Margs er að minnast þegar ég horfi yfir farinn veg ársins 2018. Rifjum upp brot af því besta og kannski versta;

 

Almennt orkuleysi

Fyrstu dagar nýs árs í vinnu einkenndust ekki aðeins af því að finna taktinn eftir jólahátíðina, heldur var ég að koma til baka úr veikindafríi þar sem mér hafði verið kippt út vegna örmögnunar. Ég greindi frá þeirri upplifun minni hér á síðunni minni í haust og þeirri fullvissu minni að ég hafi farið allt of snemma af stað eftir þau ósköp og hef ég því verið að glíma við orkuleysi og allskonar aukaverkanir allt þetta ár.

 

261 dagur

Vegna veikinda hætti ég við að gefa bókina mína, 261 dagur, út fyrir síðustu jól en tók ákvörðun um að setja allt á fullt aftur í ársbyrjun. Handritið var tilbúið og beið aðeins eftir því að ég næði heilsu til þess að fylgja því eftir. Það sem gerðist í millitíðinni var að litla forlagið sem ég hafði unnið með hérna fyrir austan var að draga saman seglin og við sammældumst um að best væri fyrir alla að ég leitaði annað með það. Það var svo í febrúar sem ég hafði samband við Björt bókaforlag sem beit á agnið og vildi gefa bókina út. Ekki nóg með það, heldur vildu skvísurnar þar koma henna út í maí.

Bókinni var vel tekið, hún fékk mikla umfjöllun í fjölmiðlum og það sem skipti mig mestu máli, ég fékk tugi skilaboða frá fólki sem hafði reynst vel að lesa hana. Áfanganum var fagnað með ógleymanlegu útgáfuteiti á Sólon um miðjan maí. Eftir áramót hefjum við vinnu við að koma henni á erlendan markað, en vitum að sjálfsögðu ekki hvernig það á eftir að ganga, en það er svo sannarlega eitt af markmiðum ársins 2019.

 

Sjö sjónvarpsþættir um skilnaði 

Í mars datt mér svo í hug að hafa samband við Saga Film og kynna hugmynd sem var að veltast innra með mér. Mig langaði til þess að gera faglega og fróðlega þætti um skilnaði, þó ekki tengda bókinni minni á nokkurn hátt. Mig langaði til þess að varpa ljósi á það flókna ferli sem fer af stað við skilnað eða sambandsslit.

Lífið er stundum svo óútreiknanlegt, en nokkrum dögum áður hafði Kolbrún Pálína Helgadóttir sent nákvæmlega sömu hugmynd inn á borð til þeirra. Úr varð að við Kolbrúnu Pálína munum vinna verkefnið saman, en sjö þættir um skilnaði verða sýndir á Sjónvarpi Símans í ágúst 2019.

Það er stundum ekki flóknara en svo að láta drauma sína rætast. Stærsta skrefið er bara að láta vaða. Taka um símann og hafa samband. Ég er í seinni tíð orðin mjög frökk við akkúrat þetta og það hefur skilað mér allskonar skemmtilegum tækifærum. Ég skora á ykkur að láta vaða á komandi ári!

 

Vestfjarðadvölin

Ég fór í skemmtilegt ferðalag innanlands í sumar þegar ég lét loksins verða af því að fara vestur á firði. Ég hafði aðeins komið þangað þegar ég var barn og mundi ekki nokkurn skapaðan hlut eftir því. Málunum var þannig háttað að góð vinkona mín, Elísabet Reynisdóttir, hafði sumarsetu á Flateyri þar sem hún var að kokka á veitingastaðnum Vagninum. Ég var barnlaus í nokkuð langan tíma í sumar og ákvað bara að pakka í bílinn og bruna til hennar og gera blaðamennskuna út að vestan.

Úr varð alveg dásamlega magnað og ógleymanlegt sumarævintýri sem við vinkonurnar munum eiga með okkur það sem eftir er. Þrátt fyrir að vera báðar í vinnu þær tvær vikur sem ég dvaldi hjá henni náðum við að keyra mikið um og skoða fjórðunginn, en það er alveg stórmerkileg upplifun að ferðast á sínum fullorðinsárum á þeim svæðum landsins sem allir eru glænýjir fyrir manni. Ég mæli með ferð vestur og ef þið komið á Flateyri þá er Vagninn algert skyndustopp.

 

Börn á öllum skólastigum

Svo eru það blessuð börnin sem öll hafa tekist á við nýjar áskoranir á árinu en í haust var sú skemmtilega staða innan heimilisins að ég átti afkvæmi á öllum skólastigum; eitt barn í leikskóla, eitt barn í grunnskóla, eitt barn í menntaskóla og eitt barn í háskóla. Sú staða verður einnig á nýju skólaári í haust þegar sá yngsti klárar sitt síðasta á í leikskólanum. Já, stundum finnst mér tíminn vera að flýta sér óþarflega mikið.

 

Vertu velkomið 2019

Glænýtt og spennadi ár gengur í garð eftir aðeins örfáar klukkustundir, en það er uppfullt af skemmtilegum áformum og markmiðum, sem ég einmitt skrifaði skrifaði einmitt um fyrir stuttu.

Ég er meira en tilbúin að taka fagnandi á móti nýju ári og nýjum ævintýrum, en 2018 var í senn annasamt, erfitt og skemmtilegt. Ég segi stundum að það hafi verið mín mesta gæfa að lenda í þroti en við það fór ég í gegnum ferli hjá VIRK, starfsendurhæfingu, sem var alveg magnað. Í gegnum VIRK var mér úthlutað frábærum sálfræðing sem ég var hjá frá áramótum og fram á vor. Þar fékk ég í hendurnar allskonar verkfæri og lærði alveg helling, þar á meðal um mikilvægi sjálfsumhyggju, sem er besti lærdómur sem ég hef tekið inn. Ég hef meðvitað reynt að vanda mig mjög í því að hugsa um og hlú að sjálfri mér í ár og mun svo sannarlega halda því áfram um ókomna tíð.

Kæru fylgendur. Ég þakka samfylgdina á árinu og hlakka til að vera með ykkur á því næsta!

 

Ps. Kannski er ég að gleyma aðal-dæmi ársins. Ég eignaðist minn eigin eltihrelli. Manneskju sem stofnaði tvo Facebook aðganga mér til höfuðs við í vor og notaði þá til þess að gera lítt gáfulegar athugasemdir við flest þau viðtöl sem ég hef verið í síðan. Hin uppátækjasama stal ljósmynd frá hjartalækni á Englandi í prófílinn sinn. Jæja, það er ekki eftir sem búið er; eltihrellir, tékk!

Pin It on Pinterest