Undanfarin ár hef ég verið að daðra við markmiðasetningu. Já, ég segi „daðra við“, einfaldlega af því að ég hef mikinn áhuga á hugmyndafræðinni en hef aldrei sett mér markmið af fullri alvöru, sem ég hef unnið að yfir árið.

Árið sem er að renna sitt skeið var afar viðburðaríkt í mínu lífi. Það næsta er þegar orðið skipað allskonar skemmtilegum viðfangsefnum sem ég hlakka til að takast á við. Ég finn það því nú sem aldrei fyrr að ég þarf einhver tól til þess að halda utan um allt sem ég ætla mér að gera. Ég tók því ákvörðun að kaupa mér dagbók frá MUNUM, sem einmitt er sett upp með það í huga að auðvelda markmiðasetningu og eftirfylgni þeirra.

Ég hef líka gaman af því að búa til nýjar hefðir og ákvað því að slá tvær flugur í einu höggi á dögunum. Ég gerði vinkonu minni, Maríu Hraunfjörð, tilboð sem hún hreinlega gat ekki hafnað, en það hljóðaði upp á að við héldum markmiðafund fyrir árið 2019 í gærkvöldi. María býr í Reykjavík og er að klára mastersnám í sálfræði í vor. Það skilja okkur því 700 kílómetrar að en við létum það ekki stoppa okkur heldur tókum Skype-fund.

Við ákváðum að þetta yrði árlegt hjá okkur og stofnuðum því hið merka tveggja manna Markmiðafélag formlega í gærkvöldi. Við vorum að sjálfsögðu báðar búnar að fjárfesta í MUNUM dagbók og rauðvíni. María var meira að segja svo grand á því að hún bauð sjálfri sér upp á osta með víninu.

Áður en við lögðum af stað var ég búin að biðja Erlu Björnsdóttur, aðra af tveimur kjarnakonunum sem standa að MUNUM dagbókinni, að gefa mér nokkra punka um markmiðasetningu sem ég ætla að deila með ykkur hér;

 

Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem setur sér skýr markmið nær meiri árangri í lífinu. Þeir sem ná langt á sínu sviði eru sjaldnast komnir þangað fyrir einskæra tilviljun, oftast liggur þrotlaus vinna og mjög skýr markmiðasetning að baki. Ef við höfum skýr markmið erum við búin að marka okkur stefnu sem við vinnum eftir, ef við höfum engin markmið er hætt við því að við villumst af leið og vitum ef til villi ekki hvert okkur langar að stefna.

 

Mikilvægt að hafa markmiðin skrifleg
Þegar við skrifum markmiðin okkar niður er líklegra að við náum þeim. Þau verða raunverulegri fyrir okkur og það verður einhver mögnuð tenging sem á sér stað þegar við skrifum markmið, hugsanir og drauma niður á blað. Það er ekki sama tenging sem á sér stað þegar við skrifum eitthvað inní tölvuna. Það sem við handskrifum festist betur í minni okkar og nær betur til okkar.

 

„Bucket listi“ og „fimm ára bréf“
Það skiptir máli að gefa sér góðan tíma. Hugsa um hvað það er sem maður virkilega vill gera í lífinu, áföngum sem menn vilja ná og hluti sem mann langar að framkvæma. Það getur til dæmis verið góð leið að byrja að skrifa svona Bucket lista” sem inniheldur 100 atriði sem manni langar að upplifa og framkvæma yfir ævina. Í amstri dagsins gefum við okkur sjaldan rými til þess að hugsa á þennan hátt og margir eru sífellt að fresta draumum sínum þar til hið fullkomna augnablik kemur, en það kemur ekki endilega og þess vegna þurfum við bara að búa það til. Listinn er svo góður leiðarvísir sem hægt er að vinna áfram með, forgangsraða og setja markmiðin upp í rétt skref. 

Við erum oft svo upptekin af öllum mögulegum hindrunum sem gæti orðið á vegi okkar og þorum þess vegna kannski ekki að láta okkur dreyma stórt. Það er eitt verkefni sem mér finnst mjög skemmtilegt og gagnlegt, en það er að skrifa sjálfum sér bréf þar sem maður lýsir sjálfum sér eftir fimm ár ef að allt gengur upp og engar hindranir eru í veginum. Semsagt í raun er maður að skrifa bréf þar sem maður lýsir sínu draumasjálfi eftir fimm ár. Hvar erum við stödd í heiminum? Við hvað störfum við? Hvernig er fjölskyldumynstrið? Félagsleg tengsl? Hvernig karakter erum við þá? Hvernig er dagleg rútína? Hver eru gildin okkar? Því næakvæmari og fleiri smáatriði sem maður kemur inn í þetta bréf, því betra. Algert lykilatriði við skrifin er að sleppa  öllum hömlum, gleyma öllum hindrunum og leyfa sér að dreyma stórt. Raunverulega eigum við að loka augnunm og sjá okkur sjálf fyrir okkur eins og við lýsum í bréfinu; If you can dream it, you can do it! Það er alveg magnað hvernig lögmálið Law of Attraction virkar í svona, en bréfið fer ósjálfrátt að draga mann til sín og oftar en ekki er maður komin langleiðpina á áfangastað fimm árum seinna. Ég mæli svo sannarlega með þessu!

 

Markmið þurfa að vera sértæk og nákvæm
Ef markmið okkar eru sertæk og nákvæm er miklu auðveldara að framkvæma þau og mæla árangur. Til dæmis er markmiðið  „Ég ætla að hugsa vel um heilsuna mína“ mjög óljóst markmið sem erfitt getur verið að framfylgja og árangursmæla. Hins vegar ef við tökum markmiðið lengra og gerum það mælanlegt og nákvæmt er mun auðveldara að fylgja því eftir. Til dæmis mætti umorða þetta markmið og segja; „Ég ætla að hugsa betur um heilsuna mína með því að hreyfa mig amk þrisvar í viku, taka vítamín alla daga og borða fisk 2 í viku.” Þarna erum við komin með mun skýrara markmið sem auðveldara er að fylgja eftir.

 

Getum ekki gert allt í einu
Vert er að varast það að setja sér of mörg markmið í einu. Það sem er mikilvægast í markmiðasetningu er að hafa markmiðin skýr, mælanleg og raunhæf. Ég held að mörg mistök liggji einmitt í því að fólk setur sér ef til vill mörg óljós markmið sem oft eru mjög óraunhæf, það á algerlega að breyta um lífsstíl á núll einni og svo springa því miður margir um miðjan janúar. Þess vegna er svo mikilvægt að fylgja markvissum skrefum í þessu og vera duglegur að endurskoða og endurskilgreina markmiðin sín ef þau eru ekki að ganga upp eins og maður sá fyrir.

Í MUNUM dagbókinni okkar leggjum við til dæmis til að fólk setji sér þrjú yfir markmið fyrir árið sem síðan eru tekin niður í smærri undirmarkmið sem eru gerð mælanleg til þess að auka líkur á árangri. Svo er fólk einnig hvatt til að seta sér sérstök markmið fyrir hvern mánuð, hverja viku og hvern dag.

 

Mikilvægt að fylgjast með árangri og endurskoða markmið
Ein megin ástæðan þess að mörg markmið renna í sandinn er líklega sú að markmiðin eru of víðtæk og jafnvel óraunhæf. Einnig held ég að hluti af ástæðunni liggji í því að fólk er ekki að endurskoða markmiðin sín reglubundið og fylgjast með árangri. Markmiðin eru oft sett um áramót og ekki endurskoðun fyrr en áramótin þar á eftir og því líklega margir sem setja sér sömu heitin ár eftir ár. Ég myndi því leggja það til að vera með endurskoðun á sínum markmiðum að minnsta kosti ársfjórðungslega og þá er gott að fara yfir spurningarnar sem eru aftast í MUNUM dagbókinni. 

 

Ok. Þá vorum við vinkonurnar fullar af fróðleik og til í slaginn. Við skiptum fundinum okkar í fjóra parta.

Í fyrsta hluta settum við okkur þrjú yfirmarkmið yfir árið þar sem hvor um sig valdi þá þrjá flokka til það leggja mesta áherslu á yfir árið. Mínir flokkar eru; Fjölskylda&vinir, líkamleg heilsa og atvinna. Í grófum dráttum snúast mín markmið um þetta;

Auðvitað mun ég líka hugsa um vinnuna mína, áhugamál, fjármál, andlega heilsu og allt hitt, en þessir þrír flokkar verða í forgangi hjá mér á nýju ári og ég hef bútað markmiðin innan þeirra í viðráðanlega og mælanlega hluta.

Eins og Erla segir í textanum hér að ofan mælir hún með því að taka stöðufund fjórum sinnum á ári þar sem staða markmiðanna er metin. Það fannst okkur Maríu merkilegasti partur gærkvöldsins, en við bókuðum fjóra ársfjórðungsfundi í glænýju bækurnar okkar! Í minni stendur þann 30. mars 2019: Stöðufundur 1. ársfjórðungs. Keppnis! Ég sverða, mér leið pínu eins og ég væri að vinna hjá verðbréfafyrirtæki!

 

Í öðrum hluta gerðum við upp árið 2018 með því að svara spurningum sem eru aftast í MUNUM dagbókinni, en það eru spurningar á borð við;

  • Hvaða þrjú orð lýsa árinu sem er að líða best?
  • Hvað kom þér mest á óvart á árinu 2018?
  • Hver var þín stærsta áskorun árið 2018?
  • Hvað getur þú gert öðruvísi á næsta ári til þess að ná að fylgja eftir þeim markmiðum sem ekki náðust á árinu 2018?

 

Í þriðja hluta settum við saman lista með tíu atriðum sem við vinkonurnar ætlum að gera saman til þess að skapa minningar á árinu 2019, annað hvort tvær einar eða með öðrum vinum eða fjölskyldu. Eins og við vitum öll eru góðar minningar dýrmætara en allt veraldlegt, þær styrkja böndin og maður ber þær innra með sér út lífið. Dæmi um það sem við ætlum að gera er;

  • Bingó í Vinabæ
  • Fara í náttúrulaug
  • Minningasöfunarferð með börnunum
  • Halda árshátíð Markmiðafélagsins
  • Gera eitthvað eitt sem hvorug hefur gert áður

 

Í fjórða og síðasta hluta fundarins tókum við saman árið með okkar hætti þar sem við skrifuðum niður eftirminnilega og fyndna atburði sem hafa gerst í lífi okkar vinkvennanna á árinu með öllum þeim einkahúmorsfrösum sem þeir höfðu í för með sér – já svona okkar eigið áramótaskop.

 

Allavega. Ég mæli með því að þið setjist niður og allavega íhugið hvernig þið viljið hafa næsta ár í ykkar lífi. Í MUNUM bókinni er mikil áhersla lögð á að deila markmiðum sínum með öðrum og þess vegna er það snilldarhugmynd að taka slíkan fund með góðum vinum eða maka. Einnig að verðlauna sig þegar vel gengur. Það ætlum við María svo sannarlega að gera og höfum heitið á okkur utanlandsferð á árinu 2020 ef við náum öllum okkar markmiðum.

Frá þessu og miklu fleiru greini ég á Instagramsíðunni minni. Allir þangað. 

 

Pin It on Pinterest