Eins og ég sagði frá hér tók ég skyndiákvörðun og brunaði vestur á Flateyri þegar barnlausa tímabil sumarsins hófst þar sem ég lék ferðamann (í vinnu) í tvær vikur í einstaklega góðu yfirlæti.

Aðsetur Austurfréttar og Austurgluggans þennan tíma var Vagninn á Flateyri – þar sem ég sat fyrir vestan og skrifaði fréttir að austan. Ég vissi ekkert í minn haus þegar ég lagði af stað í þessa langferð, nema það að ég ætlaði mér að vera hjá Betu vinkonu minni sem stendur kokkavaktina á Vagninum í allt sumar. Þess utan var ég blankó, vissi ekkert um Vestfirði, ekkert um veitingastaðinn Vagninn og svosem ekkert hvort Beta væri neitt brjálæðislega góður kokkur.

Í alvöru. Bara ekki láta staðinn fram hjá ykkur fara ef þið eruð á leið vestur og persónulega myndi ég aftur keyra þessa 900 kílómetra, til þess eins að fá einn disk af fiskisúpunni. Bara einn enn.

Þeir sem mig þekkja vita að ég borða allt – fyrir utan það að borða mjög mikið og hratt. Þannig að kannski væri ekki tekið mark á mér einni og sér þegar ég segi að besta súpa sem elduð er á Íslandi í dag (og þótt víðar væri leitað) sé á Vagninum. Ég hef bara heyrt svo marga segja þessa setningu síðustu daga að ykkur er alveg óhætt að trúa.

Beta semsagt er brjálæðislega góður kokkur, ég veit það núna. Ekki bara góður heldur einnig hugmyndaríkari en heil leikskóladeild af frjóum hugum. Súpan hennar – Fiskisúpa með reyktum rabbarbara. Ómæ god! Já ég veit. Það hljómar eins og hún hafi verið á perunni þegar hún henti uppskriftinni saman. Ekki nóg með það, heldur virðist hún einnig hafa sett eitthvað ávanabindandi í hana, því guð minn góður – ég fæ ekki nóg!

Fiskisúpan er ekki það eina. Matseðillinn er lítill en það er líka allt gott á honum. Það voru hjón um daginn frá Ameríku sem pöntuðu allt á honum. Nó djók. Bara allt. Bara meir og meir, þangað til að það valt út úr eyrunum á þeim. Þegar þangað var komið spurðu þau Betu hvort hún kæmi ekki með þeim yfir hafið og bara opnaði stað. Ég veit ekki hvort hún er hreinlega á leið í útrás með sinn reykta rabbarbara.

Fiskurinn er dásamlegur og oftar en ekki veiddur af Vagns-meðlimum. Hamborgarinn og vegan Alioli-sósan, maður lifandi. Skyrdesertinn með hvíta súkkulaðinu og marengsinum er á við þrefalda raðfullnægingu og hundasúruísinn hennar Söru, men!

Í alvöru. Ef þið eruð orðin leið á rigningarlífinu þarna úti og langar í ævintýri, þá skellið ykkur fyrst vestur og komið svo hingað austur í sólina. Það hljómar eins og skothelt plan.

P.s. Það eru frábærar myndir að vestan á Instagram-síðunni minni. Endilega bætið henni við hjá ykkur.

Þeir fiska sem róa – miðnætursigling á Flateyri

 

Stundum koma gestakokkar – eins og hún Ragga Eiríks sem tryllti lýðinn með afar exótísku marakósku lambalæri og meððí.

 

Meistarakokkur á perunni – að sjálfsögðu!

 

Kjötloka með allskonar og Alioli-sósunni hennar Söru.

 

Fiskur með hundasúrupestói, Betukexi og Hollandaise sósu.

 

Hundasúru-ísinn hennar Söru og hjónabandsælan hans Geirs. Kombó sem klikkar ekki.

 

 

 

Pin It on Pinterest