Þessari mynd, eða færslu, hér að neðan var deilt í hópnum Ertu að skilja og skilur ekki neitt í gærkvöldi.

Fyrir mig var hún svo mikið; Já, já og aftur já! Ég hef svo mikið að segja um akkúrat þetta, að það verður líklega – Lifðu fyrir sjálfan þig og vertu hamingjusamur með þér, part 1-10.

Þá er ég ekki að tala fyrir því að allir eigi að henda frá sér sínum maka eða ráða þeim einhleypu frá því að fara nokkurn tímann aftur í sambúð. Bara alls ekki. Heldur að það er enginn dauðadómur eða hræðilegt að vera einn um tíma, þvert á móti bæði hreinsandi og þroskandi.

Það hinsvegar virðist hræða fólk eftir skilnað eða sambandsslit, að lifa eitt með sjálfu sér. Það er jú vissulega miklu auðveldara að henda sér beint í daður og annað samband til þess að dempa þá vanlíðan sem felst í þessari reynslu, sem oft á tíðum er bæði erfið og sársaukafull. Með því að kynnast nýjum maka er hægt að fara á hraðferð gegnum öldurnar og kaffæra erfiðu tilfinningunum með öllum þeim rósrauðu tilfinningum sem nýju ásarsambandi fylgir.

Það er mín kenning að það sé skammgóður vermir, svolítið eins og að pissa í skóinn sinn. Nú dettur mér heldur alls ekki í hug að setjast í eitthvað dómarasæti, en allt það sem ég skrifa á þessa síðu er mín upplifun og þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar á nokkurn hátt. Sjálf hef ég upplifað hvort tveggja, bæði að velta mér úr einu sambandi í annað og svo núna, að gefa mér allan þann tíma sem ég þarf til að jafna mig og nýta reynsluna og einveruna mér til vaxtar og þroska. Ég kýs seinni kostinn og verð þá vonandi tilbúin fyrir ástina þegar hún bankar uppá.

Ég er svo rosalega sammála henni Heru Björk Þórhallsdóttur, en ég las nýlega viðtal við hana í MAN magasín, þar sem hún meðal annars kom inn á skilnaði og sambandsslit;

„Ég hef sterkar skoðanir á því að fólk sem skilur verði að klára þá vinnu sem í því felst. Ég er viss um að það taki tvö ár að vinna þá vinnu að koma sér út úr sambandinu. Ég er reyndar á því að það taki alltaf tvö ár að byrja á einhverju nýju. Það tekur tvö ár að komast inn í nýtt starf. Það tekur tvö ár að koma sér fyrir á nýju heimili. Það tekur tvö ár að skilja og það tekur að lágmarki tvö ár að kynnast nýjum maka. Ég hvet alla til að gefa sér góðan tíma einn eftir skilnað, það er stórt verkefni að fara í gegnum þetta og það er beinlínis ósanngjarnt að draga nýjan maka inn í sitt uppgjör.“ 

Þetta er eiginlega efni í annan pistil, þá kannski part2 – en ólíklegt verður að teljast að einhver hafi klárað sitt uppgjör, ytra og innra með sér eftir kannski fjóra mánuði frá skilnaði eða sambandsslitum. Það bara er ekki þannig og það kemur þá á endanum til með að lita nýja sambandið. En, svo lengi lærir sem lifir og allt það.

Já, það var færsla Jay Shetty sem talaði svo til mín. Njótum þess að vera ein heima og geta haft allt eins og við og aðeins við viljum. Hendum í eitt ævintýri, annað hvort ein eða með vinum. Skoðum heiminn upp á eigin spýtur og njótum þess að gera bara nákvæmlega það sem okkur langar, þegar okkur langar, en það verður ekki svo einfalt þegar nýr maki verður kominn inn í lífið.

Í alvöru, það er gott að prófa að lifa lífinu á eigin forsendum og fylla það með ást til sjálfrar sín. Að ná því marki að upplifa sig heilan án þess að treysta á einhvern annan til að fylla upp í tómarúmið. Að verja tímanum frekar í að læra inn á sjálfan sig, í stað þess að bíða og vona að einhverjum henti að elska þig, nú eða þá svekkja sig á því að einhver vilji þig ekki. Eða, eins og mín uppáhalds sjónvarpsþáttapersóna Carrie Bradshaw segir; „Dont forget to fall in love with yourself first.“

Miklu meira þessu tengt síðar.

 

 

Pin It on Pinterest