Enn á ný byrja ég færslu á því að minnast á Draumalistann minn sem allt mitt líf virðist ganga út á þessa dagana. Atriði númer 70 á listanum er svo hljóðandi; Gera allar uppskriftir úr einhverri einni uppskriftabók.
Ég hreinlega veit ekki af hverju þessi hugmynd kom til mín, en ég nota uppskriftabækur lítið núorðið, fer miklu frekar á netsíður, en mínar uppáhalds eru Gulur, rauður, grænn og salt og Ljúfmeti og lekkerheit.
Það sem mér finnst mest spennandi við þetta langtímamarkmið er í raun að þröngva mig til að gera allar uppskriftir úr einni bók, en við vitum hvernig þetta virkar, við erum gjörn að elda það sama aftur og aftur. Með þessu prófa ég hins vegar allt mögulegt sem ég myndi alla jafna ekki gera.
Ég ákvað að hefja þessa vegferð á dögunum og valdi bókina Heilsuréttir fjölskyldunnar eftir Berglindi Sigmarsdóttur. Ég hef átt bókina lengi og eldað nokkrar uppskriftir úr henni sem allar eiga það sammerkt að vera einfaldar, hollar og góðar.
Markmiðið er að reyna að komast sem lengst með að gera þær allar fyrir árslok, en ég ætla þó alls ekki að lofa því. En, hálfnað verk þá hafið er segir máltækið, fyrsta réttinn eldaði ég áðan.
Hunangs- og sojagljáður kjúklingur með kasjúhnetum (fyrir fjóra)
Ég valdi að byrja á uppskrift sem ég hef gert áður, en hún er bæði vandræðalega einföld og rosalega góð. Ég er ein heima þessa vikuna en eldaði fulla uppskrift því mér finnst gott að eiga afganga í hádeginu þar sem ég vinn heima.
5 kjúklingabringur
2 msk sojasósa, t.d. tamari sem er glúteinlaus
3 msk hunang, t.d. akasíuhunang
1 msk jómfrúarólifuolía
100 gr kasjúhnetur
- Blandið sojasósu og hunangi í skál, hrærið vel saman
- Skerið kjúklingabringur í bita og setjið út í blönduna, látið standa í 5 mínútur.
- Hitið olíu á pönnu.
- Steikið kjúklinginn við meðalhita í 4-5 mínútur. Hækkið hitann og steikið áfram í 3-5 mínútur. Ef það er mikill vökvi á pönnunni (sem kemur úr kjúklingnum) hellið honum þá af eða látið hann gufa upp meðan þið steikið. Setjið kasjúhneturnar út á pönnuna og látið kjúkling og hnetur karmellast á pönnunni.
Með þessu bar ég fram mitt uppáhalds kínóablönduna mína og ferskt salat. Ég er tiltölulega nýbúin að uppgötva kínóa og nota það í staðinn fyrir hrísgrjón. Kínóa er glúteinlaust korn, próteinríkt og ríkt af góðum fitusýrum. Dellan mín þessa dagana er kínóa með lauk, hvítlauk og sólþurrkuðum tómötum.
Dellu-kínóað mitt
Dass af kínóa
Einn laukur, venjulegur eða rauðlaukur
Þrjú hvítlauksrif
Sólþurrkaðir tómatar
Kókosolía
Gróft salt
Heitt pizzakrydd eða annað sterkt krydd
Masala
- Skolið kínóað í sigti í köldu vatni og sjóðið það svo.
- Skerið lauk og hvítlauk og steikið upp úr kókosolíu.
- Skerið tómatana niður.
- Blandið kínóanu og tómötunum saman við laukinn.
- Kryddið eftir smell með salti, sterku kryddi og Masala.
Ég mæli hiklaust með þessum rétti hvort sem er hversdags eða þegar gesti ber að garði.