Þá er 48 klukkustunda þagnar- og samfélagsmiðlabindindi mínu lokið, en „friðhelgin“ var atriði númer 29 á draumalistanum mínum.
Atriðin liggja eru ekki í áhersluröð á listanum mínum, heldur eru af öllum stærðum og gerðum og liggja þvers og kruss, en ég henti þeim 50 sem ég var með á lausum blöðum inn í Bucketlista-bókina þegar ég fékk hana og síðan þá bætist sífellt við.
Ég hef lengi horft löngunaraugum á kyrrðarhelgar sem auglýstar hafa verið um landið með það að markmiði að heila líkama og sál. Það sem mér hefur þótt einna athyglisverðast er að þessir dagar fara að mestu fram í þögn. Það hefur þó eitt og annað aftrað mér frá því að fara og láta drauminn rætast, svo sem vegalengdir, peningaleysi og ekki réttar tímasetningar varðandi börnin. Ég setti þetta svo á á listann minn um jólin. Ég ákvað þó að breyta áherslum og framkvæma þetta bara heima hjá mér þegar færi gæfist.
Markmiðið hljóðaði svona; Þagnarbindindi frá föstudagskvöldi fram á sunnudagskvöld.
Ég fann að mig langaði að framkvæma þetta fyrr en síðar og þegar ég sá að ég átti barnlausa og óbókaða helgi 8. – 10. febrúar ákvað ég að láta slag standa. Ég ákvað jafnframt að bæta samfélagsmiðlabanni við þennan tíma. Ég sagði frá þessu á Instagramsíðunni minni og uppskar töluverð viðbrögð, fólki þótti þetta ýmist sniðugt og spennandi eða þá undarlegt og hálf ógnvekjandi.
Af hverju var ég að þessu? Satt best að segja gerði ég þetta 80% af einskærri forvitni. Áhugi minn á andlegum málefnum er alltaf að aukast og ég hef verið að æfa mig í hugleiðslu sem ég finn að gerir mér gott. Mig langaði því óskaplega að vita hvernig það væri að þegja í 48 klukkustundir, fá þannig tækifæri til þess að kúpla mig út úr öllum samskiptum og í leiðinni hafa algera stjórn á því í hvað orka mín nýttist.
Að sama skapi þótti mér þetta afar ögrandi áskorun fyrir manneskju eins og mig sem nærist á mannlegum samskiptum. Tímasetningin var einnig kærkomin þar sem lífið keppist við að bjóða mér upp á áskoranir af ýmslu tagi þessa dagana og því gott að fá að leggjast aðeins undir feld og anda.
Undirbúiningur og framkvæmd; Ég útbjó mér ramma sem ég vildi fara eftir. Áskorunin hófst klukkan 19:00 á föstudagskvöldi og lauk klukkan 19:00 á sunnudagskvöldi. Þann tíma var ég ekki í neinum samskiptum við fólk, hvorki augliti til auglitis, í síma eða gegnum netmiðla.
Ég lét vita af áformum mínum, bæði á mínum miðlum sem og persónulega þar sem það átti við. Ég þreif íbúðina og gerði huggulegt, en það skiptir mig miklu máli að hafa hreint í kringum mig ef ég á að njóta þess að slappa af. Ég verslaði inn fyrir alla helgina á föstudaginn og reyndi að hafa það að mestu mat sem væri næringarríkur og góður fyrir mig.
Einnig var ég búin að gera lista af athöfnum sem ég gæti hugsað mér að gera yfir helgina, en á honum voru atriði á borð við lestur, skrif, heitt bað og andlitsmaski, prjónaskapur, ákveðnir þættir í sjónvarpinu, hugleiðsla, göngutúr og fleira á þessum nótum.
Upplifun mín; Ok, ok. Hvernig gekk? Hvernig var þetta eiginlega? Upplifði ég einhverna breytingu?
Fyrst og fremst þótti mér þetta alls ekki erfitt, en ég er vön einveru og líkar hún vel, þó svo að ég sé nú venjulega í mannlegum samskiptum daglega. Ég gleymdi mér nokkrum sinnum þegar ég ávarpaði köttinn eða brast í söng þegar gott lag kom í útvarpinu.
Ég fann fyrir ákveðnu eyrðarleysi fram eftir degi á laugardag, hausinn á mér var á fullu og skaut að mér allskonar handahófskenndum hugsunum. Mér fannst ég líka aðeins vera að missa af einhverju og langar að skrifa það á ákveðin fráhvörf frá internetinu.
Á þeim tíma langaði ekki að gera neitt, „bara vera“. Í aðdragandanum hafði ég einhmitt ákveðið að gefa mér heimild til þess að gera bara það sem ég helst vildi þennan tíma og leyfði mér það bara. Ég leyfði hugsunum og tilfinningum að koma og fara eftir því sem þeim hentaði.
Síðdegis á laugardag upplifði ég svo slökun, eins og ég væri búin að ná mér niður á einhvern hátt. Ég varð pollróleg, naut þess að að prjóna, hlusta á Podcast og horfa ein á forkeppni söngvakeppninnar.
Ég vaknaði svo ótrúlega yfirveguð á sunnudagsmorgun og kom miklu í verk yfir daginn. Ég skrifaði það sem ég ætlaði mér, kláraði peysu á Emil, horfði á myndina sem mig langaði, fór í göngutúr og fleira.
Hver er niðurstaðan? Upplifði ég einhvern ávinning af friðhelginni? Eða skipti þessi gjörningur engu máli?
Ég er í það minnsta einstaklega ánægð með að hafa látið slag standa, en það er alltaf skemmtilegt og gefandi að ná markmiðum sínum. Hvað upplifun mína varðar þótti mér magnað að finna hvernig róin færðist yfir mig eftir því sem á leið. Hvernig hugurinn róaðist og vann betur með mér.
Ég talaði við Írisi Eiríksdóttur fyrir helgi, en hún er jógakennari og hefur bæði mikla reynslu og áhuga á þessum málefnum. Hún sagði meðal annars við mig; Í þögninni leynast svörin.
Þetta og akkúrat þetta upplifði ég sterkt síðari daginn. Ég var mjög skýr í hugsun og náði að velta vel fyrir mér allskonara málefnum sem ég hef hugsað um að undanförnu.
Það helltist einnig yfir mig mikil þakklætisgusa í kyrrðinni. Ég er þakklát fyrir það sem ég á. Óendanlega þakklát fyrir góða heilsu og að vera komin almennilega úr kafinu.
Ég ætla að gera þetta aftur, já bara reglulega. Næst langar mig að vera enn kræfari, helst vera lengur og á sjónvarpslausum stað. Mig langar líka að prófa að fara á skipulagða kyrrðarhelgi þar sem ég er leidd áfram í hugleiðslu og djúpslökun í þögninni. Mig langar í raun að stúdera þetta miklu betur, en ég held að þetta geti verið alger galdur.
Í febrúar setti ég mér það einnig að vera ekki á internetinu eftir klukkan 21:00 á kvöldin og ekki fyrsta klukkutímann eftir ég vakna. Mér finnst það gefast vel og ætla að halda því áfram – á morgun, þegar ég er aðeins búin að fá að litast um eftir bannið. Ég leyfi samfélagsmiðlum almennt að taka frá mér og mikinn tíma. Ég ætla að taka stöðuna eftir febrúarmánuð hvort ég held ekki áfram uppteknum hætti.
Endilega fylgið mér á Instagram en þar mun ég fara betur yfir þetta allt saman, sem og fleira og fleira.