Í dag bakaði ég engiferkökurnar hennar ömmu Jóhönnu og þar með héldu jólin formlega innreið sína. Mínar sterkustu jólaminningar eru tengdar því þegar við amma vorum að baka þessar kökur sem eru alltaf mitt uppáhald, svona svolítið eins og að borða jólin sjálf. Sjálf var ég að byrja í glúteinleysi og fæ því ekki að njóta þeirra að þessu sinni en baka þær með glöðu geði fyrir börnin, gesti og gangandi. Pistilinn hér að neðan skrifaði ég á sínum tíma í blaðið Fyrstu skrefin eða Nýtt líf, ég man það ekki alveg. Ég hef einnig birt hann á gömlu bloggsíðunni minni áður í kringum jól;

Ég lygni aftur augunum og leyfi huganum að reika. Eins og svo oft áður hvarflar hann beinustu leið í ömmuhús. Ég verð einn og þrjátíu á hæð og tuttugu og fimm kíló. Með skakka tíkarspena, þvertopp og gleraugu.Í firðinum litla er froststilla og dagurinn hefur verið dimmur. Það skiptir engu máli því í ömmuhúsi er bæði hlýtt og bjart. Við stelpurnar erum að hefja jólabaksturinn. Með fagurlitaðar svuntur hlustum við á Gerði G. Bjarklind kynna jóladúetta með Ellý og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum.

Ég hef lengi hlakkað til bakstursins og ekki að ástæðulausu. Ég gegni þar ábyrgðamiklu hlutverki. Það er ég sem sé um að sjálfar engiferkökurnar líti vel út. Buffhamarinn er notaður til verksins. Af mikilli nákvæmni, með tunguna út í öðru munnvikinu, miða á á kökuna og ýti. Undan hamrinum sprettur lystilegt mynstur. „Flott hjá þér elskan mín, það held ég að þær eigi eftir að bragðast vel þessar.“

Á meðan ég sit við eldhúsborðið og vinn mitt verk sýslar amma sitt. Við segjum ekki margt. Það er óþarfi – samveran er okkur nægjanleg. Bökunarlyktin líður um loftið, tíminn er afstæður og mér líður vel.

Ég naut þeirra forréttinda sem barn að hafa óskertan aðgang að ömmu og afa. Í ömmuhúsi ríkti alltaf einstakur friður og ró. Enginn þurfti að flýta sér. Að engu þurfti að ana og allur heimsins tími var fyrir mig. Í minningunni var amma sérsmíðuð fyrir mig og okkar sterka samband hefur mér alla tíð verið mjög dýrmætt.

Sem móðir tel ég samband kynslóðana vera veigamikinn þátt í uppeldi barna sem beri að rækta af alúð. Það er yndislegt fyrir hvern þann sem getur með sjálfum sér og öðrum rifjað upp og deilt ljúfum minningum úr æsku. Minningarbrotin þurfa ekki endilega að tengjast merkilegum atvikum. Í mínu tilfelli eru það litlu og hversdagslegu hlutirnir sem standa uppúr.

Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn og græðgin ætla allt um koll að keyra tel ég nauðsynlegt að staldra við og íhuga hvað það er sem mestu máli skiptir. Þegar öllu er á botninn hvolft er fjölskyldan hornsteinninn. Án hennar væri lífið innantómt og jeppinn og pallurinn myndi missa mesta glansinn. Staðreyndin er sú að fjölskylduböndin þarf líka að bóna ekki síður en jeppan og að þeim þarf að dytta ekki síður en pallinum.

Sorglegt er til þess að hugsa að fólk þurfi að lenda í alvarlegum veikindum eða aðstæðum þar sem dauðinn ógnar til þess að átta sig á því á hversu dýrmætur sjóður þeirra nánustu eru og ekki er sjálfgefið að allir hittist heilir að kvöldi.

Ekki er óalgengt að lesa viðtöl við fólk sem lent hefur í miklum hremmingum og lofar þar bót og betrum í náungakærleik. Bæta skal á einu bretti upp öll árin þar sem vinnan var í fyrsta sæti. Íslendingar hafa verið kallaðir vinnualkar og litið hefur verið á þá sem vinna mest sem sannar hetjur. Fyrir hvern hetjuskapurinn er drýgður er ekki gott að segja. Börnin meta það án efa meira ef við gefum þeim tíma til þess að taka þátt í þeirra daglegu athöfnum en að annríkið sé bætt upp með fjarstýrðum bíl eða Baby born.

Ég lít á samverustundir sem ég á með fjölskyldunni minni sem og þeim sem eru mér kærir líkt og innlegg á bankabók. Ef lítið er lagt inn á reikninginn er ekki hægt að vænta hárra vaxta eða gildrar innistæðu.

Nú þegar helgasti ársins fer í hönd er rétt að standra við og forgangsraða rétt. Að mörgu þarf að huga við undirbúning hátíðahaldanna og auðvelt er að gleyma sér í dagsins önn. Setjumst niður og gefum okkur tíma til þess að njóta aðventunnar með okkar fólki. Gáfulegra er að taka húsið í gegn í vor þegar birtu nýtur og sólargeyslarnir leiða okkur í sannleikann um hvar á eftir að pússa. Tökum börnin okkur til fyrirmyndar. Hjá þeim er hinn sanna jólaanda að finna. Þau hafa engar áhyggjur af því þó svo eitt og eitt rykkorn leynist í skápahornunum.

Jólabakstur okkar ömmu endaði á viðeigandi hátt – með kökuáti og ískaldri mjólk. Sjálfsagt hefur gólfið verið hveiti stráð, en það skipti engu máli. Engiferkökurnar mínar minntu á stjörnur á næturhimni, svona fagurlega flúraðar.

Í skápinn fyrir ofan ísskápinn sótti amma mikinn fjársjóð. Þar leyndust glös sem mér þótti mikilfengilegri en þynnsta postulín. Glösin voru úr plasti og engin tvö voru í sama lit. Öðrum hefur varla þótt þau merkileg en mér fannst mjólkin bragðast betur úr þeim en öðrum glösum. Ég fékk þau eingungis til afnota þegar mikið stóð til og ég valdi alltaf gula glasið. Merkilegir töfrar áttu sér stað í hvert skipti sem ég drakk mjólk úr því. Hvernig sem á því stóð öðlaðist drykkurinn hversdagslegi alltaf sítrónubragð. Svona var allt töfrandi í ömmuhúsi.

Gefum hvert öðru tíma og athygli, ekki síst börnunum okkar. Hlustum á það sem þau hafa að segja og látum þau finna að þau skipti okkur máli. Kveikjum á kertum, hlustum á fallega tónlist og ekki væri úr vegi að narta í smákökurnar sem fjölskyldan hefur bakað – saman.

Verð að láta uppskriftina fylgja með, beint úr handskrifuðu stílabókinni hennar ömmu.

Engiferkökur

500 grömm hveiti
500 grömm púðursykur
250 grömm smjörlíki (ég nota alltaf íslenskt sjör í allt, aldrei smjörlíki)
2 egg
1 tsk natron
4 tsk lyftiduft
2 tsk engifer
2 tsk kanill
1/2 tsk negull

Öllu hnoðað saman í vél. Gott að kæla yfir nótt áður en bakað í 8-10 mínútur við 180 gráður. Gerir gæfumuninn að móta litlar kúlur og munstra þær með buffhamri. Lofa.

Pin It on Pinterest