Ég hef alla tíð haft alveg sérstakan áhuga á dagbókum, minnisbókum, já og bara hverskonar bókum sem eru ætlaðar til skipulagningar, ég er nú ekki steingeit fyrir ekki neitt!

Ef ég fer í bókabúð sogast ég alltaf að þeim rekka sem geymir þessar bækur, en þar get ég staðið, skoðað þær og strokið í lengri tíma en góðu hófi gegnir.

Fyrir stuttu sagði ég frá sí-vaxandi áhuga mínum á markmiðasetningu og ég setti mér einmitt markmið fyrir árið 2019 á fundi með vinkonu minni fyrir jól. Við settum í kjölfarið niður fjóra stöðufundi fyrir árið til þess að fylgja okkar markmiðum eftir, en frá þessu öllu er greint í umræddri færslu.

Þrjú ár eru síðan ég gerði mér fyrst svokallaðan „Bucket-lista“ og hef ég reglulega uppfært hann síðan. Listinn minn hefur ekki átt sér neinn almennilegan samastað, heldur hefur hann flust milli bóka sem ég notaði í vinnunni. Fyrir mig virkar betur að handskrifa bæði markmið og svona lista, það bara gerir ekkert fyrir mig að hafa þá í símanum eða tölvunni. Ég einfaldlega tengi ekki eins vel við þá þannig, en einmitt það var meðal þess sem ég hafði eftir Erla hjá MUNUM í sömu færslu, en hún gaf mér ýmis góð ráð við markmiðasetningu við vinnslu hennar.

Að efninu; Í haust sá ég að gömul skólasystir og samfélagsmiðlavinkona mín, Dagný Sylvía Sævarsdóttir, var að segja frá bók sem ég kolféll fyrir. Bókin heitir einfaldlega My Bucket list, en í henni er pláss fyrir 100 atriði sem þig langar til að framkvæma.

Dagný Sylvía sagði bókina til hérlendis sem reyndist rétt. Mér þótti hún hins vegar of dýr, en hún kostaði um 6000 krónur. Ég leitaði því á netinu og fann alveg sömu bókina á Amazon fyrir helmingi minni upphæð. Ég pantaði hana í nóvember en pakkaði henni strax inn og gaf sjálfri mér hana með viðhöfn í jólagjöf.

Bókin er ótrúlega vegleg, stílhrein og eiguleg. Hvert og eitt atriði fær heila opnu fyrir sig. Vinstri opnuna getur maður unnið um leið og markmiðið er skrifað í bókina, en á henni veltir maður því til dæmis upp hvers vega okkur langar að framkvæma atriðið, hvað þarf til að við gerum það og svo framvegis. Hægra megin er svo uppgjör eftir að markmiðinu er náð.

Ég hef tekið eina mikilvæga ákvörðun varðandi bókina, í það minnsta að mínu mati. Mér finnst fólk almennt hálf hrætt við þetta hugtak, bucket-listi, í þeirri meiningu að á honum eigi aðeins að vera einhver risastór og nánast óyfirstíganleg markmið sem maður vill upplifa áður en yfir lýkur, þið vitið: fallhlífastökk, ganga á Kínamúrnum og fara með alla fjölskylduna á Galapagos-eyjar.

Sjálf hef ég verið hálf feimin við að fylla á listann minn og fundist það sem ég honum er frekar óraunhæft. Ég ætla að breyta þessu og vera með markmið af allskonar stærðum og gerðum á mínum lista, Stóru og metnaðarfullu markmiðin á borð við ferðalag til Víetnam og Edduverðlaun eru enn á listanum en einnig minni og hversdagslegri markmið eins og að sofa með Emil í tjaldi næstkomandi sumar, fara í náttúrulaug og bingó í Vinabæ.

Ég er aðeins byrjuð að fylla bókina út. Á hverri opnu er gert ráð fyrir mynd eftir að markmiðinu hefur verið náð, en það er lítið máli í dag að prenta Instagram-myndir að utan fyrir eitthvað klink. Bókin verður því draumfalleg þegar hún smá fyllist, verður nokkurskonar biblía drauma minna.

Ég er ótrúlega ánægð með að draumarnir mínir hafi loksins fengið það sæti sem þeir eiga skilið. Mæli með!

Pin It on Pinterest