Ég las svo góðan pistil á Facebook-síðunni RIE/Respectful/Mindful Parenting á Íslandi, en hún heldur utan um hóp foreldra sem stunda, hafa áhuga á eða vilja fræðast meira um Respectful Parenting og RIE nálgun ungbarnasérfræðingsins Mögdu Gerber.

RIE stendur fyrir „Resources For Infant Educarers“ en er oft þekkt sem Respectful Parenting eða Mindful Parenting en Kristín Maríella þýðir hugmyndafræðina á íslensku sem „virðingarríkt tengslauppeldi“ eða „virðing og meðvitund í uppeldi“.

Það er hún Kristín Maríella sem hefur fært okkur hugmyndafræðina til Íslands, hún heldur úti heimasíðunni respectfulmom.com. Hún segir markmið sitt með henni vera að hjálpa foreldrum að byggja upp heilbrigt samband við börnin sín, samband sem bæði foreldrar og börn geta notið af einlægni, samband sem einkennist af virðingu, trausti og tengslum.

Sjálf hef ég mikinn áhuga á þessum fræðum og held ég hafi tileinkað mér stóran hluta þeirra við uppeldi minna barna án þess að hafa hugmynd um það. Ég hef ekki „farið alla leið“ í að lifa eftir hugmyndafræðinni heldur bara nýtt mér það sem mér þykir passa inn í mitt umhverfi en Kristín hvetur foreldra einmitt til þess að tileinka sér bara það sem það trúir á og tengir sjálft við. Téð grein nefnist; Dagleg tengslamyndun er líka mikilvæg fyrir eldri börn. Ég fékk leyfi Kristínar Maríellu til þess að nota hana í þessa bloggfærslu. Ég mæli með að þið skoðið síðurnar hennar og drekkið í ykkur þennan mikilvæga fróðleik.

„Sterk tenging og gott samband er grunnurinn að öllu og það breytist ekki þó börnin okkar verði eldri. Það verður hins vegar oft aðeins flóknara að halda góðri tengingu og ná til þeirra þegar þau við foreldrarnir erum ekki lengur upphafið og endirinn á þeirra heimi eins og það er oftast fyrstu árin.

Það getur þess vegna litið aðeins öðruvísi út að búa til tenglsastundir með börnunum okkar þegar þau eldast þegar það dugar kannski ekki til að setjast niður með uppáhalds púslið eða lesa fyrir þau bók.

Sterk tengsl eru einfaldlega jafn mikivæg þörf fyrir börnin okkar (og okkur öll) og matur, svefn, hreinlæti og annað sem við forgangsröðum oft því miður á undan sambandinu. Mér finnst við ættum öll í raun að plana alveg jafn mikið fyrir því að tengja við börnin okkar yfir daginn eins og við plönum matseðil vikunnar.“

Hér að neðan er listi sem Kristín Maríella hefur tekið saman, en um er að ræða nokkrar leiðir til þess að fylla á tengslatankinn með eldri börnunum okkar yfir daginn, en öll þessi atriði eiga líka við um yngri börn.Vakna fyrr á morgnanna og koma inn 5 mínútna knúsi, kúri, hangsi uppí rúmi

  1. Vakna fyrr á morgnanna og koma inn fimm mínútna knúsi, kúri, hangsi uppí rúmi.
  2. Setjast niður við morgunverðarborðið og borða saman morgunverð.
  3. Kíkja á þau inní herbergjunum sínum á morgnanna þegar þau eru að gera sig tilbúin fyrir skólann.
  4. Reyna að hægja á morgunrútínunni svo hægt sé að eiga smá spjall, horfa í augun, brosa af einlægni til þeirra fyrir skóla.
  5. Snerta fætur eða hendur af og til í bílnum á leiðinni í skólann.
  6. Sækja þau í skólann og leyfa þeim að leiða samtalið. Engar beinar spurningar, bara hlusta og segja þeim hversu mikið við söknuðum þeirra á meðan þau voru í skólanum.
  7. Reyna að eiga ótrufluðum einkatíma á hvejrum degi með hverju barni fyrir sig eftir skóla. Þetta getur verið eitthvað mjög einfalt eins og t.d. bara að setjast við hliðina á þeim á meðan þau eru gera heimalærdóminn og fylgjast með af athygli, stíga inn í þeirra heim eða gera með þeim það sem þeim finnst skemmtilegt, reyna að gefa 100% athygli og einlægan áhuga.
  8. Borða saman kvöldmat.
  9. Dansa, syngja, gantast og hlæja saman. Smá gannislagur (svo lengi sem allir eru í stuði fyrir það, muna að hætta um leið og einvher segir stopp eða nei), fíflalæti og nokkur góð hlátursköst fylla yfirleitt vel uppí tengslatankinn og ekki nóg með það heldur getur líka hjálpað til við að losa um uppsafnaða spennu sem oft safnast eftir daginn.
  10. Liggja í rúminu með hverju barni fyrir sig í 5-10 mín. Hlusta, leyfa þeim að leiða samtalið/samveruna, reyna að vera bara hljóður og einbeita sér að því að hlusta og dæma ekki.

Þessi pistill hennar Kristínar Maríellu er mjög þörf áminning fyrir mig og líklega flesta þá sem eru með breitt aldursbil milli barna. Ósjálfrátt verður fókusinn meiri á litlu krílin sem þurfa meiri aðstoð meðan þau eldri redda sér af stað á morgnana, koma sér til og frá skóla, eru önnum kafin í íþróttum og tónstundum fram að kvöldmat.

Ég var einmitt að ræða akkúrat þessi mál við góða vinkonu mína í vikubyrjun og það að ég upplifði að ég væri að missa af stóru krökkunum í öllu annríki dagsins.

Ég sé að þessum lista að ég á mörg ónýtt tækifæri í morgunsárið sem vel væri hægt að nýta betur. Í vetur er ég bara með tvö yngri börnin mín á heimilinu en sá elsti er í háskólanámi í Reykjavík og stelpan mín í heimavist á sínu fyrsta ári í menntaskóla. Við erum því bara þrjú í heimili, ég, þrettán ára unglingurinn og fjögurra ára örverpið. Það sem meira er, þeir eru bara hjá mér til hálfs eins og dæmigerð skilnaðarbörn og þá eru þessar tengslamyndunarstundir enn mikilvægari en ella.

Unglingurinn er afar upptekinn í sinni íþróttaiðkun og kemur oft ekki heim fyrr en rétt undir kvöldmat, en hann er ég einmitt mjög stíf á að halda hátíðlegan, en þar gefst gullið tækifæri til þess að renna yfir daginn, hvað gekk vel og hvað ekki. Við erum nokkuð dugleg að fíflast, sérstaklega þegar menntskælingurinn bætist í hópinn. Við erum svo að horfa saman á þáttaröð og blessunarlega erum við bara á seríu níu af fjórtán! Ég hef svo alltaf reynt að leggjast aðeins inn hjá þeim og loka deginum fyrir svefninn.

Svo er það blessaða fjölskylduógnin: síminn. Þá er ég svo sannarlega ekki síður að benda á sjálfa mig en unga fólkið mitt, en það væri svo sannarlega hægt að nýta þann tíma sem þar fer í eitthvað allt annað og uppbyggilegra. Það er eitthvað sem fjölskyldur þurfa að hugsa heildstætt, hvernig þær vilja haga þeim málum innanhúss.

Vinkona mín, sem ég ræddi þessi mál við á dögunum, á tvo unglinga og smábarn. Hún hefur alltaf verið rosalega dugleg að passa upp á að gera eitthvað með börnunum í sitthvoru lagi, þó svo það sé bara eitthvað einfalt eins og ísbíltúr. Hún segir að það skipti þær mæðgur öllu máli upp á að halda tengingunni góðri. Samband foreldra og barna er ekki ólíkt parasambandi og þau ljóstillífa sig svo sannarlega ekki.

Með fjögurra ára strákinn finnst mér rosalega gott að sækja hann gangandi í leikskólann, spjalla á leiðinni og viðra okkur fyrir seinnipartinn. Við erum mikið ein heima og bröllum margt saman, svo mikið að oft finnst mér nóg um mínar eigin vinsældir. En, ég veit að þegar ég lít til baka verða þær stundir sem ég hékk í Playmo og leiraði þær dýrmætustu af öllum!

Ég hef svo lesið mikið fyrir þau öll fjögur og langt frameftir aldri. Lestur er bestur – bæði bætir hann orðaforða, virkjar ímyndunaraflið og vekur upp spurningar og umræður.

Eitt af stóru markmiðum ársins 2019 hjá mér verður að rækta garðinn minn enn frekar og skapa góðar minningar. Hvernig er málunum háttað á ykkar heimili?

Endilega fylgið mér á Instagram, þar er ég svaka dugleg að ræða heimsmálin öll.

Pin It on Pinterest