Árið 1998 var ég 22 ára. Ég var í sambúð, átti tveggja ára gamlan son og vann á leikskóla. Fyrir manneskju með góða líkamlega heilsu hljómar sú uppstilling bara nokkuð „easy“.

Mér leið samt svo undarlega. Ég var svo þung, svo ólýsanlega þreytt. Ég sofnaði í hverjum einasta kaffitíma á þéttsetinni kaffistofunni klukkan hálf tíu á morgnana. Ég gat einfaldlega ekki haldið mér vakandi. Mér leið alla daga eins og ég væri hlaup-nammi-bangsi sem væri búinn að liggja í vatni í marga klukkutíma, bara orðinn della. Eða eins og einhver hefði sprautað vægu lömunarefni í æðakerfi mitt. Ef ég hefði farið upp í Kringlu og lagst á gólfið, ég hefði sofnað. Mig dreymdi oft um að fá að sofa óáreitt í hálfan mánuð.

Einn daginn sá ég að þetta gat ekki gengið lengur. Ég var ekki með flensu, ég svaf ekki illa á nóttunni og var vel á mig komin líkamlega, fyrir utan þessi ósköp. Ég fór til læknis sem meðal annars tékkaði hvort að skjaldkirtilinn minn væri að starfa eðlilega.

Skemmst er frá því að segja að hann var svo sannarlega ekki að gera það. Hann var allt of „latur“, já bara nánast hættur að starfa. Ég starði á lækninn og skildi ekkert, enda vissi ég nánast ekki á þessum tíma að ég innihéldi þennan kirtil og hvað þá síður hversu mikilvægu hlutverki hann gegnir í líkamanum.

Helga Kristín, íþrótta- og heilsufræðingur hjá Valdeflu, tók saman stutta grein um skjaldkirtilinn sem ég ætla að deila hér að neðan. Eins og ég sagði frá hér er ég í samstarfi við Helgu Kristínu, en hún ætlar að koma mér á beinu heilsubrautina. En bara einmitt, hvað er svona merkilegt við þennan litla kirtil sem staðsettur er neðarlega framan til á hálsinum á okkur?

 

Skjaldkirtillinn er innkirtill sem stýrir mörgum þáttum í líkamsstarfssemi okkar og seytir hann hormónum sem stýra efnaskiptum, frumuvexti, próteinmyndun og mörgum öðrum flóknari þáttum sem ekki verður farið yfir hér. Skjaldkirtillinn á það til að missa taktinn í starfssemi sinni og gerist það helst ef einstaklingur glímir við tiltekin veikindi, við langvarandi álag- og streitu, vegna eiturefna í umhverfi okkar og arfgerðar okkar.

Það er helst tvennt sem gerist þegar skjaldkirtillinn heldur ekki takti sínum, annars vegar stækkar hann og veldur ofvirkni í efnaskiptum og hins vegar hægist á honum og jafnvel slokknar.

 

Ofvirkur skjaldkirtill

Ofvirkur skjaldkirtill hraðar efnaskiptum og veldur þvi að nýting næringarefna verður minni vegna aukins hraða í gegnum meltingarveginn.

Einkenni ofvirks skjaldkirtils eru mismunandi milli einstaklinga. Þegar um ofvirkni er að ræða seytir kirtillinn meira magni af hormónum út í blóðið sem veldur margs konar breytingum, bæði á líkamlegri- og andlegri líðan. Einstaklingar grennast hratt og þrátt fyrir góða matarlyst virðist ósköp lítið breyta framvindu hans. Skjaldkirtillinn getur bólgnað sem veldur bólgu á hálsi og margir þekkja einkenni líkt útstæð augu. Aukin hitamyndun, meiri sviti, niðurgangur, skjálfti og hjartsláttartruflanir auk þreytu- og úthaldsleysis ásamt kvíða og pirrings eru dæmi um einkenni sem vert er að hafa í huga. Joðskortur hefur einnig áhrif á stækkun skjaldkirtilsins og ofvirkni hans.

Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á beina orsök þess að líkaminn ræðst svo skyndilega á skjaldkirtilinn en margir þættir í umhverfi okkar geta haft áhrif á hann og því ómögulegt, enn sem komið er að vísa á eina tiltekna orsök. Við vitum þó fyrir víst að margir ólíkir þættir í innri starfssemi líkamans ásamt ytri áhrifum umhverfis hafa gífurleg áhrif á það hvernig líkaminn bregst við hvers kyns áreiti og vinnur úr því.

 

Vanvirkur skjaldkirtill

Latur eða vanvirkur skjaldkirtill er andstæða hins ofvirka. Þá hægir verulega á seyti hormóna út í kerfið okkar sem veldur því að það hægist á allri líkamsstarfssemi. Það erfitt að greina vanvirkan skjaldkirtil og raunar margir sem hafa einkenni þess án þess þó að fá greiningu. Langvinn bólga í skjaldkirtli kallast Hashimoto´s en það er sjálfsofnæmi sem veldur miklum bólgum í líkamanum auk fleirri einkenna. Til þess að finna út vanvirkni þarf fyrst að greina gildi hormóna sem kirtillinn seytir og þar á eftir stýrihormónin. Gildi hormóna geta verið innan marka og skjaldkirtillinn getur þar að auki verið sveiflukenndur, þess vegna getur verið mjög erfitt að greina og lækna þá sem dansa á línunni.

Einkenni vanvirks skjaldkirtils eru margvísleg, helst ber að nefna þyngdaraukningu og hárlos en það er oft það fyrsta fólk tekur eftir. Gríðarleg þreyta, hálfgerð lömun ef svo má segja er einnig einkennandi, ásamt „heilaþoku“, þurri og hrjúfri húð og kuldsækni. Harðlífi, uppþemba og minnkuð matarlyst til lengri tími er einnig einkennandi enda hægir á efnaskiptunum svo um munar.

Margir hafa staðið í þessum sporum, ekki vissir en vita að eitthvað er ekki að virka sem skyldi. Þeir sem fá greiningu fá lyf sem hjálpar til við að stilla kirtillinn og bæta starfssemi líkamans, en það getur tekið langan tíma. Það hefur þó farið lítið fyrir ráðleggingum um mataræði í þessu samhengi og virðist vera sem margir læknar hér á landi hafi hreinlega ekki nægilega góða þekkingu á samspili mataræðis og skjaldkirtils, sem og þeirra áhrifa sem það hefur á líkamann. Með fullri virðingu fyrir læknastéttinni okkar þá er orðið algengara að vanvirkni sé í skjaldkirtli og má það sama segja um vanvirkni og ofvirkni, að erfitt að er að greina nákvæma orsök þessarar aukningar í samfélaginu.

Það má snúa við einkennum vanvirks skjaldkirtils með réttu mataræði. Sumir hafa náð að snúa því alfarið við með því að taka út ákveðnar fæðutegundir en það er alls ekki algilt. Aðrir þurfa að taka lyf út ævina en bæta má líðan og jafnvægi skjaldkirtilsins með því að taka til í neysluvenjum. Mataræði, notkun hreinsiefna, silfurfyllingar í tönnum og fleira getur haft áhrif á virkni hans ef til langs tíma er litið og í næstu grein munum við fara betur yfir þessa þætti.

Fyrir þá sem vilja sökkva sér dýpra í hvaða hormónar og stýrihormón leika lykilhlutverk í virkni skjaldkirtilsins geta haldið áfram að lesa hér. Fleiri heimildir eru hér, hér og hér.

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir

 

Jahá. Ég hringdi beit í mömmu þarna um árið og sagði hvað læknirinn hefði sagt og það kom henni ekki á óvart, en bæði er hún sjálf með vanvirkan skjaldkirtil og það var móðuramma líka. Hjá mömmu hefur hann þó tekið rúss upp og niður, þ.e oftast orðið verið of latur en svo tók hann upp á því á tímabili að vera ofvirkur og það er ekkert betra.

Ég hef því verið á lyfjum í tuttugu ár og verð það sem eftir er. Í venjulegu árferði er hann til friðs, þegar ég tek töfluna mína hagar hann sér bara vel og er í jafnvægi. Þegar ég geng með börn fríkar hann og verður allt of latur og það tekur meira og minna alla meðgönguna að stilla hann.

Í fyrrahaust þegar ég keyrði inn í þrotið fór hann líka í algera klessu sem jók enn á örmögnunarástand mitt. Eins og ég hef verið að tala um á Instagramsíðunni minni undanfarið hef ég átt betri daga en síðustu vikur og gruna ég hann um græsku, en ég fer í stóra blóðprufu á fimmtudaginn og fæ úr því skorið.

Mér finnst þetta ótrúlega spennandi ferðalag sem ég er að hefja með Helgu Kristínu og Valdeflu. Hún hefur verið að ráðleggja mér með mataræði út frá mínum vanvirka skjaldkirtli og segi ég frá því nánar síðar í vikunni. Ég er bara rétt að átta mig á öllu saman og ætla ekki að borða fílinn í einum bita heldur leyfa mér að sigla inn í nýja lífshætti í rólegheitunum.

Þangað til þá, fylgið mér á Instagram.

 

 

 

 

 

Pin It on Pinterest