nokkuð góð en finn þó að þráðurinn minn er ekki langur en ég reyni mitt besta til þess að hugsa vel um mig og hlúa að mér.

Við verðum alltaf að setja okkur sjálf í fyrsta sæti, annars gengur ekkert upp. Já, ég veit að flest eigum við börn, erum með krefjandi heimili, í 150% vinnu, námi með vinnu og ég veit ekki hvað og hvað. Hvernig í andskotanum á þá að gefast tími til sjálfsumhyggju?

Þetta þarf ekki að vera flókið, að mínu viti snýst sjálfsumhyggja um hugarfar. Hvernig kemur þú fram við sjálfan þig þegar þú gerir mistök? Sýnir þú þér jafnmikla hlýju og skilning eins og þegar ástvinur þinn gerir mistök? Hlustar þú á sjálfan þig og tekur til dæmis mark á þreytu eða depurð? Reynir þú að hlú að þér í slíkum aðstæðum eða bara rakkar þig niður fyrir aumingjaskapinn?

Það eru allt, allt, allt of margir sem lifa ekki í sátt við sjálfa sig. Allir eiga hins vegar skilið að elska sjálfa sig því hamingjan sprettur innan frá og ef við elskum ekki okkur sjálf höfum við ekkert að gefa öðrum.

Mér finnst gott að sjá þetta fyrir mér eins og glas. Við þurfum að fylla glasið af sjálfsást alveg upp að brún. Þegar það fer að flæða yfir er hægt að nota yfirfallið við til að gefa öðrum, en það gefur auga leið að við höfum lítið að gefa úr hálf-tómu glasi. Glasið helst hins vegar ekki fullt nema við séum sífellt að fylla á það því ef það stendur bara óhreyft á borðinu gufar innihaldið upp.

Hei! Ekki heldur stela vatni í glasið frá öðrum, það er önnur og lengri pæling. Við verðum að fylla glasið á okkar eigin forsendum, ekki vera háð því að fá innihaldið/hamingjuna frá maka, börnum eða öðrum. Við verðum að sjá um að halda okkar glasi alltaf stútfullu upp á eigin spítur. Ég vinn stöðugt að því að vera sátt í eigin skinni og elska sjálfa mig en með því verð ég betri einstaklingur og besta fyrirmyndin fyrir börnin mín.

Síðast en alls ekki síst hefur okkur verið kennt að hampa okkur sjálfum alls ekki, hvað þá að vera áberandi, nei það er bara að athyglissýki. Já og ekki fara út af stígnum, heldur halda okkur á beinu brautinni. Bara vera eins og hinir, í norminu, já það er  farsælast. Sem betur fer eru þessi viðhorf að breytast og í dag er kannski ekki talin hin mesta dyggð að sitja hljóður í farþegasætinu gegnum lífið án þess að láta að sér kveða. Með hækkandi aldri hef ég lært að láta álit og skoðanir annarra ekki hafa áhrif á mig og er bara „alveg drull“ hvað öðrum finnst.

Ég skora á þig, trúðu á þig alla leið. Eins og máltækið segir; „Don’t be afraid of being different, be afraid of being the same as everyone else.” Bara í öllum bænum, ekki fara sömu leið og allir hinir, fetaðu frekar þína og markaðu þín spor í sandinn. Ég held með þér, gerir þú það?

Endilega fylgið mér á Instagram, ég tala um þessi mál og allskonar þar.

 

Pin It on Pinterest