Í erli síðustu daga hef ég annað slagið stoppað og leitt hugann að því hvað varð til þess að ég lenti á þann stað sem ég er í dag. Þá er ég ekki að meina að ég sé; tvífráskilin (einn skilnaður og eitt sambandsslit) fjögurra barna móðir, búsett á Reyðarfirði og vinni sem blaðamaður. Nei, heldur að ég sé orðin einhverskonar sjálfskipaður skilnaðarfulltrúi landsins, en það er varla fjallað um skilnaði í fjölmiðlum lengur án þess að ég fái hringingu.

Auðvitað veit ég það. Ég opnaði á mér munninn og leiðin var greið. Flóknara var það ekki.

Af hverju gerði ég það? Af hverju hélt ég bara ekki kjafti? Hvað er svona merkilegt við það þó svo ein miðaldra kona út á landi skilji? Er hún að drepast úr athyglissýki? Er hún að kalla eftir athygli og samúð. Eru ekki allir að skilja hvort sem er? Eru ekki allir orðnir þreyttir á þessu geðsýkisvæli í henni?

Eftir að ég sagði sögu mína í Vikunni um páskana í fyrra byrjaði snjóboltinn að rúlla. Ég fór að fá eitt og eitt bréf í pósthólfið mitt á Facebooksíðunni minni, frá fólki sem var að ganga í gegnum skilnað eða sambandsslit. Ég reyndi að miðla til þeirra af minni reynslu eftir bestu getu, en sagði alltaf það sama; að engin reynsla væri eins og þó svo sorgarferlið væri alltaf það sama, upplifði fólk það og ynni úr því á mismundandi hátt.

Já, jú. Það eru einmitt allir að skilja. Ég valdi ekki að tjá mig opinberlega til þess að koma sögunni minni á framfæri, enda hún bara sambærileg öllum hinum. Ég valdi að tjá mig því ég vissi að það væri mitt hlutverk að opna þessa umræðu. Opna inn í herbergi sorgar, reiði, depurðar, uppgjafar og vonleysis. Opna á þá umræðu að samfélagið lokar augunum fyrir þeim húsgögnum sem í herberginu eru og biður ábúandann vinsamlegast að hrista þessa ólund af sér hið fyrsta. Hætta nú að væla.

Síðastliðið haust bauð séra Hildur Eir Bolladóttir mér svo í þátt sinn Milli himins og jarðar á N4, til þess að ræða þessi mál. Eftir það brast skriðan. Ég hafði ekki undan að svara fólki sem hafði nýlega tekist á við skilnað eða sambandsslit. Fólki sem sá ekki fram á veginn og vissi ekki í hvorn fótinn það átti að stíga. Fólki sem spurði mig ráðþrota hvað það yrði lengi að ná djúpa andanum á ný eða þá lenda, í það minnsta á annarri löppinni.

Í kjölfarið ákvað ég að stofna hóp á Facebook sem ég kalla Ertu að skilja og skilur ekki neitt – en hann er hugsaður fyrir fólk sem einmitt er að skilja og skilur ekki neitt. Bara ekki rassgat.

Það var svo í lok mars að Berghildur Eva Bernharðsdóttir, fréttakona á Stöð2, hafði samband þar sem hún var að skrifa frétt um sívaxandi skilnaðartíðni á landinu. Ég benti henni á að hafa samband við Guðnýju Hallgrímsdóttur, prest fatlaðra, sem hefur rannsakað líðan fólks við og eftir skilnaði og niðurstaðan kemur mér ekki á óvart, en það viðtal má horfa á hér.

Vel getur verið að einhverjir séu búnir að fá nóg en þá er lítið mál að skippa yfir eða skipta um rás. Vel getur verið að einhverjir kalli mig athyglissjúkt fórnarlamb, en mér bara getur ekki verið meira sama. Fyrir þann risavaxna hóp sem stendur í storminum miðjum hverju sinni held ég ótrauð áfram.

Ást og hugrekki til ykkar!

Pin It on Pinterest