Mig langar til þess að segja ykkur frá konunni sem átti stóran þátt í því að koma mér á lappirnar á sínum tíma, henni Hrafnhildi minni hjá Andlegri einkaþjálfun, en hún var einmitt að opinbera glænýja síðu fyrir starfsemi sína á dögunum.

Ég hef sagt frá því í viðtölum síðustu vikur að ég botni ekki í því hvernig í andskotanum ég fór að því að halda dagbók á þessum skelfilega tíma, en í rauninni var þó ekkert sem hjálpaði mér meira.

Dagana áður en Hrafnhildur féll niður úr skýjunum í rúmið til mín var ástandið sirka svona, en þetta er bein tilvitnun úr bókinni;

„Ligg bara eins og sært dýr sem nær ekki að standa upp. Græt stanslaust. Ég get ekkert. Ekkert annað en að liggja og stara út í loftið. Örmagna af allskyns hugsunum sem ég ræð ekki við frekar en ég væri að reyna að verkstýra 70 manns í tælensku þvottahúsi. Fæ ekki einu sinni frí yfir blánóttina. Rétt dotta nokkrar mínútur hér og þar en vakna upp grátandi, kófsveitt og með púlsinn í 200.“

Ég segi svo frá því þegar ég var að vafra um Facebook, nánast án meðvitundar, þegar upp poppar tillaga að síðu; Andleg einkaþjálfun, en Hrafnhildur ber einmitt nafnið Andlegi einkaþjálfarinn í bókinni.

„Sendi línu án þess að hugsa. Heyri aftur í lækni, líður svo óbærilega að ég hræðist gjörðir mínar. Hann segir að það sé allt í lagi að ég noti róandi töflurnar eins og þarf meðan ég er að komast yfir erfiðasta hjallann. Ég geri það og dorma í hálfgerðu móki.“

Til að gera langa sögu stutta hafði Hrafnhildur samband um hæl og hóf á mér „akút-meðferð“. Hrafnhildur rétti mér verkfæri og kenndi mér aðferðir sem hreinlega miðuðu að því að koma mér í gegnum hvern og einn dag á þessum tíma.

Andlega einkaþjálfun Hrafnhildar byggir hún á þerapíunni Lærðu að elska þig sem hönnuð er af Ósk Friðriksdóttur sem hefur verið búsett á Bali í mörg ár. Ósk ber nafnið Miss Bali í bókinni.

Á síðu Hrafnhildar, Andleg einkaþjálfunin – segir hún þjálfunina vera sniðna fyrir alla þá sem vilja leiðsögn og gott aðhald við að koma sér á betri stað andlega og í lífinu almennt.

Á síðu Óskar segir að um sé að ræða einstaklingsmaða þjálfun, fróðleik og verkefni þar sem kenndar eru aðferðir sem stuðla að jákvæðara sjálfsmati, auknu sjálfsöryggi, ánægjulegri lífssýn og meiri lífsgæðum.

Já, takk, hver vill það ekki?

Síðar fór ég svo sjálf til Bali til þess að tileinka mér fræðin enn frekar, en það er seinni tíma saga.

Gott andlegt form skiptir ekki síður mál en það líkamlega og er ein besta fjárfesting sem þið getið gefið ykkur sjálfum. Ég mæli með að þið kynnið ykkur málið hjá mínum konum.

P.s. forsíðumyndin er af Andlega einkaþjálfaranum fljúgandi.

 

 

 

Pin It on Pinterest