Eins og ég sagði frá hér á síðunni um daginn greindist ég með vanvirkan skjaldkirtil þegar ég var rúmlega tvítug. Síðan þá hef ég tekið inn skjaldkirtilshormón sem gefin eru við vanstarfsemi skjaldkirtils og mun gera það alla mína tíð. Ég þarf reglulega í blóðprufu til þess að skoða gildi skjaldkirtilsins, en alla jafna hagar hann sér bara vel, nema þegar ég geng með börn eða lendi í yfirgengilegri streitu.

Fyrir tæpum mánuði hitti ég Helgu Kristínu hjá Valdeflu í fyrsta skipti, en hún bauð mér að koma í heilsuráðgjöf til sín. Helga Kristín er íþrótta- og heilsufræðingur og alger snillingur.

Við settumst niður og ég sagði henni frá mínu mataræði, til dæmis því að ég væri alger kolvetnasuga og gæti borðað brauð út í eitt. Nefndi svo skjaldkirtilinn svona í framhjáhlaupi. Helga Kristín spurði mig hvort enginn læknir hefði sagt mér að þeir sem eru með vanvirkan skjaldkirtil ættu helst ekki að borða glútein? Ég sagði bara eins og er, að þeir læknar sem ég hefði verið hjá í gegnum tíðina hefðu ekki minnst einu orði á mataræði í tengslum við skjaldkirtil. Með þessar upplýsingar í farteskinu sagðist hún ætla að nálgast mig á ákveðinn hátt í mataræðisráðgjöf, því það væru fjölmargt sem ekki rímaði við vanvirkan skjaldkirtil í þeim efnum.

 

Helga Kristín setti saman stutta grein um mataræði og dæmi um þau matvæli sem hamla virkni skjaldkirtilsins;

Skjaldkirtillinn stýrir hormónaflæði, efnaskiptum og ýmsum öðrum ferlum í líkamanum sem halda okkur í jafnvægi daginn út og inn. Við einblínum því á orkuþáttinn og það jafnvægi sem skjaldkirtillinn stýrir í líkamsstarfseminni eins og hita, kulda, meltingu og svo framvegis.

Það er svo margt í mataræðinu sem stýrir líðan okkar og þar er skjaldkirtillinn engin undantekning. Það er hægt að skrifa heila bók um mataræði og tengsl þess við skjaldkirtil og líkamsstarfsemi en hér á eftir kemur listi, þó ekki tæmandi um þau matvæli sem hafa neikvæð áhrif á virkni skjaldkirtilsins. Flest þessara matvæla valda ýmist bólgum eða vanvirkni sem ýta undir þau einkenni sem vanvirknin veldur eins og þreytu, auknum bólgum í liðum, vöðvaverkjum, taugaverkjum, höfuðverk og fleiru.

Skjaldkirtillinn gefur engan afslátt á jólum eða öðrum hátíðum og þar af leiðandi oftast svolítið vandamál að komast í gegnum jólaboð án vandkvæða. „Af hverju ætti það að vera?“ spyrja eflaust margir og hér ætlum við að reyna að útskýra það á eins einfaldan hátt og hægt er. Hvað á ég ekki að borða eða að minnsta kosti hafa í huga?

 

Soya er algjör bannvara en það hefur mjög letjandi áhrif á skjaldkirtilinn fyrir utan það eitt að rugla í hormónakerfinu. Það innheldur hlutfallslega mikið magn isoflavona sem hegða sér eins og kvenhormónar í líkamanum og ruglar í hormónakerfinu öllu. Soya inniheldur efnið goitrogen sem hamlar upptöku joðs í líkamanum sem er svo mikilvægt fyrir skjaldkirtilinn og eðlilega virkni. Soya er að finna í ýmsum matvælum, til dæmis í tilbúinni matvöru, tilbúnum sósum og marineringum. Einnig í mörgum próteinstykkjum svo eitthvað sé nefnt. 

 

Glúten er annar stór partur af vanvirkniþætti skjaldkirtilsins. Í þeim tilvikum horfir varnakerfi líkamans á glúten sem óæskilegt efni og sendir varnarfrumur til þess að eyða þessum óvni úr líkamanum. Það sem gerist er að varnafrumurnar ráðast líka á skjaldkirtilinn í leiðinni sem veldur bólgu og í sumum tilvikum Hashimoto´s sjúkdómnum sem er eins konar sjálfsofnæmissjúkdómur.

Þar sem glúten er að finna í mjög mörgum fæðutegundum er mjög erfitt að komast hjá því án þess að taka það alveg út og breyta algjörlega um takt í mataræði. Það getur verið tímafrekt og erfitt í fyrstu en venst þó með tímanum, sér í lagi þegar fólk fer að finna fyrir mun á líðan fljótlega á eftir. Hafra er hægt að fá glútenfría stundum ásamt öðru korni en hafa þarf í huga kross-smit vegna framleiðslu annarra matvæla sem gera það að verkum að hafrarnir eru ekki alveg glútenfríir. Best er að taka út alla þessa þætti tímabundið og bæta þeim svo hægt og rólega inn aftur til að finna hvort áhrifin eru neikvæð eða ekki.

 

Saponin. Hrátt sterkjuríkt grænmeti er hollt og gott en ekki endilega fyrir þá sem glíma við vanvirkan skjaldkirtil. Dökkgrænt grænmeti eins og brokkolí og grænkál inniheldur sterkju sem kallast saponin sem veldur því að upptaka joðs verður ekki eins og best verður á kosið. Með því að sjóða grænmetið í stutta stund brjótum við niður sterkjuna sem hefur með því móti bæði jákvæðari áhrif á upptöku næringarefna og virkni í meltingarvegi ásamt minni áhrifum á virkni skjaldkirtilsins. Það er því gott að venja sig á að sjóða sterkjuríkt grænmeti fyrir neyslu og skola vel kínóa og hrísgrjón fyrir matreiðslu til að hreinsa burt saponinið. Saponin er þekkt fyrir að vera náttúruleg vörn fyrir krabbameini og er því ekki alslæmt, en stundum þarf að skoða heildarmyndina þegar horft er til heilsunnar.

 

Kaffi er talið allra meina bót í hófi eins og svo margt annað sem fer inn fyrir varir okkar. Koffín getur samt sem áður haft neikvæð áhrif á kortisol, orkuferlið og skjaldkirtilinn. Koffin blokkar virkni skjaldkirtilslyfjanna. Já, ef þú ert að taka lyf við vanvirkum skjaldkirtli þá máttu ekki fá þér fyrsta kaffibollann strax heldur leyfa líkamanum að frásoga virku efni lyfsins inn í blóðið fyrst. Áhrif koffíns á kortisol og orkubúskapinn getur verið neikvæð en það er gott að skoða á hvaða tímum dags náttúrulega kortisol framleiðsla er best.

Á morgnana þegar við erum nývöknuð eykst kortisol framleiðsla líkamans hægt og rólega og nær hámarki rétt fyrir hádegi áður en það fer aftur að lækka. Þá er gott að gefa líkamanum smá tíma til þess að vakna áður en fyrsti kaffibollinn er drukkinn, svo aftur eftir hádegi, eftir mat þegar okkur hættir til við að fá smá þörf fyrir kríuna. Það er áhugavert að skoða líka tengsl máltíða við kortisol framleiðslu en með því að borða minna af kolvetnum fyrri part dags og auka svo skammtinn seinni hluta dags náum við að viðhalda kortisol jafnvægi betur en ef við myndum neyta mjög kolvetnaríkrar fæðu að morgni.

 

Sykur er mjög tengdur kortisol framleiðslu, orkuinntöku og kaffidrykkju ef svo má segja. Óreglulegur blóðsykur ýtir undir hægan skjaldkirtil og hægur skjaldkirtill ýtir undir meiri sykurþörf. Það er því nauðsynlegt að minnka eða hætta alveg neyslu á sykri til þess að ná betra jafnvægi í allri líkamsstarfsemi. Sykur ýtir undir stressþættina í framleiðslu kortisols sem gerir það að verkum að þegar blóðsykurinn fellur verða áhrifin mun dramatískari en ella. Það þekkja flestir sem glíma við vanvirkan skjaldkirtil erfiðleikana við að viðhalda eðlilegum blóðsykri, nartþörf, svefnþörf o.s.frv. Þarna eru mjög skýr tengsl og því mikilvægt að horfa á þessa þætti með mjög opnum huga og skoða hvaða leiðir hægt er að fara til þess að koma í veg fyrir algjört krass um miðjan daginn.

 

Hér að framan gefur á að líta mjög grófa upptalningu af þeim matvælum sem forðast ætti í lengstu lög. Þetta er ekki tæmandi listi enda borgar sig ekki að hoppa í dýpstu laugina þegar horft er til breytingar á lífsháttum. Allt er gott í hófi að sjálfsögðu en með því að lesa sér til og kynna sér betur það sem hefur mikil áhrif á alla líkamsstarfsemi og líðan okkar má forðast órjúfanlegan hring ávana í venjum okkar.

Við höldum svo áfram með þetta efni á nýju ári. Gott er að nýta tækifærið og lesa á matvælin, kynna sér innihaldsefnin og skoða hvort það sem við erum vön að borða dags daglega sé að gera okkur þreyttari og slappari en eðlilegt er.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir

 

Ok. Mig svimar smá við að lesa þetta, þá sérstaklega um kaffið. Sé ég brauðfíkill þá er ég kaffi-alki!

Nei, nei, þetta verður ekkert mál. Ég tók ákvörðun þegar Helga Kristín sat hjá mér að ég ætlaði að taka glútein út strax, en þá var aðventan alveg að bresta á. Mér fannst það bara góð áskorun, að sleppa öllum hefðbundnum smákökum og öllu hveitiáti sem almennt tengist aðventunni. Við ákváðum þó að ég myndi renna nokkuð mjúklega inn í ferlið og ekki vera að lesa aftan á allar matvörur fyrr en á nýju ári, heldur bara taka út það sem ég vissi að innihéldi glútein.

Þetta hefur gengið alveg fáránlega vel þó svo ég segi sjálf frá. Nú eru liðnar rúmar þrjár vikur og ég sakna brauðs alls ekki, eða þess að úða  í mig smákökum. Ég hef heldur ekki verið að gera tilraunir á glúteinlausum bakstri, ég bara hef haft nóg með að taka inn allar þessar upplýsingar.

Á þessum tíma hefur ég minnkað sykurinn stórlega, en það bara gerist ósjálfrátt þegar maður tekur út allt brauðmeti.

Restin er svo eitthvað sem ég tek föstum tökum eftir jól. Það er kaffið sem veldur mér mestum áhyggjunum. Ég drekk mjög mikið kaffi og sérstaklega á morgnana þannig að það verður líklega mesti hausverkurinn, en ég þakka þó bara fyrir að það er ekki á kolsvarta-listanum!

Ég mun verða mjög dugleg við að greina frá þessu ferðalagi mínu á Instagram-síðunni minni þannig að allir ættu að henda sér á follow-takkann þar.

Pin It on Pinterest