Ég á mér mínar uppáhalds bloggsíður og ein þeirra hetir Bjargey&co. Eigandi hennar, Bjargey Ingólfsdóttir, starfar sem fararstjóri og námskeiðahaldari hjá Gaman Ferðum auk þess að vera leiðbeinandi á námskeiðum hjá Heilsuborg.

Bjargey er mjög dugleg að uppfæra heimasíðuna og mætti ég taka mér hana til fyrirmyndar! Þar er hún með fjölbreytt efni, fræðandi, fallegt og skemmtilegt. Bjargey stendur líka fyrir svo sjúklega spennandi námskeiðum og ferðum sem ég þrái að komast í einn daginn!

Um daginn var ég að lesa færslu á síðunni hennar eins og svo oft áður. Yfirskriftin var „Súkkulaði og hugleiðsla“ eitthvað sem er örugglega jafn dásamlegt og það hljómar. Í þeirri færslu segir hún einnig frá bókum sem hafa haft áhrif á hana og þar á meðal var bókin mín, 261 dagur.

Ekki er svo langt síðan annar eftirlætisbloggari hjá mér talaði um bókina mína, en það var hún Svava sem heldur úti síðunni Ljúfmeti og lekkerheit. Mér verður alltaf svo hlýtt í hjartanu við að lesa svo falleg orð um bókina mína því mitt eina markmið með henni var einmitt að hafa áhrif til góðs og vekja fólk til umhugsunar.

Gaman er að segja frá því að 261 dagur er að fara í ferðalag í næstu viku. Ekki með mér, heldur stelpunum mínum hjá Björt bókaútgáfu, alla leið á bókamessu í Frankfurt í Þýskalandi. Þar verða þær með kynningu á henni í þeirri von að eitthvað erlent forlag vilji stökkva á hana, þýða og gefa út. Væri það ekki alveg frábært? Það er þó alls ekkert og engan vegin neitt víst í þessum efnum, bókabransinn er alveg óútreiknanlegur og það sem gengur vel í landann hér þarf alls ekki að gera það annarsstaðar. En, ég er samt voða ánægð að við séum að ná þessari fyrstu höfn í þessu ferðalagi sem við höfum ekki hugmynd hvert ber okkur.

Ég vil hvetja ykkur til að fylgjast með mér á Instagram þar sem ég reyni að vera dugleg að greina frá lífi okkar hérna fyrir austan.  

Pin It on Pinterest