Það er eitthvað stórmerkilegt og ferlega skemmtilegt að gerast innra með mér. Kannski eru það öll vítamínin sem ég er að taka, kannski er það glúteinleysið eða sú staðreynd að sólin er að hækka á lofti. Ég held reyndar að varla sé hægt að skrifa það á neitt af ofangreindu.

Um hvað er ég að tala? Ef ég vissi það almennilega sjálf, það væri frábært. Ok. Mig langar að skipa um stíl á heimilinu mínu. Nei, kannski ekki skipta um stíl, en finn fyrir þörf til að gera töluverðar breytingar og byggja við það sem fyrir er.

Ég veit ekki hvort heimilisstíllinn minn í dag flokkast undir naumhyggju. Nei, ég held ekki, frekar mætti kalla hann einfaldan, eða látlausan. Ég hef rekið heimili í rúm tuttugu ár. Á þeim tíma hefur aldrei verið til neinn extra peningur á heimilinu, hvort sem ég hef verið í sambúð eða búið ein, til þess að hægt sé að kaupa dýr húsgöng eða hluti eða hvað þá skipta öllu út eins og margir gerðu í góðærinu. Í dag finnst mér það afar jákvætt, þó svo að á sínum tíma hefði ég verið til í að taka þátt í flippinu.

Búslóðin mín hefur því safnast að mér hægt og rólega, ég hef tekið hluti inn og hent öðrum út. Fátt í henni er mér það kært að ég ætti erfitt við að losa mig við það. Jú, ég hef reyndar sagt að fyrr myndi ég ganga um í sömu fötunum í fimm ár heldur en að losa mig við hvítu Sjöurnar mínar fjórar, eldhússtólana mína hannaða af Arne Jacobsen, en þá keypti ég mér fyrir peningana sem ég fékk í þrítugsafmælisgjöf. Ekki heldur myndi ég nokkurntíman losa mig við gömlu kommóðuna sem pabbi gerði upp handa mér, líklega 100 ára gömul kommóða úr gegnheilum viði. Annað, já alveg eins.

Ég hef semsagt staðið mig að því að hanga á Pinterest síðustu vikur og skoða Bohemian innréttuð heimili. Ó, hvað mér finnst þau falleg. Allt þetta flauel, blóm, litir, mynstur og bast – já bara þessi sjúklega miklu þægilegheit. Ég er reyndar líklega „Bohemian light“ – myndi vilja blanda þessu við minn stíl.

Nú segja líklega nokkrir spurningamerki við það sem ég er að segja svona í ljósi þess að ég hef að undanförnu talað fyrir því að vera með lítið í kringum mig og losa mig við óþarfa. Mér finnst þetta algerlega getað farið saman, enda hef ég alltaf sagt að ég sé ekki að losa mig við dót til þess eins að losa mig við það, heldur vel ég að láta það frá mér sem vekur ekki hjá mér gleði eða rímar við minn smekk.

Næst þegar ég flyt og þá sérstaklega þegar ég kemst í mitt eigið húsnæði ætla ég að færa mig nær þessu. Heimili fyrir mér er griðarstaður þar sem öllum á að líða vel, svona eins og fuglum í hreiðri. Mér finnst þessi stíll vera samnefnari fyrir það, afslappaður og kósý.


Pin It on Pinterest