Mér hefur liðið undarlega að undanförnu. Voru þetta tvö of lík orð í röð? Jæja, meikar ekki diff.

Ég hef ekki verið „í pásu“ – þið vitið, meðvitað í hléi frá einhverju. Nei, heldur finnst mér eins og ég hafi verið „á pásu“ frá því í byrjun júní – svona eins og þegar maður er að horfa á mynd, þarf að pissa og ýtir á pásu á fjarstýringunni. Nýji myndlykillinn minn frá Símanum talar alltaf við mig þegar ég ýti á pásu, eða sendir mér skilaboð á borð við; Partýið er búið, Bára er lögst í bleyti og mæjónesan er orðin gul. Eða. Okkur verður öllum mál. Eða. Ertu að fara að salta poppið? Eða. Ekkert mál, ertu að fara að salta poppið?

Þetta með nánast mennska myndlykilinn var útúrdúr. Ég veit ekki einu sinni hvað ég er að reyna að segja. Því ég veit ekki einu sinni hvað ég er að meina. Kannski þetta; Eftir útgáfufjörið í maí er eins og ég hafi lagst í dvala, svona eins og bjarndýr eða skjaldbaka. Finnst eins og hafi verið í stoppdansi og stjórnandinn á tækinu hafi farið í frí eftir að hann setti á pásu án þess að láta neinn vita.

Ég er með hausinn uppfullan af allskonar hugmyndum varðandi bloggið mitt fína en kem engu á blað. Eða í verk. Ég er með tugi efnisorða varðandi bókina og skilnað sem mig langar að skrifa um. Auk þess er hversdagurinn uppfullur af allskonar skemmtilegheitum.

Það er bara að byrja. Ágústmánuður er góður til þess!

 

 

 

Pin It on Pinterest