Þetta er að gerast. Bókin kom með skipi úr prentun í Lettlandi í gær, 2000 eintök duttu á lagerinn, þaðan sem þeim var svo og verður keyrt út í verslanir Eymundsson eftir þörfum. Ég fagna svo áfanganum með mínu fólki um næstu helgi í Reykjavík.

Um leið og þetta er orðin raunverulegt er þetta mér svo fjarlægt. Ferlið er búið að vera svo langt en um leið svo stutt síðan það rúllaði af stað af fullum krafti.

Ertu ekki spennt? Ertu ekki stressuð? Hvað heldur þú að fólkið þitt segi? Fólkið hans? Ertu ekki hrædd? Heldur þú að þú verðir ekki jörðuð í fjölmiðlum? Svarið mitt er alltaf það sama. Nei, veistu, ég er bara alveg róleg. Komi það sem koma skal, það sem gerist, gerist og ég er alveg búin að sjá að maður breytir engu um það.

Það er enginn vafi á því að efni bókarinnar er og verður umdeilt – og ef ég er óvægin við einhvern í henni, þá er það við sjálfa mig. En meðan ég er mér sjálfri trú, veit sjálf fyrir hvað ég stend og hver minn tilgangur með henni og þessu öllu saman er þarf ég ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég ætla öðrum ekki að hafa sömu skoðun og ég og þær virði ég.

Ég var að ræða þetta við vinkonu mína í gær, sem einmitt kemur fyrir í bókinni undir nafninu Alheimsvinkonan. Hún sagði; „Bara plís, ef þú þarft að fá þér hauspoka, getur þú þá passað að hafa hann gulan í stíl við bókina.“

Gleðilegan lestur og mér þætti vænt um að fá ykkar álit eftir hann.

Mæli með að „læka“ Facebook-síðuna fyrir bloggið svo þið fáið tilkynningu þegar nýtt færsla dettur inn.

Mæli einnig með að fylgja mér á Instagram.

 

Pin It on Pinterest