Það var einhverntíman um daginn sem ég var að suða á Instastory. Suðaði svo mikið að það var nánast væl. Suðaði og suðaði um að mataræðið mitt væri í rugli, sama hversu oft ég reyndi að taka mig á, allt færi fljótlega í sama farið.

Nei, nei. Ég borða alls ekki bara rusl, langt því frá og eiginlega bara alls ekki. En, ég borða heldur ekki nógu skynsamlega. Ég er heldur alls ekki feit, en því síður mjó. Bara passleg. Það er heldur ekki holdarfarið sem málið snýst um að mínu mati, bara mitt heilbrigði.

 

Ég hef prófað þetta allt

Halló, ég heiti Kristborg Bóel og ég er kolvetnafíkill. Ég elska kolvetni og væri alveg sama þó svo að varla annað færi inn fyrir mínar varir allan ársins hring. Ég get borðað sex ristaðar brauðsneiðar án þess að depla öðru auganu og nánast tel niður dagana í næsta barnaafmæli þar sem ég vona að köld brauðterta verði á vegi mínum. Ég get hins vegar vel átt sælgæti upp í skáp í margar vikur án þess svo mikið að líta í áttina að honum.

Ég hef prófað allskonar. Hreint mataræði samkvæmt plani, ketó, LKL, safaföstu, hlutaföstu og bara nefndu það. Ég byrja þá líka af miklum krafti með lof um fögur fyrirheit sem endast alveg fram að næstu hindrum sem gætu verið jól, flensa, extra álag eða utanlandsferð, bara eitthvað sem hristir upp í hversdeginum. Þá fell ég. Ég hrasa ekki og stend upp aftur, heldur veltist í forarpollinum þess viss um að allt sé nú ónýtt og ég skuli bara halda áfram að troða í mig allskonar.

Ég er líka með allt of hátt kólesteról (ættgengur fjandi) og þrek á við þorsk á þurru landi. Ég hef oft hugsað um þá sorglegu staðreynd að flestir þurfa eitthvað alvarlegt „wake-up call” til þess að taka heilsuna sína í gegn. Hún er einfaldlega það dýrmætasta sem við eigum, án hennar erum við ekki neitt. Þarf ég virkilega að standa við dauðans dyr til þess að hætta að misbjóða líkama mínum með drasli?

Mig langar ekki lengur að vera svona slenuð og þreytt alla daga. Mig langar að vera létt á fæti og geta hlaupið á eftir barninu mínu án þess að líða eins og konu sem hefur reykt Camel filterslausan frá tólf ára aldri. Ég hef engan áhuga á fleiri kúrum eða skyndilausnum sem virka hvort sem er ekki rassgat. Mig langar bara til þess að fara að haga mér og borða það sem gefur líkama mínum góða orku til þess að takast á við lífið. Dramatískt? Já, kannski smá, en þið skiljið hvað ég er að meina.

 

Samstarf við Valdeflu

Nú væri algerlega frábært að ég færi að koma mér að efninu. Semsagt, þar sem ég suðaði eins og hunangsfluga, hafði Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, eigandi fyrirtækisins Valdeflu samband við mig og bauðst til þess að gera sitt besta til að hjálpa mér út úr þessum vítahring og úr varð samstarf okkar á milli.

Helga Kristín er menntaður íþrótta- og heilsufræðingur og með masterspróf í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Hún segir megintilgang Valdeflu vera að ýta undir heilsueflingu, mæta þörfum þeirra sem þurfa á aðhaldi og hvatningu að halda.

Bingó. Aðhald og hvatning já takk. Helga Kristín var á ferð um Austurlandið um daginn, þar sem hún meðal annars vann með Seyðisfjarðarbæ, í tengslum við verkefnið „heilsueflandi samfélag”. Hún kom svo í síðdegiskaffi til mín þar sem við fórum yfir stöðuna og teiknuðum upp framhaldið.

Við fórum yfir mataræðið mitt og hvernig ég vil sjá það. Ég greindi frá mínum helstu veikleikum í mataræði, sem eru klárlega kolvetnin, auk þess sem ég borða allt of mikið miðað við hversu lítið ég hreyfi mig. Ég sagði henni að ég væri með vanvirkan skjaldkirtil og hefði verið á lyfjum við því í rúm 20 ár. Hún sagði að skjaldkirtilsvesenið skýrði ýmislegt og spurði hvort enginn læknir hefði allan þennan tíma sagt mér að glútein og vanvirkur skjaldkirtill færu alls ekki saman. Ég sagði svo bara alls ekki vera, að sjaldan hefði verið minnst á mataræði í tengslum við þennan kvilla minn. Við ræddum einnig um streitu, áreiti af samfélagsmiðlum, vítamíninntöku, svefn og allskonar fleira.

 

Ævintýrið er formlega hafið

Jæja. Ég ákvað að taka síðustu helgina í gamla farinu með trompi. Já, trompi, segi ég og skrifa. Ég baðaði mig upp hveiti og sykri, bara eins og ég myndi aldrei nokkru sinni fá að borða aftur. Ég kom svo bullandi bjúguð undan helginni og leið pínu eins og ég hefði kosið að fara blindfull í áfengismeðferð.

Ég er aðeins búin með nokkra daga af þessari vegferð og fæ matarplan frá Helgu Kristínu í dag. Hún ætlar að byggja það upp á hlutaföstu (16/8) þar sem ég fasta sextán tíma á sólarhring og borða á átta klukkustunda tímabili, frá klukkan 11:00 til 19:00. Áhersla verður á þrjár næringarríkar máltíðir á dag þar sem við tökum út allt glútein og þar af leiðandi fer megnið af þeim sykri sem ég hef verið að borða í leiðinni. Semsagt, engar öfgar og ekki mikið um boð og bönn, nema þá jú glútein.

Spurningarnar eru óteljandi og ég er svolítið eins og rassálfarnir í Ronju Ræningjadóttur sem í sífellu spurðu  „af hverju, af hverju, af hverju?” (já og þá eins og fjögurra ára sonur minn).

Ég mun fjalla frekar um glúteinlaust líf hér, hvað það merkir að vera með vanvirkan skjaldkirtil og hvað ber að forðast og borða í þeim aðstæðum. Einnig mun ég setja færslu um þau vítamin sem Helga Kristín ráðlagði mér að taka, en mörgum þykir vítamínfrumskógurinn flókinn og það skil ég vel.

Ævintýrið er semsagt formlega hafið. Ég valdi líklega erfiðasta árstímann til þess að snúa við blaðinu, viku fyrir aðventu, þegar sætindi og almennt gotterí flæðir um allt og jólaboðin. Í rauninni finnst mér það bara spennandi, í það minnsta er áskorunin risastór í mínum augum.

Mér líður pínu eins og ég standi við risastór gatnamót og viti ekkert hvert ég á að fara eða hvað ég á að gera, því þrátt fyrir að hafa ögrað sjálfri mér með allskonar mataræði oft áður, þá horfi ég á þetta öðrum augum núna þar sem þetta snertir mín skjaldkirtisvandamál beint. En, hér kemur Helga Kristín sterk inn og leiðir mig yfir.

Ég veit ennþá voða lítið en mun gera mitt besta til að læra og svara eigin spurningum Ég mun mestmegnis greina frá þessu öllu saman á Instagramsíðunni minni í story. Ég mun einnig setja inn pistla hér, en svona dagsdaglega ræði ég þetta á Instagram, þannig að ég myndi elta mig þar ef þið hafið áhuga á þessum málum.

#samstarf

 

 

 

 

 

Pin It on Pinterest