Ég fékk áskorun í upphafi mánaðar. Ferlega góða. Eða slæma. Svona eftir því hvernig á það er litið. Hún var þannig til komin að ég var að horfa á Instagram-story þar sem ég sá eina kynsystur mína standa á höndum út á miðju gólfi. Bara sí-svona, eins og hún væri að drekka vatn, svo lítið mál virtist þetta. Hvur andskotinn! Hvernig fer konan að þessu? Ég hafði ekki hugmynd um að hún væri í betra formi en Annie Mist Crossfit-stjarna.

Ég beið ekki boðanna, heldur sendi henni línu gegnum miðilinn. Hvað hún væri að gera, já og bara hvernig hún færi að þessu. Hún sagði lykilinn vera að eiga kort í líkamsrækt þó hún myndi aldrei mæta. Já og panta alltaf þriðjudagstilboðið á Dominos. Ok. Sem sagt, þarf ekkert að hafa fyrir þessu. Þoli ekki svona fólk. Hún sagðist reyndar hafa séð að seyðfirski bloggarinn Helgi Ómarsson ætlaði að hlaupa 100 km í ágústmánuði og væri að skora á fólk að gera slíkt hið sama. Hún væri að hugsa um að taka áskoruninni og spurði hvort ég myndi ekki bara gera það líka.

Jú, það hélt ég þar sem ég lá eins og úldinn haugur í sófanum. Ég er alltaf orðin svo ólm, uppveðruð og bjartsýn í kringum kvöldmat, þegar ég er búin að innbyrða ólöglegt koffínmagn yfir daginn. Finnst ég geta allt. Jú, var þetta ekki bara eitthvað sem við ættum að gera. Hlaupa 100 km hvor í ágúst, hún í Reykjavík og ég á Reyðarfirði? Það hélt ég nú. Reglurnar eru þessar: Það eru „bara“ þessir 100 kílómetrar sem eru undir, hvorki meira né minna. Ef önnur hvor klárar ekki tapar hún. Ef við förum þá báðar vinnum við báðar. Og nei, ég tek ekki þátt í því að keppast við að hlaupa meira og vinna þá enn meira. Nei, takk.

Ok. 100 kílómetrar. Þetta hljómaði alveg jafn slæmt og það er. Rúmir þrír kílómetrar á dag, alla daga mánaðarins. Hvað var svona helst að mér þegar ég samþykkti þetta? Koffíneitrun? Mér þykja hlaup alltaf voðalega heillandi þegar ég sé aðra svífa um í neonlituðum galla og með derhúfu, án þess svo mikið sem blása úr nös. Það er allt annað þegar ég er búin að reima á mig skóna, rassinn á mér er bara svo þungur, þrátt fyrir loftpúðaskóna frá Asics.

Í dag er 14. ágúst. Mánuðurinn rétt tæplega hálfnaður og ég bara komin með 35 kílómetra. Eða þið vitið, það væri ekkert „bara“ fyrir mig í hefðbundnum mánuði, það er ekki eins og ég sé búin að vera að hlaupa eitthvað markvisst. Ég hef komist að því að þolið mitt er ekkert og mér finnst þetta ógeðslega erfitt. Samt, þá er þetta að koma, mig langar í það minnsta ekki alltaf að henda mér í höfnina þegar ég skokka þar framhjá lengur. En,100 kílómetrar, sjáum hvað setur.

Samhliða þessari hlaupaáksorun fékk ég þá flugu í höfuðið að prófa Keto-mataræðið sem merkir í mjög einfölduðu máli að líkaminn skiptir úr því að nota kolvetni sem orkugjafa yfir í það að nota fitu sem orkugjafa – en nánar um það síðar. Það verður mér mjög mikil áskorun þar sem ég er einn mesti kolvetnafíkill sem um getur, gæti borðað brauð í öll mál.

Ég ætla að byrja á þessu nýja mataræði á fimmtudaginn og í það minnsta gefa því sjens í þrjár vikur og svo bara áfram veginn ef það leggst vel í mig. Ég ákvað líka að taka þriggja daga safakúr frá Sonatural til þess að hreinsa kerfið og gefa líkamanum frí til uppbyggingar.

Það gefur gengið alveg ótrúlega vel. Ég er ekki svöng (ótrúlegt en satt, en hver dagskammtur er reyndar 1400 hitaeiningar) en ég sakna þessa að borða og jafnvel ennþá meira því að drekka kaffi!

Um helgina var ég í bíl með 15 ára dóttur minn og þessar nýtilkomnu lífsstílsbreytingar mínar komu til tals. Mér verður á að segja hálf mæðulega; „Hvernig heldur þú að þetta eigi nú allt saman eftir að ganga hjá mér Bríet – hlaupin, safahreinsunin og Keto-mataræðið?“ Hún horfði ákveðið á mig og svaraði; „Það gengur bara eins og þú vilt að það gangi.“

Þetta er ein mesta „spot-on“ setning sem ég hef heyrt í langan tíma og segir allt sem segja þarf við flestar aðstæður. Þetta snýst allt um hugarfar. Ef við förum inn í verkefni eða eitthvað tímabil með hangandi haus og erum farin að sannfæra okkur um að það gangi ekki eða verið óyfirstíganlegt áður en við erum svo mikið sem komin í aðstæðurnar þá getum við sagt okkur sjálf hvernig fer. Það verður allt saman erfitt og ógerlegt. Ef við hins vegar tölum jákvætt til okkar og segjum okkur sjálfum að við séum spennt að takast á við komandi áskorun þá verður allt miklu léttara.

Þannig að. Auðvitað tækla ég þetta allt saman, í það minnsta geri mitt allra besta með bros á vör. Og, mikið sem unglingar í dag eru klárari en ég var á þeirra aldri. Herre gud!

P.s. Endilega eltið mig á Instagram, þar er greint frá öllum þessum áskorunum.

Pin It on Pinterest