Ég er að komast niður á jörðina eftir föstudaginn. Alveg. Samt ekki. Ég er svo endalaust þakklát og meyr. Svo endalaust.

Ég var búin að plana þetta gleði- uppskeru- útgáfuhóf með forlaginu mínu. Upplestur, makkarónur og freyðivín. Fólk að fagna stórum áfanga.

Það var þó einn skuggi á deginum, besta vinkona mín og „my person“ átti ekki heimangengt. Mér fannst það mjög leiðinlegt en skildi aðstæður. Ég kvaddi hana í síma á miðvikudaginn áður en ég hélt suður.

Bara hvað haldiði? Hún var svo fyrsta manneskja sem ég mætti á Sólon þegar ég kom í hús seinnipartinn. Var búin að plata mig í mánuð og var meira að segja komin suður á undan mér! Ég hef sjaldan verið eins glöð. Ekki nóg með þetta, heldur var hún búin að plana tónlistaratriði, en hún söng nokkur af lögunum okkar í gegnum tíðina og sum þeirra með annarri vinkonu okkar.

Ég las svo úr fjórum köflum úr bókinni, einn sjálf, tvö samtöl með tveimur persónum og svo lék sonur minn einleik sem hann gerði upp úr einum kaflanum, en þá var ekki þurrt auga í salnum. Þetta var ógleymanlegt kvöld, með öllu. Ég er svo þakklát öllu og öllum.

Ég er mikið spurð að því hvernig bóksala fari af stað. Ég hef hreinlega ekki hugmynd, enda er það bara einhver smá auka bókus ofan á þetta allt saman, enda hafa rithöfundar sáralítið út úr sínum störfum þegar öllu er á botninn hvolft. Nei, ég semsagt veit ekki hvernig þetta fer af stað, en ég veit að það sem ég hef fengið að heyra af viðbrögðum við lestri er alveg magnað. Ég fékk þetta bréf í kvöld frá karlmanni og fékk ég leyfi hans til þess að birta það nafnlaust hér. Það segir allt sem segja þarf; byltingin er hafin!

 

Sæl Kristborg

Mig langar að þakka þér fyrir bókina þína. Ég náði mér í eintak í gærkvöldi og spændi hana í mig á nó tæm. Ég er í miðju sorgarferli og það er ómetanlegt að fá að sjá svona skýrt inn í hausinn á annarri manneskju sem hefur gengið þessa sömu götu.

Þú ert örugglega búin að fá skrilljón svona skilaboð og átt eftir að fá annað eins, hið minnsta. Ég gæti talið upp endalausar allskonar speglanir sem maður sér í frásögninni, en ég ætla að hlífa þér við því. Mig langar bara að skila þér þakklæti, hrósa þér fyrir hugrekkið og hvetja þig áfram í hverju því sem þú gerir í framtíðinni.

Hjartasorg hefur ekki fengið neina byltingu, fyrr en kannski núna. Maður læðist með veggjum berandi þetta helvítis farg í stokkbólgnum hjartahólfunum. Það er fullt starf að reyna að toga kærleikann inn í lífið aftur og þagga niður í eitraða samtalinu sem maður á við hologrammið af sinni heittelskuðu í hausnum.

Takk. Eigðu fallega daga.

P.s. Endilega bætið mér við á Instagram; boel76. Þar er mikið at bak við tjöldin þessa dagana. 

 

 

 

 

Pin It on Pinterest