Ég tók skyndiákvörðun á miðvikudaginn. Þar sem ég sat við eldhúsborðið heima hjá mér og vann tók ég upp símann;
Ég; Hæ. Hérna, hvernig býrðu þarna á Flateyri?
Beta vinkona; Ha? Hvar? Ertu að spá í heimilisfangi?
Ég; Nei. Sko. Hvernig og hvar býrðu? Get ég komið til þín?
Beta; Iiii, já. Það er laust herbergi. Komdu.
Ég; Ok! Ég kem á föstudaginn.
Sumsé. Beta vinkona mín býr í Reykjavík en verður að kokka á Vagninum á Flateyri í allt sumar. Hún er búin að presentera pleisið sem mestu paradís landsins undanfarin ár og ég var orðin verulega forvitin, en ég hef aldrei komið vestur á mínum fullorðins árum og man ekkert eftir ferð minni sem barn. Hún ætlar líka að halda afmælið sitt þar um miðjan júlí og þá hafði ég ráðgert að fara.
En, þar sem ég sat, vitandi að ég væri að sigla inn í rúmlega tveggja vikna barnleysi, ákvað ég bara að stökkva um borð í ævintýravagninn. Af hverju ekki, með allt heimsins frelsi, að fara bara núna og vera hjá henni í tvær vikur. Gera bara Austurgluggann og Austurfrétt út að vestan.
Til að gera langa sögu stutta þá henti ég einhverju í tösku (nei, þrjá bláa IKEA-poka en ég pakka aldrei nokkurntíman í annað innanlands) og keyrði af stað vestur í gærmorgun. Þegar ég kom að Staðarskála var landfræðileg kunnátta mín á þrotum. Upp með Google-Maps. Þetta hafðist allt saman, að mér fannst, 30 tímum síðar, en þetta er andskoti löng leið. Ferðaþreytan gleymdist þó um leið og ég komst á áfangastað og Beta tók á móti mér með súrdeigsbrauði á Vagninum.
Það er svo undarlegt að vera á landsvæði þar sem maður hefur aldrei komið, allt er svo framandi. Við fórum aðeins yfir á Ísafjörð í dag þar sem ég kíkti meðal annars í Eymundsson og varð að sjálfsögðu að taka mynd af mér við metsölulistann, þar sem ég hangi enn á topp tíu – í sjöunda sæti.
Ég ætla að vera hér næstu tvær vikur. Gera vinnuna mína út frá Vagninum, ásamt því að keyra aðeins um, lifa, njóta og upplifa. Kannski líka skrifa eitthvað skemmtilegt, hver veit, allavega henti ég upp breinstorm-síðu í dagbókina mína.
Ég ætla að vera dugleg á Instagram, þannig að ef ykkur langar að koma með í ferðalag þá endilega fylgið mér á; boel76