Ég hef hugsað um þessa færslu af og til nokkuð lengi. Ég veit nákvæmlega um hvað ég ætla að skrifa en hef ekki hugmynd um hvernig ég ætla að koma því frá mér.

Jú ok. Ég semsagt spyr; er ekki val að vera síngúl? Einhleypur, þið vitið. Æji, ég kýs að nota orðið síngúl í þessar færslu, einfaldlega af því að mér finnst það hljóma miklu skemmtilegar en orðið einhleypur, svona meira hipp og kúl og jafnvel aðeins minna miðaldra. Ég veit að það fyrra er orðskrípi tekið úr ensku, en hitt er bara svo þunglamalegt og niðurdrepandi.

Af hverju spyr hún að þessu núna, konan sem hefur verið ein í rúm þrjú ár. Er hún kannski að spyrja fyrir vin? Nei alls ekki, því á mínum þriggja ára sólóferli (enn betra orð) hafa algengustu spurningarnar til mín verið;

  • Er ekkert að gerast?
  • Ertu ekki að tala við neinn?
  • Ertu ekkert að deita núna?
  • Hefur þú kannski bara ekkert verið að deita ALLAN þennan tíma?
  • Já og bara hvernig geeeetur þú verið ein svona lengi?

Jú, jú, öndum aðeins. Ég hef talað við einn og annan. Verið boðið á deit og sjálf boðið á deit, bara svona eins og gerist og gengur. En að mestu hef ég verið ein. Af því mig hefur langað til þess. Einnig vegna þess að mér finnst ég hafa þurft þennan tíma ein og liðið vel með það, burt séð frá einstaka knúsi og kjassi hér og þar, sem auðvitað er voða notó.

Ég ætla aðeins að stoppa hér og endurtaka setningarbútinn; af því mig hefur langað það. Það er þarna sem mér finnst samfélagið hætta að trúa mér, hallar undir flatt, brosir góðlátlega og segir; oooh, krútt! Horfir samt á mig eins og ég sé hálfgert frík.

„Ha, langar þig að vera ein?“ endurtekur það þegar það kemur til sjálfs síns og augun verða eins og mylluhjól. „Já en, það langar engan að vera einn,“ heldur það áfram og hækkar róminn. „Af hverju ætti þig að langa það?“ spyr það æst og skilningsvana.

Í ágúst rataði ég inn á hinn hávísindalega lista sem Smartland birtir árlega um eftirsóttustu einhleypu konur landsins, byggðan á innsendum ábendingum lesenda. Helstu athugasemdirnar frá mannvitsbrekkunum, „virkum í athugasemdum“ voru á þessa leið; og af hverju eru þessar konur svosem á lausu ef þær eru svona eftirsóknarverðar?

Já plís, getur einhver svarað þessu? Hvernig bara stendur á því að þessar eftirsóttu konur „ganga ekki út“? Hva, vill þær enginn? Geta þær ekki haldið í maka sína, fussumsvei!

En, getur hugsanlega verið að þær sjálfar vilji engan í augnablikinu? Að þeim henti bara áægtlega eins og sakir standa að njóta þess að vera einar og óháðar? Er það virkilega ekki eitthvað sem gæti bara talist fjári notaleg og spennandi hugsun? Ekki? Nei, ok.

Já það virðast almennt talin skelfileg örlög að vera einn og eitthvað sem engin mannvera myndi sjálf kjósa sér. Og ef svo illa hendir þá skal vinna að því að bæta úr því ástandi ASAP, áður en illa fer. Finna sér maka sem fullkomnar þig eins og Sálin hans Jóns míns söng hér um árið. Já og skapar þína hamingju sem telst ómögulegt að þú gerir upp á eigin spýtur.

Svo ég svari nú spurningunni sem brennur á svo mörgun; af hverju ætti mig að hafa langað að vera ein þennan tíma? Fyrst um sinn var ég hreinlega vanhæf af vanlíðan og með hausinn fullan af ósöltum hafragraut og vissi hvorki í þennan heim né annan. Það síðasta sem hefði átt að gera þá var að rúlla mér í nýtt samband til að deyfa mig og mínar tilfinningaflækjur, það hefði bæði verið ósanngjart gangvart sjálfri mér og ekki síst nýjum maka að vera með þann skít í farteskinu.

Tíminn leið svo og ég vann markvissa heimavinnu í átt að uppbyggingu sjálfsins. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég vildi gefa mér tækifæri til þess að læra að una með sjálfri mér, vera sjálfri mér næg og treysta sjálfri mér fyrir eigin hamingju. í það minnsta um stund. Ég er sérstaklega þakklát fyrir þá ákvörðun og síðustu þrjú ár hafa verið lærdómsríkt ferðalag.

Auðvitað tala ég bara fyrir mig og engan annan. Öðrum hentar líklega eitthvað allt annað. Það sem ég á kannski helst við er að mér finnst þetta viðhorf, að það sé algjört „ab-norm“ að vera einn, mætti alveg endurskoða í samfélaginu. Það er í alvöru ekki þannig að allir þeir makalausu liggi á bæn öll kvöld og einnig í hádeginu og biðji æðri mátt um að skilja annan einstakling fyrir utan heima hjá sér til þess að bjarga sér úr prísundinni.

Vel getur svo verið að ég verði svo orðin yfir mig ástfangin ekki á morgun heldur hinn því við vitum að ástin spyr hvorki um stund og stað. Um leið og ég hlakka til þess að upplifa ástina á ný nýt ég núverandi stöðu minnar og þykir vandræðalega gott að eiga mig sjálf og vera minn eigin herra.

Það nefnilega getur verið val að vera síngúl, alveg satt.

Pin It on Pinterest